Lausaganga búfjár

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:16:45 (1282)

1998-11-18 15:16:45# 123. lþ. 26.6 fundur 158. mál: #A lausaganga búfjár# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:16]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem lögðu orð í belg, og ekki síst sérstökum áhuga hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar með gagnmerku frv. sem hann boðar. Ég er þó ekki alveg sammála að hættan sé eingöngu vegna stórgripa því að dæmin sýna að mjög mannskæð slys hafa orðið sem beinlínis má rekja til lausagöngu sauðfjár.

Það er ljóst að ferðamannastraumur hingað til lands mun aukast, 10% á ári er spáð, og það er vissulega fagnaðarefni, en þá um leið að óbreyttu mun þessi slysahætta aukast enn frekar. Mannslíf er dýrt og þess vegna er mjög mikilvægt að gera hvaðeina sem hægt er til að koma í veg fyrir eyðingu þess.

Eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra má vænta mikils af nefnd þeirri sem hæstv. umhvrh. hefur skipað, en ég tek mjög undir með hv. þm. Magnúsi Stefánssyni að þetta er enn eitt dæmið um samstarfsverkefni margra ráðuneyta en hættan er sú að lítið gerist þegar aðeins eitt ráðuneyti kemur að svo viðamiklu máli.

En við þurfum að gera allt hvað hægt er til þess að auka öryggið. Mér kemur til hugar, án þess að ég hafi nokkra lausn á þessu, að skylda bílaleigur og flugstöðvar að láta erlenda ferðamenn fá sérstaka bæklinga til að vara þá við þeirri hættu sem fylgir því að ferðast á Íslandi, en þeir eru jú komnir hingað til að njóta frjálsræðis sem allt kvikt nánast nýtur hér á Íslandi, en því eru margir erlendir ferðamenn óvanir. En ég þakka hæstv. ráðherra svörin.