Svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 13:39:30 (1232)

1998-11-18 13:39:30# 123. lþ. 26.91 fundur 108#B svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[13:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þegar hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spurðist fyrir um bréfaskipti sem höfðu orðið milli ríkisendurskoðanda og forsn. þingsins var því svarað af hálfu forseta að það mál yrði kannað og kveðinn yrði upp úrskurður um það hvort hv. þm. fengi þessi bréf í hendur. Ef ég man rétt var þá á forsetastóli hv. þm. Ragnar Arnalds sem eins og núverandi forseti er ekki aðalforseti, en mér finnst að það sé ekki hægt að varaforsetar hver fram af öðrum vísi þessu máli þannig frá sér og ég velti því fyrir mér hvort eitthvað sé að boðskiptaleiðum millum forseta.

Í annan stað, herra forseti, finnst mér það með öllu óásættanlegt að hér er það upplýst að ríkisendurskoðandi, sem farið hefur yfir þessi svör, hafi sent svörin til hæstv. viðskrh. fyrir hálfum mánuði. Auðvitað hljóta menn að velta því fyrir sér hvað það sé sem veldur því að hæstv. ráðherra sendir þessi svör ekki inn í þingið eins og honum ber skylda til.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spyr: Getur verið að í þessu sé eitthvað sem sé ekki heppilegt fyrir ráðherrann? Óneitanlega, herra forseti, læðist sá grunur að manni að hæstv. viðskrh. vilji ekki að þessi svör komi inn í þingið, komi fyrir sjónir fjölmiðla áður en hann gengur til flokksþings Framsfl. þar sem hann er að berjast fyrir varaformennsku. Það er skylda þingsins að sjá til þess að ef þessi svör eru fyrir hendi séu þau lögð inn í þingið.