Útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:18:36 (1251)

1998-11-18 14:18:36# 123. lþ. 26.2 fundur 34. mál: #A útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og öðrum þingmönnum fyrir undirtektir við þær spurningar sem hér hafa verið bornar fram.

Ég er ekki alls kostar ánægður með svörin frá hæstv. ráðherra. Það þarf ekki að vitna í skoðanakönnun þar sem ekkert svarhlutfall var, en ég get fullyrt og Suðurnesjamenn vita það að mjög mikil óánægja er með þessa stöðu mála, sérstaklega á tilteknum stöðum eins og ég rakti áðan.

Það er mjög brýnt að lagfæra þetta. Ég gat um að átt hefðu sér stað viðræður milli forsvarsmanna sveitarfélaga á Suðurnesjum og Ríkisútvarpsins um úrbætur sem var lofað. Þær hafa látið á sér standa en ég kýs hins vegar að skilja orð menntmrh. þannig, sérstaklega svarið við síðustu spurningunni þar sem hann lýsti sig reiðubúinn að stuðla að samstarfi Íslenska útvarpsfélagsins og RÚV, að gengið yrði í að leysa þessi vandamál. Ég las áðan upp úr bréfi frá Íslenska útvarpsfélaginu sem er að vinna að þessum málum, í kjölfar m.a. þessarar fyrirspurnar, og ég treysti því að brugðist verði hratt og örugglega við í þessu efni. Suðurnesjabúar eiga vitaskuld rétt á að fá algerlega sambærilega þjónustu og aðrir landsmenn. Við vitum hins vegar að þetta er vandamál mjög víða á landinu og það þarf að ráða bót á því, ekki einungis á Suðurnesjum heldur einnig annars staðar og ég vil skilja orð menntmrh. þannig að hann muni af alefli beita sér í þeim efnum.