Hreinsun jarðvegs á Nickel-svæðinu

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 13:55:08 (1241)

1998-11-18 13:55:08# 123. lþ. 26.1 fundur 138. mál: #A hreinsun jarðvegs á Nickel-svæðinu# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[13:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Neðan þjóðbrautar að flugstöð Leifs Eiríkssonar við Reykjanesbæ er að finna svonefnt neðra Nickel-svæði sem geymir gamla eldsneytistanka varnarliðsins. Svæðið er ekki lengur í notkun og fyrir liggur áhugi á að formleg skil þessa svæðis til íslenskra stjórnvalda fari fram. Reykjanesbær hefur ítrekað lýst áhuga á að fá svæðið til notkunar og sýnt mikinn vilja til að koma málinu í réttan farveg. Ástæða þess að mál þetta hefur ekki náð fram að ganga er ágreiningur um mengunarrannsóknir.

Forsagan er sú að 1992 gerði bandaríska fyrirtækið Baker Environmental Institute rannsókn á þessu svæði og þar kom fram að aðeins væri um takmarkaða olíumengun að ræða samkvæmt þeirra áliti. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja telur þessa rannsókn ekki tæmandi og hefur gert kröfu um frekari rannsóknir. Varnarmálaskrifstofa utanrrn. hefur ítrekað farið þess á leit við bandarísk stjórnvöld að þau framkvæmi viðbótarrannsóknir. Þessari málaleitan hefur afdráttarlaust verið hafnað því bandarísk varnarmálayfirvöld telja sig ekki hafa lagalega heimild til að veita frekara fé til rannsókna þar sem fyrrnefnd rannsókn fullnægi þeirra lagaákvæðum. Brýnt var að leysa þetta mál og í það minnsta ganga úr skugga um hvort þarna er um meiri mengun að ræða en fram kemur í rannsókn Baker Environmental Institute og fullnægja þannig þeim vanköntum sem heilbrigðiseftirlit Suðurnesja telur vera á þeirri rannsókn.

Viðurkennt bandarískt fyrirtæki á sviði mengunarrannsókna, DeLisle Associates Limited hefur nú rannsakað svæðið og kannað hvort þar er um aðra mengun að ræða en olíumengun. Rannsóknin fór fram í samvinnu við heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar í byrjun október var ekki samþykkt að utanrrn. leggi fram fjármuni til hreinsunar jarðvegs á Nickel-svæðinu heldur var einungis ákveðið að kosta umrædda vettvangsrannsókn. Ástæðan var einfaldlega sú að málið var komið í hnút sem varð að leysa. Eins og áður segir er svæðið ekki lengur í notkun varnarliðsins og Reykjanesbær hefur sýnt mikinn áhuga á svæðinu enda liggur það vel að núverandi byggð og allir sem þarna hafa farið fram hjá sjá hvaða lýti það er fyrir þetta umhverfi. Gert er ráð fyrir því að kostnaðurinn við rannsóknina komi til baka til ríkisins í formi leigu eða verðs þegar svæðið kemur til afhendingar.

Svar við annarri spurningu: Umsýslustofnun varnarmála, Sala varnarliðseigna, gerði 1. nóvember 1996 samning við verktakafyrirtæki á Suðurnesjum um niðurrif yfirborðsmannvirkja á neðra Nickel-svæðinu. Þessu verki átti að ljúka í september sl. Þetta verk hefur ekki gengið sem skyldi af hálfu verktakans auk þess sem upp hafa risið álitamál vegna hreinsana á þeim hluta mannvirkjanna sem eru neðan jarðar. Tekin hefur verið sú afstaða að bíða niðurstöðu yfirstandandi rannsóknar og hefja þá hreinsunarátak.

Hvað varðar þriðju spurninguna þá er í fyrstu rétt að undirstrika að þótt vettvangsrannsókn sé nú lokið þá liggja niðurstöður þeirra enn ekki fyrir og því er ekkert hægt að segja til um hvort og þá í hvað miklum mæli svæðið er mengað. Ég tel rétt að spara allar fullyrðingar um það þar til niðurstöður rannsóknanna eru kunnar. Auðsætt er að ef alvarleg mengun finnst á svæðinu þá verður það að sjálfsögðu tekið upp við varnarliðið og ég vona að þessi afskipti utanrrn. og ríkisstjórnarinnar geti orðið til þess að finna farsæla lausn á þessu máli.