Svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 13:31:18 (1227)

1998-11-18 13:31:18# 123. lþ. 26.91 fundur 108#B svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[13:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þess að mig er farið að lengja eftir svörum við þremur fyrirspurnum sem ég lagði fram til hæstv. iðn.- og viðskrh. í upphafi þings í haust. Nú er það svo að hæstv. ráðherra er með fjarvist og ég hafði tilkynnt honum að ég mundi koma með þessa athugasemd um störf þingsins í upphafi, ætlaði að gera það í gær en þá tókst ekki að ná tali af honum þar sem hann var upptekinn, en fyrirspurnir þær sem ég er að kalla eftir svörum við eru á þskj. 69, 70 og 71 og eru um sérstaka samninga sem gerðir voru við bankastjóra ríkisbankanna áður en samið var við þá sérstaklega sem bankastjóra hlutafélagabankanna. Þetta voru starfslokasamningar.

Fyrir hálfum mánuði átti ég orðastað við forseta vegna þessara fyrirspurna þar sem höfðu verið bréfaskriftir milli forseta og hæstv. ráðherra og ég óskaði eftir að fá þau bréfaskipti til mín en hef ekki fengið svör við því heldur.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki dugi einn og hálfur mánuður til að afla upplýsinga um þessa sérstöku starfslokasamninga fyrir bankastjóra ríkisbankanna. Fyrir hálfum mánuði upplýsti ríkisendurskoðandi, sem var þá með svörin til yfirlestrar, mig um það að hann væri með svörin og mundi senda þau þann dag til hæstv. ráðherra. Síðan er liðinn hálfur mánuður og ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort þarna er eitthvað sem ekki þolir dagsins ljós eða hvernig stendur á því að ekki berast svör við þessum fyrirspurnum. Ég hef skilning á því að ekki koma svör við fyrirspurnunum um gesti í Lundúnaíbúð Búnaðarbankans því að ég veit að þar var skráning öll í skötulíki og gestabókin finnst ekki og skiljanlegt að ráðherra geti ekki svarað því rétt í þinginu hverjir hafi gist í þeirri íbúð. En samningar við bankastjórana, sérstakir samningar sem voru gerðir ættu að liggja fyrir og þess vegna, herra forseti, kalla ég eftir því hvenær er von á þessum svörum, hvort forseta er kunnugt um það og einnig hvort ég muni fá svör við bréfi mínu til forseta um að fá upplýst um bréfaskipti milli forseta og hæstv. ráðherra.