Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 19:22:09 (1212)

1998-11-17 19:22:09# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[19:22]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann taldi þeim hugmyndum allt til foráttu sem fram koma í byggðaáætluninni og eru um það að bæta stöðuna hvað varðar orkuverð í landinu. Orkunotkun fer vaxandi á öllum sviðum og það fer ekkert á milli mála að orkuverð í landinu --- það þekkja allir --- er mjög mismunandi og það skiptir mjög miklu máli. Í þeirri viðamiklu og ágætu rannsókn sem tillagan byggist á er vakin athygli á því að hátt orkuverð sé ein aðalástæða fólksflutnings.

Þess vegna kom mér verulega á óvart hvernig hv. þm. rak hornin í þetta. En um leið hallaði hann sér auðvitað að því sem hann best þekkir, þ.e. tölvuvinnslu og það er kannski út af fyrir sig ekki óeðlilegt. Ég held að ekki verði mjög mikil framþróun í atvinnulífinu úti á landi ef ekki tekst að draga úr hinu háa orkuverði, eins og það er nú, hvort heldur það er raforkuverð eða verð á heitu vatni. Þess vegna vildi ég spyrja hv. þm. hvaða leiðir hann sjái aðrar til þess að koma til móts við þessa ákveðnu athugasemd sem kom fram í þessari margrómuðu rannsókn sem fram fór áður en byggðaáætlunin var sett saman.