Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 20:35:09 (1224)

1998-11-17 20:35:09# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., EOK
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[20:35]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa þáltill. og sérstaklega vil ég færa stjórn Byggðastofnunar þakkir og formanni stofnunarinnar, Agli Jónssyni, sem hefur nú um þriggja ára skeið gegnt þar formennsku og tekist á hendur þá forustu sem var mjög nauðsynleg, fyrir að breyta þessari stofnun umtalsvert. Ég efast ekkert um að hún hafi á sínum tíma verið stofnuð með mjög góð sjónarmið og góð markmið í huga en ég tel það alveg víst að stofnunin þurfti á mjög miklum breytingum að halda. Það er alveg ljóst að þær aðferðir sem hún notaði, hafi þær dugað í upphafi, voru hættar að duga. Ég held að einmitt þessi nýja stefnumörkun Byggðastofnunar, að færa sig út á landið, færa og byggja upp atvinnuþróunarfélögin úti á landi marki tímamót sem við eigum að taka mark á. Það er mjög nauðsynlegt að standa að byggðamálunum þannig að árangur náist.

Við sjáum núna að þrátt fyrir góða viðleitni og mikinn vilja að ég ætla sums staðar, þá hefur þetta ekki tekist. Fólksflóttinn til Reykjavíkur er nú sem aldrei fyrr. Ég óttast að ef ekki tekst að breyta þessu núna mjög fljótlega, þá gæti svo farið að steininn taki úr og eftir það verði ekki við neitt ráðið. Það liggur fyrir og er á vitund allra að slíkir þjóðflutningar gætu orðið þjóðfélaginu um megn. Það kostar óhemju fé þegar svo stór hluti þjóðarinnar er á faraldsfæti eins og hefur verið á Íslandi að undanförnu, hvað þá ef aukning yrði á. Ég ætla að marka megi af umræðunni í dag að flestum sé að verða ljóst að það er efnahagslegt markmið í sjálfu sér. Við spörum stórkostlegt fé ef við getum komið á jafnvægi í byggðinni. Það er síst af öllu þéttbýliskjörnunum, Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum, til þægðar að slík þróun haldi áfram. Það getur fært þau bókstaflega í kaf, bæði í félagslegri þjónustu og allri annarri þjónustu. Ég vil því marka það af þessari umræðu að mönnum sé að verða það æ ljósara að það eru sameiginlegir hagsmunir allrar þjóðarinnar að við stöðvum þessa þróun.

Ég held líka, herra forseti, að það sé kannski upphafið að því að við getum náð árangri þegar menn fara að gera sér sameiginlega grein fyrir því að allir eiga hagsmuna að gæta. Það sé þess virði að berjast fyrir þeim. Að þeir peningar sem fara í að stöðva þessa þróun og snúa henni við séu ekki glataðir peningar heldur geti þeir sannarlega nýst þjóðfélaginu áfram, þeir geti einmitt verið sparnaður, því það mundi koma í veg fyrir hinn óheyrilega kostnað ef þúsundir og tugþúsundir Íslendinga mundu flæmast af landsbyggðinni og setjast að hér á þéttbýlasta svæðinu. Ég ber þá von í brjósti að það sé að myndast um þetta samstaða á Alþingi, samstaða í öllum flokkum og ég held að sú samstaða geti verið sá klettur sem við stöndum á. En án þeirrar samstöðu er ég hræddur um að við getum haldið áfram í sama farinu. Við höfum oft talað um byggðamálin en því miður held ég að það hafi skort mjög á að menn gerðu sér grein fyrir hversu brýnt það væri að hrinda þeim í framkvæmd. Ég held líka að hluti af því hversu illa hefur tiltekist sé kannski ekki viljaleysi dags daglega heldur að miklu leyti líka hefðir og löggróinn vani að mönnum hættir við að líta þannig á að það sé sjálfsagður hlutur að byggja upp alla stjórnsýslu í Reykjavík og geri það bara svona án umhugsunar.

Ég minnist þess að fyrir ekki mjög mörgum árum síðan stóð til að stofna nýtt fyrirtæki sem hét Fiskistofa. Einhverjum datt í hug að það væri í lagi að sú stofnun gæti verið hvar sem væri á landinu, m.a. kom tillaga um Eyjafjörð. Nei. Menn sögðu þá: Það er meiningin að þetta verði það lítið fyrirtæki að það tekur því ekki að stofna það í Eyjafirðinum. Svo vita menn hvernig það hefur gengið fyrir sig. Þetta er eitt af dæmunum. Ég veit að þau eru fjöldamörg og þetta er að gerast kannski daglega eða á hverjum einasta vetri að við erum að gera það að hefð og löggrónum vana að efla alltaf og byggja ofan á þá stjórnsýslu sem hefur verið aðalsegullinn á fólkið hingað gegnum þessa öld, og aðalorsökin fyrir þessari miklu röskun.

