Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 19:24:17 (1213)

1998-11-17 19:24:17# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[19:24]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að allir greiði rétt verð fyrir þær vörur sem þeir neyta og þann kostnað sem fylgir. Annað skekkir hagkerfið. Ef menn eru hvattir til þess að nota raforku á Vestfjörðum með niðurgreiðslum þannig að þeir noti meiri raforku en þeir ella mundu gera, einangri hús sín verr en þeir ella mundu gera og leiti kannski ekki að heitu vatni í jörðu sem þeir ella mundu gera ... (EOK: Við megum ekki virkja. Ríkiseinokun.) Já, það er kannski rétt hjá hv. þm. að e.t.v. er það einmitt einn angi af miðstýringunni að Vestfirðingar skuli vera svona háðir dýru rafmagni af miðhálendi Íslands. Það undirstrikar það sem ég gat um.

Ég held að þegar farið er að niðurgreiða hluti, sérstaklega í miklum mæli, þá skekki það neysluna, það skekki kostnaðinn. Ég væri næstum hlynntari því að menn fengju eingreiðslu fyrir húshitunarkostnaði og réðu svo sjálfir hvernig þeir eyddu peningunum, hvort þeir eyddu þeim til þess að kaupa dýrt rafmagn eða til þess að einangra betur eða til þess að leita að jarðvarma.