Framkvæmd fjármagnstekjuskatts

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 10:53:46 (1319)

1998-11-19 10:53:46# 123. lþ. 27.91 fundur 110#B framkvæmd fjármagnstekjuskatts# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[10:53]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. alþm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hreyfa þessu máli. Af viðbrögðum stjórnarliða og hæstv. ráðherra er algerlega ljóst að þeim líður illa undir þessari umræðu. Það gefur auga leið að skattkerfið okkar er ekki eingöngu tæki til að afla fjár heldur líka leið til þess að jafna kjörin í samfélaginu.

Við skulum rifja það upp í þessu samhengi að þegar tekin var ákvörðun um það árið 1996 að leggja skatta á vaxtatekjur sem þá höfðu verið skattlausar til margra áratuga, eftir langan aðdraganda og langan meðgöngutíma stóð Sjálfstfl. þvert gegn því lengi vel. Það var ekki fyrr en hann kom því í gegn í núverandi ríkisstjórn að kaupa þann vaxtaskatt með því að lækka skatt á arð og söluhagnað og fleiri þætti sem hér hafa verið raktir að málið fékkst í gegn.

Kjarni þessa máls er einfaldlega sá, og það er það sem skýtur skökku við, að lagður er 10% skattur á tilteknar tekjur tiltekinna hópa. Það er lagður 40% skattur á aðrar tekjur, almennar launatekjur. Í því liggur þetta óréttlæti sem hér er verið að fjalla um fyrst og síðast.

Hér kemur fulltrúi og sérfræðingur Sjálfstfl. í efnahagsmálum, Vilhjálmur Egilsson, og talar um að það komi hér augljóslega fram að með því að lækka skattprósentu niður í 10% þá aukist velta í samfélaginu. Ég spyr á sama hátt: Er þess að vænta að tillögur komi frá sjálfstæðismönnum um að lækka skatta á almennar launatekjur úr 40% í t.d. 20% og auka þannig veltu í samfélaginu og neyslu og tekjur ríkissjóðs í gegnum óbeina skatta? Má vænta þess að þessi sjónarmið gangi aftur þegar um launatekjur almenns launafólks er að ræða?

Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort sérfræðingar Sjálfstfl. hér í þinginu séu að lýsa viðhorfum hans í þessum efnum.