Ég þakka fyrir þessa þáltill. sem ég held að sé til verulegra og mjög mikilla bóta og geti, ef hugur fylgir máli, orðið til þess að marka hér tímamót. Ég vil sérstaklega nefna að í tillögunum er farið út á nýjar brautir á hvern veg menn koma áhættufé í atvinnurekstur.

Það er nú þannig að aðrar þjóðir stunda mjög byggðastefnu. Aðrir þjóðir gera sér grein fyrir því að ákaflega mikilvægt er að byggja löndin. Bandaríkin og Kanada stunda mikla byggðastefnu, mjög mikla og gera það kerfisbundið, taka heilu sýslurnar fyrir til nokkurra ára eftir því sem menn telja þörf á til að byggja þau upp. Yfirleitt nota þeir alltaf áhættufé og það skiptir ekki máli hver á áhættuféð ef farið er að réttum leikreglum og lögmál markaðarins látin ráða. Yfirleitt gengur það þannig fram að menn fara eftir öðrum fjárfestum, hengja sig við þá sem eru að taka áhættuna og láta þá aðila um féð, um umsýslu þess, hafa hagnað af því ef vel gengur en taka svo tapinu ef illa fer. Þannig tryggja þeir að féð sé í höndum þeirra sem hafa hagsmuna að gæta í að taka áhættuna, gera allt sitt besta til að ná arði af atvinnurekstrinum. Við eigum að fara þessa leið, enda sýna sporin það, árangur manna sýnir það mjög víða að menn hafa getað náð árangri í byggðamálum.

Síðasti hv. þm. talaði um árangur Englendinga. Það er alveg rétt að Englendingar hafa náð mjög miklum árangri í byggðamálum. Ég minnist þess t.d. að þegar Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna var að byggja upp sína miklu starfsemi í Grimsby var sú góða kona Margrét Thatcher forsætisráðherra í Englandi. Þá fékk Sölumiðstöðin verulegan byggingarstyrk til að byggja upp þá verksmiðju vegna þess að þá var Humberside-svæðið talið mjög veikt svæði og þá voru veittir styrkir til uppbyggingar þar. Það skipti engu máli hvort það voru útlendingar, í þessu tilfelli voru það Íslendingar, styrkir voru veittir til uppbyggingarinnar. Humberside er ekki lengur vandræðasvæðið. Það eru önnur svæði sem þeir einbeita sér að. Um þetta höfum við alls staðar dæmi, bæði í Ameríku, í Evrópu, ég tala nú ekki um á Norðurlöndunum. Menn hafa náð árangri. Við ættum að vita það og trúa því að við getum náð árangri líka.

Herra forseti. Mér hefur þótt þessi umræða mjög góð þó að mér hafi stundum fundist það vanta í hana að við erum að byggja landið vegna þess að við höfum hag af því. Við erum ekki bara að gera það af því að Ísland er svo fallegt eða okkur þyki svo vænt um það. Við erum fyrst og fremst að byggja landið af því að við vitum að við höfum hag af að byggja það og þess vegna verðum við að hafa það að leiðarljósi við hvert einasta fótmál að landsbyggðin verður að fá að njóta sinna landgæða. Ef við höfum það ekki sem leiðarljós, þá er ég hræddur um að við náum ekki mjög langt.

Við getum séð þetta mjög víða í því sem við erum að gera. Við höfum verið að fjalla á undanförnum vikum um vandamál landbúnaðarins, t.d. sauðfjárræktina. Ég er t.d. sannfærður um að við verðum að ná árangri í sauðfjárrækt ef við ætlum að halda henni áfram og það er sjálfsagt að styrkja sauðfjárræktina en við munum gefast upp á því fyrir rest ef við náum ekki árangri. Ég er sannfærður um að við verðum að breyta núverandi reglum. Við verðum að gera samninga til mjög langs tíma og gera kvótana framseljanlega til að tryggja það að sauðfjárræktin lendi þar sem gerhyglin er til staðar hjá bændunum, þar sem besti bústofninn er og þar sem grasið er, annars náum við ekki árangri. Svona getum við talið áfram.

Ég get t.d. rætt um sjávarútveginn. Ég er persónulega sannfærður um að fátt hafi valdið meiru um hina vondu þróun í byggðamálum á Íslandi en einmitt sú stjórn fiskveiða sem við höfum, því miður, vegna þess að með því kerfi, þó ýmislegt sé kannski gott í því, var það tekið af byggðunum að þær fengju að njóta sinna sjávargæða í nálægð við miðin.

