Svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 13:42:56 (1235)

1998-11-18 13:42:56# 123. lþ. 26.91 fundur 108#B svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[13:42]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég verð að gera alvarlegar athugasemdir við túlkun hæstv. utanrrh. á aðkomu Ríkisendurskoðunar í þessum efnum. Ef það er gegnumgangandi túlkun hæstv. ríkisstjórnar að hér sé farið rétt að málum eru hlutirnir á mjög alvarlegu stigi.

Ég vek á því athygli að á þeim tíma sem hér er um spurt hafði hæstv. viðskrh. sjálfur sérlegan ráðherraskipaðan endurskoðanda og eðli máls samkvæmt ætti hann þá að sækja gögn sín til hans og aukin heldur þess bankaráðs sem þá sat og raunar situr mestan part enn þá. Hann hefur því öll tök á því að nálgast þessar upplýsingar með viðunandi og fullnægjandi hætti hafi hann vilja til þess án þess að atbeina Ríkisendurskoðunar þurfi við.

Ég vil bara varpa því upp, virðulegi forseti, hver staða þingsins er. Við skulum segja að hér komi þessi svör. Hv. fyrirspyrjandi og þingflokkur hans vilja kannski hugsanlega fá á því nánari útlistun og óska eftir því að Ríkisendurskoðun geri á því sérstaka könnun. Þessi sami ríkisendurskoðandi hefur þá þegar staðið að gerð svaranna. Hver er staða hins háa Alþingis með þeim hætti? Ég legg áherslu á að Ríkisendurskoðun er óháð stjórnvald, fullkomlega óháð. Ríkisendurskoðandi heyrir undir Alþingi en hefur sitt óháða og sjálfstæða ákvörðunarvald þannig að við skulum hafa þessa verkaskiptingu alveg skýra. Því árétta ég það, virðulegi forseti, að þá hlýtur stjórn þingsins og þingmenn allir hljóta auðvitað að gaumgæfa mjög alvarlega og ræða í botn hvernig við ætlum að standa að málum svo með viti sé.