Svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 13:41:18 (1234)

1998-11-18 13:41:18# 123. lþ. 26.91 fundur 108#B svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[13:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þetta er umræða sem er mjög lík því sem jafnaðarmenn standa oft fyrir í þinginu en ég bendi hv. þingmönnum á það af því að þeir eru með dylgjur að það er að sjálfsögðu bankaráð viðskiptabankanna sem gerir samninga við bankastjóra. Það er ekki viðskrh. Hins vegar er eðlilegt að það taki einhvern tíma fyrir ráðherra að svara fyrirspurnum. Ég veit engar skýringar á þessari töf, en það er líka eðlilegt að menn vilji hafa þau svör vönduð.

Hér var rætt um að Ríkisendurskoðun ætti ekki að koma að málinu. Ég bendi hv. þm. á að Ríkisendurskoðun er ábyrg jafnframt fyrir endurskoðun þessara fyrirtækja og eðlilegt er að ráðherrar leiti til endurskoðanda viðkomandi fyrirtækja, hvort sem það er Ríkisendurskoðun eða einhverjir sjálfstæðir endurskoðendur, til þess að yfirfara svörin til þess að þau geti verið sem réttust og vönduðust.

Ég harma að hv. þingmenn jafnaðarmannaflokksins, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Össur Skarphéðinsson, skuli ávallt vera með umræður á þessu plani í þinginu. Það er kannski ekki von að almenningur hafi mikið álit á störfum þingmanna því að þessir hv. þm. eru ávallt með skilaboð um það til þjóðarinnar að hér á þingi sitji óvandaðir menn.