Móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:55:46 (1270)

1998-11-18 14:55:46# 123. lþ. 26.5 fundur 238. mál: #A móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Ríkisútvarpið er gjarnan nefnt útvarp allra landsmanna og hið sama gildir um ríkissjónvarpið, enda greiða landsmenn fast afnotagjald til Ríkisútvarpsins fyrir þjónustu þess.

Nú hafa ekki allir landsmenn aðstöðu til að njóta útsendinga Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins vegna þess að móttökuskilyrði fyrir útsendingarnar eru ófullnægjandi á ýmsum svæðum landsins. Á Vesturlandi hefur ítrekað verið kvartað undan því að á ákveðnum svæðum í kjördæminu náist sjónvarpsútsendingar illa og á tíðum alls ekki. Einnig hefur verið kvartað undan slæmum móttökuskilyrðum útvarpssendinga Ríkisútvarpsins. Þessar kvartanir hafa komið frá íbúum kjördæmisins og jafnframt hafa komið fram ályktanir um þetta efni frá sveitarstjórnum og samtökum þeirra í kjördæminu.

Það er ljóst að það að njóta þjónustu fjölmiðla er hluti af lífsgæðum nútímans og má einnig flokka það undir búsetuskilyrði. Í umræðum um byggðaþróun í landinu skiptir þetta verulegu máli. Krafa landsbyggðarfólks er að hafa sömu tækifæri til þess að njóta þjónustu Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins og íbúar í þéttbýlinu.

Þetta mál hefur ítrekað verið rætt á Alþingi og gjarnan verið lagt upp í formi fyrirspurna sem kallað hafa á miklar umræður um málið. Þar sem kvartanir berast enn vegna þessa ber ég upp eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. menntmrh. og koma þær fram á þskj. 269.

1. Hvað hefur Ríkisútvarpið gert á síðustu árum til þess að bæta móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á Vesturlandi?

2. Hefur Ríkisútvarpið áform um aðgerðir til að bæta móttökuskilyrðin á Vesturlandi þannig að allir Vestlendingar geti notið þjónustu Ríkisútvarpsins á fullnægjandi hátt?

3. Finnst ráðherra eðlilegt að þeir íbúar Vesturlands sem ekki geta notið þjónustu Ríkisútvarpsins á fullnægjandi hátt vegna lélegra móttökuskilyrða greiði fullt afnotagjald til Ríkisútvarpsins?