Greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 16:02:56 (1301)

1998-11-18 16:02:56# 123. lþ. 26.10 fundur 190. mál: #A greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[16:02]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér fannst hæstv. fjmrh. skauta nokkuð létt yfir skýringar á þeim mun sem hér hefur verið lagður fram.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjörnsdóttur áðan að það misrétti sem er í launum kynjanna felst oft í hlunnindagreiðslum. Ég bið hæstv. ráðherra að skoða hvort hann telji það ekki kalla á skýringar þegar við erum að tala um t.d. þann fjölda sem fékk greiddan bílastyrk og lokaða aksturssamninga, og hæstv. ráðherra bendir á að helst séu það karlmenn sem þurfi e.t.v. á bílum að halda starfa sinna vegna. Það var eiginlega eina skýringin sem hann reiddi fram. En þegar við skoðum það að af 829 starfsmönnum sem fengu akstursgreiðslur voru 555 karlar og 274 konur, sem sagt helmingi færri konur. En greiðslurnar voru 80 millj. og karlarnir taka til sín 71 millj. af þessum greiðslum. Þeir eru helmingi fleiri og taka til sín 71 millj. en konurnar bara 9 millj. og þær eru helmingi færri. Ég segi: Kallar þetta ekki á einhverja skýringu?

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sjáum svona tölur. Við höfum séð það þegar svipaðar kannanir hafa farið fram hjá ríkisvaldinu að það er geigvænlegur munur og ekki óalgengt að sjá að svona greiðslur og hlunnindi renna að 90% til karla og 10% til kvenna.

Ég vil minna á í þessu sambandi að í tilefni af svari sem ég fékk frá hæstv. viðskrh. er verið að kanna hjá kærunefnd jafnréttismála í Jafnréttisráði hvort um misrétti sé að ræða að því er varðar bílastyrki í bönkunum til karla og kvenna vegna þess að tölur þar gáfu tilefni til þess. Það veldur mér vonbrigðum, og það skulu vera mín lokaorð, að ráðherrann telji engar óeðlilegar skýringar á þessu og telur ekki ástæðu til að fara frekar ofan í þetta mál þrátt fyrir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram.