Svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 13:49:32 (1239)

1998-11-18 13:49:32# 123. lþ. 26.91 fundur 108#B svör við fyrirspurnum og undirbúningur svara# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það sem hér um ræðir er beiðni hv. þingmanna um svör. Með henni hlýtur að vera ætlunin að fá efnislega rétt svör. Hæstv. forseti hefur hér ítrekað upplýst að þau svör muni koma innan skamms. Vitanlega má gagnrýna tímasetninguna en það hlýtur að teljast eðlilegt að bíða eftir því að þessi efnislega réttu svör komi hingað. Það hlýtur að vera efnislega rétt að taka málið upp á þeim tímapunkti þegar hæstv. ráðherra er viðstaddur. Það var upplýst í upphafi þingfundar að hann hefði fjarvistarleyfi í dag og það eru óvönduð vinnubrögð að leggjast í dylgjur, að gefa sér ýmislegt um efni svars sem ókomið er, leggja út af því og það hafa hv. þingmenn jafnaðarmanna gert hver á fætur öðrum. Það er e.t.v. engin tilviljun að þeir skuli ítrekað nefna væntanlegar kosningar á flokksþingi framsóknarmanna nú um helgina. Það er engin tilviljun býst ég við. Þeir eru með þessu á sinn hátt að reyna að hafa áhrif á þær kosningar. Það eru óvönduð vinnubrögð og ekki heiðarleg vinnubrögð.