Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 19:32:34 (1220)

1998-11-17 19:32:34# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[19:32]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Í dag hafa margir talað, mismunandi hástemmdir og mismunandi háfleygir. Vegna ræðu sem var haldin um stóriðju og mengun vil ég segja það að ég er stoltur af því að hafa staðið að því að byggð var stóriðja á Grundartanga. Ég er stoltur af því að hafa staðið að því að það á að stækka járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og ég hefði ekki viljað sjá atvinnusvæðið í kringum Akranes og á sunnanverðu Vesturlandi ef ekki hefði orðið um þá stóriðju að ræða sem þar var byggð upp. Það varð til þess að mörg járniðnaðarfyrirtæki, tréiðnaðarfyrirtæki og byggingarfyrirtæki, sem voru bókstaflega á hnjánum, hafa risið upp. Þetta vil ég segja vegna þeirrar umræðu sem hefur farið fram um stóriðju í dag. Þá geta menn merkt af því hver skoðun mín er á stóriðjumálum.

Sumir hafa byrjað ræðu sína með góðæristali. Ég ætla ekki að neita góðæri. En af þeirri ástæðu verð ég að svara því að góðæri er ekki hjá öllum þegnum Íslands. A.m.k. sitja þeir eftir, herra forseti, sem eru með lífeyri almannatrygginga, þar laumaði góðærið sér hjá dyrum, fram hjá dyrum aldraðra, fatlaðra og öryrkja. Ég er með dæmi af því sem sýnir að það eru 28 vísitölustig á milli lífeyris og lágmarkslauna. Þetta er staðfest með heimild frá Tryggingastofnun ríkisins, kjararannsóknarnefnd og Hagstofu Íslands. Þess vegna segi ég að góðærið hefur laumað sér fram hjá ákveðnum dyrum. Ég ætla ekki að fara í umræðu um þau mál meira en það var bara vegna þess að nokkrir hófu ræður sínar á þessum setningum.

Aðeins nokkur orð um það sem liðið er. Ég tel að reynt hafi verið að hamla á ýmsan hátt gegn þeirri þróun sem við hefur blasað, það er brottflutningur úr dreifbýli til þéttbýlis, og aðallega til Reykjaness og Reykjavíkur. Okkur hefur ekki orðið vel ágengt. Það virðist ekki hafa vantað viljann þó að ekki hafi nægjanlega vel til tekist.

Hverjar skyldu vera orsakirnar? Herra forseti. Ég leyfi mér að vitna til þessarar skýrslu, tillögu til þál. og því sem þar fylgir á bls. 9 þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Óskir fólks um aðgang að nútímalegum lífsháttum er einn mikilvægasti drifkraftur þéttbýlismyndunar og búferlaflutninga. Beint og sterkt samband er milli ánægju íbúa einstakra landshluta með búsetuskilyrði og fólksfjöldaþróunar. Þar sem meiri ánægja er með almenn búsetuskilyrði þar stendur búsetan fastari fótum og færri flytja brott. Fólk tekur ákvarðanir um búferlaflutninga með því að meta kosti og galla búsetuskilyrðanna í heild. Misjafnt er milli landshluta hvaða þættir vega þyngst, en atvinnumál (fjölbreytni atvinnufyrirtækja), menntun og almenn lífsgæði eru þeir þættir sem flestir tilgreina sem mikilvæga í sambandi við búferlaflutningana.``

En efst á blaði í þessum málum er húshitunarkostnaður. Ég tel að það væri rétt fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal að kynna sér betur einstök atriði þessarar þáltill. þar sem farið er yfir ýmsar staðreyndir eins og þá sem ég var að geta um núna.

