Fjarnám

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:48:15 (1266)

1998-11-18 14:48:15# 123. lþ. 26.4 fundur 221. mál: #A fjarnám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:48]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að fagna uppbyggingunni sem átt hefur sér stað í fjarnámi hér á landi á allra síðustu árum. Það er ekki síst fyrir áhuga og frumkvæði hæstv. menntmrh. að þetta hefur gerst. Ég vil líka vekja athygli á því að Byggðastofnun, undir forustu hv. þm. Egils Jónssonar, beitti sér fyrir því að setja upp svokallaða byggðabrú og sem sköpuðu möguleika til fjarnáms í landshlutum sem ekki höfðu verið áður. Þetta er ómetanlegt fyrir hinar dreifðu byggðir, hefur t.d. þegar skilað sér áþreifanlega á Ísafirði þannig að til eftirbreytni er.

Nú finnst mér komið að því að skoða hvernig hægt sé að beita þessari tækni til að efla grunnskólanámið, einkanlega úti í hinum dreifðu byggðum. Það er ánægjulegt til þess að vita að Samband sveitarfélaga hefur óskað eftir samstarfi við menntmrn. og Byggðastofnun við tilraunaverkefni sem fram fer í tengslum við skólana í Strandasýslu. Ef það tekst sem skyldi mun það efalaust þýða mikla byltingu í grunnskólahaldi víða um landið.