Fjarnám

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:36:03 (1260)

1998-11-18 14:36:03# 123. lþ. 26.4 fundur 221. mál: #A fjarnám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. menntmrh. Fjarnám með tölvutækni er nýr lykill að möguleikum fólks til símenntunar. Ljóst er að í nútímasamfélagi verða þegnarnir aldrei fullnuma. T.d. er talað um það að 80--90% af nútímalæknisfræði hafi þróast á síðustu 10--15 árum. Fjarnám gerir fólki kleift að stunda nám í heimabyggð og er því mikilvægur þáttur í að efla búsetu á landsbyggðinni og eykur þannig möguleika og tækifæri fólks til símenntunar.

Í haust upplifði ég það að taka þátt í kennslustund í Menntaskólanum á Ísafirði þar sem kennsla fór fram í hjúkrunarfræði í beinni útsendingu frá Háskólanum á Akureyri. Fjarnám er því í raun háskóli í heimabyggð og opnar nýja og spennandi möguleika fyrir fólk á öllum aldri.

Hins vegar kemur þó fjarnám aldrei í staðinn fyrir hinn staðbundna skóla heldur er í raun og veru hrein viðbót. Þess vegna spyr ég hæstv. menntmrh.:

,,1. Hvaða skólar á framhalds- og háskólastigi bjóða fjarnám?

2. Hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem hyggjast stunda fjarnám á Íslandi?

3. Hvaða námsstigi er hægt að ljúka með fjarnámi á Íslandi og hvaða prófgráður veitir það?

4. Hverjir sækjast helst eftir fjarnámi og hvernig er skipting nemenda eftir aldri, kyni og búsetu?``