Kjör ellilífeyrisþega

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 16:21:37 (1310)

1998-11-18 16:21:37# 123. lþ. 26.11 fundur 216. mál: #A kjör ellilífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[16:21]

Fyrirspyrjandi (Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim sem til máls hafa tekið. Við komum inn á það að þeir sem fá þessar lægstu greiðslur eru þeir sem hafa verið öryrkjar og eru orðnir ellilífeyrisþegar í dag þannig að þeirra staða er mjög veik þegar kemur að breytingum og þeir verða ellilífeyrisþegar. Eiga þeir þá að lækka? Ef öryrkinn fær þá úrlausn sem hæstv. ráðherra nefndi, hvað gerist þá þegar þeir verða 67 ára og ellilífeyrisþegar?

Miklar breytingar eru nú í samfélaginu á viðhorfum til þess hvort litið sé á hjón sem einstaklinga. Við hugsum allt öðruvísi en við gerðum fyrir tugum ára.

Það eru mörg dæmi þess að það eru ekki bara konur sem hafa verið tekjulágar í samfélaginu. Ég þekki þó nokkuð mörg dæmi þar sem karlar í eldri kantinum, kannski átta til tíu árum eldri en eiginkonan, eru ölmusumenn að biðja um vasapeninga á sínu heimili þannig að það er ekki kynbundið. Þeir geta verið með langan starfsferil. Þeir byrjuðu jafnvel að vinna fyrir daga lífeyrissjóðakerfisins eða unnu þannig vinnu að ekki var greitt af launum þeirra í lífeyrissjóði. Þeir líða mikið fyrir þessa stöðu og oft hefur þetta leitt til hjónaskilnaðar og þessi aðferð leiðir til hjónaskilnaða. Það munar það miklu á þessum upphæðum. Þetta leiðir til allt að 20 þús. kr. mismunar. Og hvernig viljið þið sjá ellilífeyrisþega leita til félagsmálastofnunar? Ég get ekki séð það fyrir mér.