[20:45]

Hins vegar er kannski ýmislegt gott við kerfið og það sem hélt því gangandi og hélt því opnu og var framsalsleyfið, hið frjálsa framsal kvótans. Svo gerist það, herra forseti, í vetur að allt í einu er dembt fram frv. sem eyðileggur framsalið meira og minna, eyðileggur að þeir sem gátu helst bjargað sér í að fiska gætu gert það á hagkvæmastan hátt og ódýrast. Það var eyðilagt með einum lögum og menn vildu ekki þýðast neinar viðvaranir í því. Þar á ég við lögin um Kvótaþing. Ég skal ábyrgjast að bara með þeim einu lögum vorum við að valda landsbyggðinni óhemjulegu óhagræði, alveg óskaplegum vandræðum. Nauðsynlegt er að átta sig á því við hverja lagasetningu hvað við erum að gera og sérhver maður verður að vera vakinn yfir því hvað hann er að gera í þessum byggðamálum ef við ætlum að ná árangri.

Ég get tekið annað dæmi úr sjávarútvegi. Það hefur legið fyrir um margra ára skeið að við vitum það, eða ég tel mig vita það, herra forseti, að verulegur aðstöðumunur, samkeppnismunur, er milli vinnslunnar úti á sjó og fiskvinnslunnar í landi. Hvað eftir annað hefur því verið lofað að reyna að taka á þessum málum eða fara í það en það er einhvern veginn þannig að sjútvrn. fæst ekki til að hreyfa sig í málinu.

Það er allt gott að segja um nýjar atvinnugreinar sem við byggjum upp á landi og það er lífsnauðsynlegt en við skulum minnast þess að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn eru þó sá grunnur sem við byggjum á. Ef við skekkjum samkeppnisaðstöðu þessarar grundvallaratvinnugreinar er hætt við því að annað fari úrskeiðis. Þorpin kringum landið byggðust upp á sjávarútveginum og við erum að gera rangt gagnvart heildarökonómíunni ef við skekkjum rekstrargrundvöllinn. Þá erum við að færa peningana á einhverja vitlausa staði, við erum að valda efnahagslífinu miklu tjóni. Brýnt er að menn séu með það í huga hverja stund þegar við erum að setja þessi lög, hvað við meinum með því, og ef við ætlum að byggja upp landið eins og mér heyrist í dag að flestir geri sér grein fyrir þá verða menn að hafa í huga að við megum ekki gera neinar kórvillur í lagasetningunni frá degi til dags. Við verðum að vinna að þessu á öllum vígstöðvum.

Ég held að það sé rétt, sem kom fram í dag, að gagnvart byggðamálunum getum við þess vegna verið að nálgast ögurstundina. Þess vegna trúi ég því að það sé fullkomlega ástæða til þess að hrinda þessari þáltill. nú þegar í framkvæmd og gera kannski margt fleira því að þess þarf. Við þurfum að berjast á öllum vígstöðvum, við þurfum að taka verulega fast á til þess að svo megi verða.

Ég ítreka þakkir mínar til stjórnar Byggðastofnunar. Ég er viss um að það var grundvallaratriði til þess að hefja nýja sókn í þessum málaflokki, í þessum lífsviðhorfum eða byggðaviðhorfum Íslendinga, að greina þennan vanda. Ég held að það hafi verið gert þarna ákaflega vel og ákaflega samviskusamlega. Við höfum land til að standa á, nú höfum við ákveðna hluti, nú vitum við nákvæmlega niðurskrifað hvar skórinn kreppir þannig að nú á það ekki að vera neinum afsökun að við séum út og suður í því sem við erum að gera. Við höfum verið að vinna að því á undanförnum árum að leysa íslenskt efnahagslíf úr læðingi. Ég er viss um að með því að halda þeirri stjórnarstefnu áfram sem við höfum fylgt getum við unnið mjög margt sem kemur landsbyggðinni til góða. Ég tala ekki um ef við höfum manndóm í okkur til þess að afnema mónópólið sem er t.d. á orkumálunum og gera það frjálst þá væri það stórt skref, svo ég nefni eitthvert dæmi.

Við eigum líka möguleika á því með því að selja ríkisfyrirtækin að gera enn þá meira stórátak í samgöngumálum, fjárfestingar sem munu skila þjóðfélaginu gríðarlegum arði. Það er ekki verið að sóa peningum, það mundi skila þjóðfélaginu gríðarlegum arði á komandi árum. Halda áfram því starfi að byggja upp atvinnulífið og gera Ísland að ríku þjóðfélagi, kannski því ríkasta sem er í heiminum. Ég er sannfærður um að það er hægt og það er hægt með því að nýta landgæðin í heild og það eigum við að gera, herra forseti.