Hreinsun jarðvegs á Nickel-svæðinu

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:01:34 (1244)

1998-11-18 14:01:34# 123. lþ. 26.1 fundur 138. mál: #A hreinsun jarðvegs á Nickel-svæðinu# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég fagna því að þessi rannsókn skuli gerð þó endirinn yrði sá að gera þyrfti þessa rannsókn á kostnað íslenska ríkisins. Það er vitanlega mjög ankannalegt. Auðvitað á herinn að gera þarna fullnægjandi rannsókn áður en þeir skila af sér því svæði sem þeir hafa haft að láni þegar þeir þurfa ekki lengur á því að halda.

Ég vil hins vegar harma og afsaka það að úr fyrirspurninni féll spurning um til hvaða eiturefna rannsóknin næði. Eins og ég taldi upp í fyrri ræðu minni er talið að fjölbreytilegan flokk eiturefna megi finna þarna í jörðu víðs vegar. Það hefur að vísu verið gerð rannsókn á sumum þeirra og reynst vera mikið af þeim eins og í rannsókn hersins frá 1989 sem ég vitnaði í áðan. Hins vegar hefur PCB-mengun lítið verið rannsökuð á þessu svæði og er þó vitað af því þarna í jörðu.

Mér hefur blöskrað hversu bráðir þeir eru, félagar mínir í Reykjanesbæ, að fá að skipuleggja byggingar á þessu landi áður en rannsókn er lokið. Ég hef heyrt að verið sé að skipuleggja þetta svæði og í því skipulagi sé leikskóli, fjölnota íþróttahús og fleira gott. Ég mundi gjarnan vilja að lokið yrði við rannsóknina og þá hreinsun sem þarf að fara fram á svæðinu áður en farið væri að skipuleggja mikið. Ég minni á íbúðarblokkir við Gónhól í Njarðvík sem reistar voru á svæði þar sem mjög vafasamar niðurstöður höfðu komið út úr eiturefnarannsóknum nokkru áður.