Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 18:40:18 (1203)

1998-11-17 18:40:18# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[18:40]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Sú umræða sem farið hefur fram í dag hefur verið afar athyglisverð. Menn hafa farið um víðan völl, rætt um atvinnumál, félagsmál, menningarmál, menntamál og allt það sem snert getur mannlega líðan og aðstæður, enda er það eðlilegt vegna þess að byggðamál er ekkert einstakt mál heldur öll þau mál sem snerta aðstæður og afkomu manna.

Hvað er þá byggðastefna? Byggðastefna er fyrst og fremst, herra forseti, vilji til að hafa leikreglur þannig að fólk og fyrirtæki hafi sambærileg tækifæri um allt land. Byggðastefna er þannig kannski frekar aðferð en tiltekin mál. Aðferð sem snýst um það að leitast við að koma á jafnrétti þar sem mönnum finnst um ójafnræði vera að ræða. Til þessa þarf því að taka tillit í allri löggjöf, herra forseti, vegna þess að byggðastefna er ekki sunnudagsmál, ekki eitthvað sem við afgreiðum í tiltekinni tillögu sem hér liggur nú fyrir heldur reynir á vilja manna til þessa jafnréttis við alla löggjöf hvort sem hún snýst um menningarmál, um menntamál, um atvinnumál eða hvað eina sem varðar hagsmuni manna.

Ég geri þess vegna ekki athugasemdir við það þó að í þessari tillögu séu atriði sem við höfum séð í lagafrv. sem hér hafa komið fram. Þvert á móti lít ég svo á að sú tillaga sem hér liggur fyrir gæti orðið okkur mikilvægt gagn til viðspyrnu þegar verið er að setja lög á hv. Alþingi, viðspyrnu vegna þess að ég hlýt að álykta sem svo að það verði vilji hæstv. ríkisstjórnar að þær áherslur sem hér koma fram og verða væntanlega samþykktar verði samþættar annarri þeirri löggjöf sem héðan verður afgreidd, enda segir í einni af þeim greinum sem upp eru taldar þegar verið er að lýsa helstu aðgerðum sem gripið verður til að Byggðastofnun eigi að meta reglulega áhrif lagasetningar, fjárlagagerðar og einstakra stjórnvaldsaðgerða á byggðaþróun í landinu. Þetta álít ég mjög mikilvægt, herra forseti, sérstaklega vegna þess að ég hef orðið fyrir því, og það á væntanlega við um fleiri, að þegar ég hef óskað eftir að tekið væri tillit til landsbyggðarinnar við tiltekna lagasetningu, þá hefur mér verið bent á að fyrir þinginu liggi tillaga um stefnu í byggðamálum. Þetta er, herra forseti, það sem ég hef nefnt sunnudagsstefnu. Ég viðurkenni einfaldlega ekki að byggðastefna eða byggðamál séu eitthvað sem við lokum inni í ákveðinni tillögu heldur er þetta aðferð. Ég sé þá tillögu sem hér liggur fyrir sem viðspyrnu fyrir okkur sem viljum hafa viðspyrnu þegar hér er almennt verið að fjalla um löggjöf, löggjöf sem á að snúa réttlátt að öllum þegnum landsins.

[18:45]

Menn velta því stundum fyrir sér hvert sé mikilvægi þess að halda landinu öllu í byggð. Um það hefur reyndar verið deilt en mér finnst það mjög jákvætt að á síðustu missirum hafa menn gert sér æ betur grein fyrir fjárhagslegu mikilvægi þess að halda landinu í byggð.

Það kom fram í utandagskrárumræðu sem efnt var til fyrr í haust og hefur sömuleiðis verið rakið í umræðunni í dag hvað það kostar samfélagið að þurfa að endurfjárfesta í grunngerð fyrst á einum stað og síðan á öðrum vegna sömu einstaklinga. Ég er handviss um það, herra forseti, að sú staðreynd að þetta er mikill kostnaður mun opna augu einhverra sem hingað til hafa ekki áttað sig á mikilvægi þess að við gætum frekara jafnréttis þegar við erum að fjalla um löggjöf og búa til leikreglur.

Ég er líka alveg sannfærð um að við munum smám saman gera okkur betur grein fyrir mikilvægi þess að viðhalda ákveðnum menningarlegum fjölbreytileika. Það er nefnilega þannig að lífið er mismunandi eftir því hvar menn búa á landinu. Bæði er margs konar menningararfur sem er mismunandi eftir svæðum og menn hafa viðhaldið heima í héraði og svo skapast að sjálfsögðu annars konar menning í þéttbýli og borg en skapast á fámennari stöðum eða í sveitum.

Ég er alveg handviss um það af því að menn tala um ferðaþjónustu sem mikilvægan þátt í atvinnuuppbyggingu framtíðarinnar að ef við ætlumst til að Ísland sé land sem ferðamenn hafa áhuga á að heimsækja, þá þurfum við að viðhalda þessari menningarlegu fjölbreytni. Allra síst held ég að við getum boðið ferðamönnum upp á að koma til Íslands til að sjá eftirlíkingu af því sem þeir hafa heima hjá sér. Nei, það er alveg ljóst, herra forseti, að ferðamenn sem koma til Íslands vilja sjá eitthvað öðruvísi. Þeir vilja skynja þá menningu sem hefur getið af sér það samfélag sem við búum við og þeim er fengur í því að fá að kynnast því hversu fjölbreytileg sú menning er eftir því hvar þeir eru staddir í landinu.

Menn hafa borið nokkuð saman þá fólksflutninga sem við búum við og þá sem eru annars staðar á Norðurlöndum. Sumir hverjir hafa ímyndað sér að hér væri um sambærilega fólksflutninga að ræða en svo er ekki eins og fram hefur komið. Það er því miður svo að okkur hefur tekist það óhönduglega að aðstæðum okkar má helst líkja við það sem er að gerast í ýmsum þróunarríkjum. Það eru mun minni fólksflutningar annars staðar á Norðurlöndunum frá því sem kannski má kalla jaðarsvæði eða norðursvæði til þeirra svæða sem eru nær höfuðborgunum.

Menn benda á að þarna ráði einhverju það fjármagn sem sett hefur verið til byggðamála, að menn hafi verið reiðubúnari til þess annars staðar á Norðurlöndunum að setja peninga í tilteknar aðgerðir en ég er líka alveg viss um það, herra forseti, að stjórnsýslan hefur heilmikið með þetta að gera. Á síðasta þingi samþykktum við ný sveitarstjórnarlög þar sem við viðhéldum því að sveitarfélög þyrftu einungis að telja 50 einstaklinga og við drógum úr vægi héraðsnefnda. Ég gerði þetta að umfjöllunarefni þá vegna þess að ég fæ ekki séð, herra forseti, hvernig við eigum með góðu móti að flytja verkefni til landsbyggðarinnar, ef við búum ekki til þær aðstæður stjórnsýslulega að unnt sé að taka við þeim. En í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er einmitt lögð áhersla á mikilvægi þess og sú áhersla er ekki of mikil að mínu mati vegna þess að það kemur fram í þeim fylgigögnum sem eru með tillögunni að reiknað er með því að hinum hefðbundnu störfum í landbúnaði og sjávarútvegi muni fækka mjög svo skiptir þúsundum á næstu árum og það er þeim mun mikilvægara að við sköpum þær aðstæður að störf, t.d. opinber störf og fjölbreyttari atvinnutækifæri geti orðið til víðar en á suðvesturhorninu og á allra stærstu stöðum úti á landi.

Menntun skiptir miklu máli, menning og almenn lífsgæði auk fjölbreyttra atvinnutækifæra, segir fólkið sem spurt er af hverju það vill flytja burt af landsbyggðinni. Þessi atriði lúta meira og minna, herra forseti, að frumkvæði hins opinbera og þess vegna skiptir verulegu máli að sú tillaga sem við erum að ræða í dag er fram komin, komin til umræðu það snemma á þessu þingi að það má ætla að hún verði afgreidd. Ef ég hef lesið þessa umræðu rétt, þá mundi ég halda að hún gæti orðið afgreidd fyrr en seinna af því að mér heyrist að það sé nokkuð ríkur samhugur meðal þingheims að ekki sé eftir miklu að bíða. Menn vilja gjarnan fá það tæki sem þessi tillaga getur verið til viðspyrnu en ég vil samt taka undir með þeim sem hafa haft af því nokkrar áhyggjur að menn væru að friðþægja með pappír en ekkert yrði af aðgerðum.