Aðeins örfá orð um ársskýrslu Byggðastofnunar. Ég get ekki látið það vera að nefna það að ég tel að, eins og hér segir, með leyfi forseta:

,,Starf Byggðastofnunar stendur á tímamótum. Efling atvinnuþróunarstarfs á landsbyggðinni og flutningur þróunarsviðs stofnunarinnar til Sauðárkróks hefur orsakað ýmsar breytingar.``

Undir þetta tek ég heils hugar. Byggðastofnun hefur á ýmsan hátt verið í því hlutverki að stjórna aðgerðum. Þó er merkilegt að á undanförnum árum hefur verulegt fjármagn af því sem stofnunin hefur haft til ráðstöfunar beinlínis lent á Reykjavíkursvæðinu. En sú stjórn sem nú situr hefur gripið til nýjunga og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka framtakssemi stjórnarinnar undir forustu Egils Jónssonar sérstaklega fyrir það átak varðandi atvinnuráðgjöf í landshlutunum, fyrir flutning þróunarsviðs Byggðastofnunar till Sauðárkróks og ýmsar aðgerðir sem Byggðastofnun hefur stutt varðandi tillögur um aðgerðir í ýmsum byggðum sem aðstoðaðar hafa verið nú þegar.

Herra forseti. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna í skýrslu um Dalabyggð, unna af Nýsi hf. og til bréfs sveitarstjóra þar að lútandi:

,,Eins og kunnugt er hefur þróun byggðar og búsetu verið mikið áhyggjuefni á undanförnum árum, einkum í jaðarbyggðum eins og Dalabyggð. Hreppsnefnd Dalabyggðar hefur látið framkvæma úttekt á stöðu byggðarlagsins og gert tillögur um úrbætur sem taka mið af því að nálgast málið frá breyttum áherslum í byggðamálum. Hugmyndir þessar eru m.a. byggðar á kenningum úr rannsóknum prófessors Stefáns Ólafssonar og till. til þál. um byggðamál.

Úttekt þessi er unnin af Haraldi Líndal Haraldssyni hagfræðingi og hreppsnefnd Dalabyggðar hefur samþykkt að fara þess á leit við stjórnvöld, þingmenn og aðra er málið varðar, að styðja og vinna að framgangi þessara tillagna eftir því sem við á.``

Þessi orð segja meira en margt annað um viðhorf sveitarstjórnarmanna til þeirrar þáltill. sem við erum nú með í umfjöllun. En lokaorð skýrslunnar eru kannski talandi dæmi um hvernig ástandið er víða í jaðarbyggðum. Með leyfi forseta vil ég vitna í þau lokaorð:

,,Með hliðsjón af íbúaþróun undangenginna ára í Dalabyggð og kenningum Stefáns Ólafssonar prófessors, á ekki að koma á óvart hvernig þróunin hefur verið í Dalabyggð. Einnig má ljóst vera að verði ekkert aðhafst í málefnum byggðarlagsins mun íbúum þess halda áfram að fækka.

Nánast allir þeir þættir sem íbúar á jaðarsvæðum eru óánægðir með eru með hraklegum hætti í Dalabyggð. Húshitunarkostnaður, sem er beint kjaraatriði, er nokkru hærri en meðalkostnaður hjá dýrum hitaveitum. Verðlag og verslunaraðstæður eru þannig að íbúar sveitarfélagsins sækja verslun til Borgarness og/eða Reykjavíkur. Sveitarfélagið tengist ekki þjóðvegi 1 með bundnu slitlagi. Einungis 20% af vegum í strjálbýlinu eru með bundnu slitlagi og einungis 8% með tvíbreiðum vegi. Meðallaun eru um 30% undir landsmeðaltali og atvinnutækifæri einhæf.``

Þess vegna taka þeir aðilar sem hlut eiga að máli undir þá þáltill. sem er til umræðu.

Herra forseti. Það er ljóst að ekki er nóg að gera skýrslur á skýrslur ofan. Það liggja fyrir staðreyndir, það liggja fyrir tillögur, reyndar örlítið breytilegar eftir því á hvaða tíma þær eru unnar. Í mínum hillum á skrifstofu minni eru fjölmargar skýrslur um Vesturland, einstaka staði á Vesturlandi frá stjórnartíma allra stjórnarflokka eða stjórnmálaflokka á Íslandi og a.m.k. hafa allir átt aðild að tillögunum.

Þörf er á aðgerðum. Aðgerðir kosta peninga. Það kostar peninga að jafna búsetuskilyrði. Því fagna ég þeim 300 millj. sem er verið að leggja til að komi til byggðamála og verði deilt til nýsköpunar. Það mun hafa áhrif. Það kostar peninga að skapa skilyrði svo unnt sé að búa á landsbyggðinni. Það kostar peninga að jafna hitakostnað, jafna vöruverð, jafna möguleika til skólagöngu, aðgengi að læknisþjónustu og að samgöngum. Það er lágmark að beita fjármunum, sem verða til í byggðunum, í þessu skyni. Þá á ég við á landsbyggðinni, úti í landsbyggðarhlutunum.

