Fjarnám

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:53:14 (1269)

1998-11-18 14:53:14# 123. lþ. 26.4 fundur 221. mál: #A fjarnám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að huga þarf að námsefni fyrir þessa nýju aðferð við kennslu. Nú þegar nýjar námskrár koma út fyrir grunnskólann og framhaldsskólann verður gert átak í að framleiða meira af kennsluhugbúnaði sem duga til fjarkennslu og nýtingar á upplýsingatækninni við alla kennslu.

Varðandi kjaramálin er það einnig rétt að sérstakir kjarasamningar um þetta mál hafa ekki tekist varðandi framhaldsskólakennara. Eitt af því sem tilraunin í Verkmenntaskólanum á Akureyri miðar að er að fá úr því skorið hvernig þessu starfi er háttað hjá kennurum. Því miður verður að segja að þar hefur borið nokkuð á milli og ég er ekki að fullu sáttur við þróun þess máls, sérstaklega nú síðsumars. En það er unnið að því að finna þar lausn og mikið ríður á að þetta verði gert í góðri sátt við starfsmenn skólanna. Að sjálfsögðu er fjarnám þannig úr garði gert að í sjálfu sér væri hægt að búa til námsefni hvar sem er. Það þarf hvorki að vera bundið við Verkmenntaskólann á Akureyri né aðrar skólastofnanir. Aðalatriðið er að fá hæft fólk til þess að búa til námsefnið, bjóða það og síðan að próf séu tekin undir því eftirliti sem menn kjósa.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði um byggðabrúna og framtak Byggðastofnunar til að auðvelda þetta. Það hefur verið ómetanlegt og fróðlegt að sjá hve fljótt skólarnir hafa gripið við sér þegar þessi nýja tækni kom til sögunnar. Við sátum nokkrir saman á fundi sem ég held að hafi farið fram á sjö stöðum á landinu samtímis þegar við opnuðum fræðslunet Austurlands. Núna á að sigla með þetta inn í grunnskólann. Menntmrn. hefur veitt Sambandi ísl. sveitarfélaga styrk til að hefja tilraunastarf með fjarnám á grunnskólastigi. Að því verður sérstaklega hugað, fyrst í skólum í Strandasýslu.