Herra forseti. Ég var að ræða um sveitarfélögin og hversu nauðsynlegt það er að þau séu stærri og öflugri og geti tekið við verkefnum því að það er ekki nóg að tala um verkefnin ef ekki er stjórnsýslustig til að taka við þeim eða nægilega öflug sveitarfélög. Menn hljóta að hafa áhyggjur þegar þeir líta til þeirrar áætlunar sem við eigum að vera að starfa eftir núna en það var einmitt samþykkt þál. um stefnumótandi byggðaáætlun sem átti að gilda frá árinu 1994--1997, hún var samþykkt vorið 1994. Þar segir orðrétt:

,,Stefna skal að valddreifingu með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Forsenda fyrir því er sameining eða samningsbundið samstarf sveitarfélaga. Aðgerðir í þessu skyni verði meðal annars eftirfarandi:

1. Tillögur um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga verði lagðar fyrir Alþingi sem fyrst.

2. Opinber þjónusta og starfsemi opinberra stofnana verði aukin á landsbyggðinni en dregin saman á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi. Komið verði á samstarfi ríkisstofnana um svæðisskrifstofur þar sem það þykir hagkvæmt.``

Herra forseti. Þetta var árið 1994 og við værum öðruvísi og betur stödd ef við hefðum framfylgt þessum tillögum en þetta væru ekki einungis orð á blaði. Því vil ég leyfa mér að setja fram þá von að þær tillögur sem hér liggja fyrir og við getum væntanlega samþykkt á þessu þingi, að örlög þeirra verði önnur en taka einungis það magn af pappír sem þær gera að þær muni verða það vopn og sú viðspyrna sem við þurfum til þess að hér verði jafnrétti í landinu þar sem okkur þykir á hallað.

Herra forseti. Við veltum því stundum fyrir okkur af hverju sé kvartað. Af hverju er alltaf verið að tala um það sem miður hefur farið þegar málefni landsbyggðarinnar ber á góma? Ég veit að það er skoðun ýmissa sveitarstjórnarmanna og þeirra sem bera hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti að það þurfi að hafa býsna hátt um þá erfiðleika sem þar eru til þess að ná eyrum valdhafanna hér syðra. En því miður hefur þessi aðferð þau hliðaráhrif, þann galla, að menn draga við sig að fjalla um hvað er jákvætt við það að búa úti á landi og ímynd landsbyggðarinnar er orðin þannig, a.m.k. í hugum margra ungmenna að það er talað um það sem þar gerist sem eitthvað svona ,,úti á landi`` dæmi. Það er að gerast núna, herra forseti, að okkar virtustu rithöfundar, þeir sem skrifa fyrir börn og unglinga, skrifa orðið bækur sem eru í þá veru að börn eða ungmenni fara ekki lengur út á land til þess að kynnast því lífi sem lifað er þar, heldur fara þeir út fyrir höfuðborgarsvæðið til að takast á við óblíða náttúru og þannig hefur landsbyggðin í rauninni orðið sömu ímynd og miðhálendið hafði, þ.e. menn takast á við náttúruvættir og erfiðleika og koma síðan sterkari aftur til byggða.

Það er ekkert óeðlilegt þó að ungmenni sem aldrei hafa fengið aðstöðu til þess að starfa úti á landi eða vera þar þó þau hugsi svona þegar við horfum svo á þá umfjöllun sem t.d. fjölmiðlar eru með um landsbyggðina þar sem ekkert þykir frétt nema eldgos, jarðskjálftar eða ef einhverjar hamfarir eiga sér stað í atvinnulífinu.

Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að við höldum því til haga hvað er jákvætt við að búa úti á landi, að það kom líka fram í þeim könnunum sem gerðar voru að fólkið sem býr úti á landi er ánægt með opinberu þjónustuna, það er ánægt með skólana, heilsugæsluna, leikskólana, að nálægðin við náttúruna gefur alveg sérstök tækifæri og möguleika og að þátttaka í menningarmálum ýmiss konar er með allt öðrum hætti og frjóari. Þessu þurfum við að halda til haga, herra forseti, og ekki seinna en nú.