Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 18:57:03 (1205)

1998-11-17 18:57:03# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[18:57]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Hjálmar Jónsson skuli taka undir við málflutning minn um það hversu mikilvægt það er að við sem til þess höfum nokkra aðstöðu bætum og skerpum hina jákvæðu ímynd landsbyggðarinnar. Því miður er sá tími sem hverjum ræðumanni er ætlaður í umræðunni ákaflega stuttur. Það er fjöldinn allur af málum sem ég hefði viljað koma að en þegar ég sá að tími minn var nánast þrotinn, herra forseti, ákvað ég að reyna að koma því að sem mér finnst persónulega jákvætt við að búa úti á landi og sem ég veit að þeim vinum mínum sem þar búa finnst líka. Þá vil ég gjarnan nefna það enn til að ég líki því ekki saman, herra forseti, hversu mikil forréttindi það eru að fá að ala börn upp úti á landi miðað við það sem ég þarf að horfa upp á hér á þessu svæði, þar sem vegalengdir og öll aðstaða er svo margfalt erfiðari. Ég þurfti sem ung móðir að búa hér um tíma með barn mitt og taldi að hag okkar væri margfalt betur borgið úti á landi og það reyndist rétt.

Það er nefnilega rétt sem fólkið segir í þessum könnunum að opinbera þjónustan úti á landi, skólarnir, leikskólarnir, heilsugæslan, þetta er allt með miklum ágætum. Auðvitað eru undantekningar eins og menn hafa talað um í dag en almennt talað er fólk ánægt með þessa þjónustu og við eigum að halda því á lofti vegna þess að það skiptir verulegu máli að þarna hafi verið gerðir góðir hlutir sem fólk er sátt við.