Ég er ekki aðeins að ræða um þéttbýli í landshlutunum heldur og einnig um sveitirnar sem standa hvað höllustum fæti. Ég má til með að nefna þær tillögur sem lagðar voru fram fyrir skömmu í skýrslu sem nefnist Úttekt á lífskjörum bænda í hefðbundnum landbúnaði 1989--1996. Í þeirri skýrslu er farið yfir staðreyndir varðandi landbúnaðinn, lagðar fram tillögur um félagslegan stuðning. Ég get leyft mér að taka undir ýmislegt af því sem þar er lagt til en þó eru þar tillögur sem ég tel að verði að strika yfir og þær lúta að eftirfarandi:

Í tillögunni er lagt til keyptur verði búrétturinn af þeim sem hafa allt 120 ærgilda mark. Lagt til frjálst framsal og ég ætla ekkert að leggjast gegn því en ég vil taka það fram að allir þeir sem búa með litlu búin, frá 60 og upp í 120 ærgildi, eru þeir sem geta sérstaklega lagt til í það sem vantar í íslenskri sauðfjárrækt. Það er einmitt lífrænt eða vistvænt ræktað kjöt. Það er eina landbúnaðarafurðin sem vantar alvarlega á markað. Hægt var að útvega 10 tonn eða u.þ.b. 10% af því sem beðið var um í haust, 10 tonn af 100 tonnum sem beðið var um til Bretlands í haust.

Þess vegna er rangt ef menn fara að þessum tillögum. En ég vona að þessi skýrsla sé lögð fram sem umræðugrundvöllur en ekki til þess að það séu tillögur sem á að fara eindregið eftir. Ég vona að menn beri gæfu til þess að vinna á annan máta.

Herra forseti. Ég bind vonir við að þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001 nái fram að ganga sem fyrst.

[19:45]

Þingflokkur jafnaðarmanna óskaði sérstaklega eftir að þessi tillaga kæmi til umræðu á síðasta þingi, þegar hún var lögð fram, en þá voru ríkisstjórnarflokkarnir ekki tilbúnir að hefjast handa. Og ég segi að í rauninni ætti þessi áætlun að gilda fyrir árin 1999--2002. En menn verða að una þeirri staðreynd að ekki var hægt að hefja umræðu um þessa tillögu strax í vor.

Framkvæmd stjórnkerfis fiskveiða á því miður drjúgan þátt í þeirri þróun sem verið hefur, að sífellt fækkar Íslendingum sem vinna við fisk. Sífellt eru meiri fiskflutningar frá þeim stöðum þar sem afla er landað í stað þess að vinna fiskinn sem næst veiðistað eða löndunarhöfn, sem hlýtur að vera hagkvæmast. Ég sé ekkert í tillögum um byggðamálin sem gæti snúið þessari þróun við, sem hófst með þeim darraðardansi sem framkvæmd fiskveiðistjórnarinnar er. Fækkun í landvinnslu og hráefni flutt um landið þvert og endilangt frá þorpum og smábæjum til öflugri byggðarlaga, ekki síst á suðvesturhornið. Flutningur fiskvinnslu frá landi á haf út, skipuleg fækkun smábáta og landróðrarbáta. Þessi atriði eru svartur blettur að mínu mati á byggðastefnu okkar.

Ég, sem hér stend, viðurkenni þörf fyrir allar tegundir í veiðiflota Íslendinga. En menn geta ekki leyft sér að láta braskmöguleika sem felast í veiðistjórnarkerfinu þróast eins og verið hefur með skelfilegum horfum fyrir ýmsar sjávarbyggðir sem byggja afkomu sína á afla smábáta stóran hluta ársins. Ég vona, herra forseti, að þessi tillaga, sem mér finnst að öðru leyti góð, fái hraða afgreiðslu hv. Alþingis. Grundvallaratriðið er að gera sérstakt átak í samgöngumálum og koma byggðunum í gott vegasamband.