Framkvæmd fjármagnstekjuskatts

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 10:58:28 (1321)

1998-11-19 10:58:28# 123. lþ. 27.91 fundur 110#B framkvæmd fjármagnstekjuskatts# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[10:58]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það þarf að hafa í huga að þegar lögin um fjármagnstekjuskatt voru afgreidd var verið að koma með sérskattlagningu á fjármagnstekjur, þær eru ekki skattlagðar með almennum hætti í skattkerfinu. Þetta er alvarlegasta gagnrýnin á þetta kerfi. Við í stjórnarandstöðunni lögðum fram allt annað upplegg við skattlagningu á fjármagnstekjur sem miðaði að samræmdri skattlagningu í samfélaginu.

Ríkisstjórnin fór ekki þá leið. Við bentum á fjölmarga galla við þetta. En það sem mig langar til að lesa er umsögn ríksskattstjóra um frv. ríkisstjórnarinnar á sínum tíma. Þetta er frá skattrannsóknarstjóra, ekki frá okkur og þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Verulegir hagsmunir munu verða af því að stofna einkahlutafélög og fá greiðslur frá þeim í formi arðs. Þá er frádráttarmöguleiki félagsins á arðgreiðslunni umtalsverður hvati til formbreytingar á atvinnurekstri.``

Síðar í umsögn skattrannsóknarstjóra segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Augljós er þá sú hætta að óeðlilega stór hluti greiðslna verði færður sem arður sem ella væri meðhöndlaður sem laun.``

Bent var af hálfu skattyfirvalda á öll þessi atriði sem nú eru að koma fram hér í umræðunni og í kjölfar fyrirspurnar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Við bentum á þetta allt saman þegar frv. var samþykkt. Reynslan hefur staðfest það. Varnaðarorð skattayfirvalda um þessa aðferð ríkisstjórnarinnar hafa öll komið fram og voru sögð á sínum tíma.

Hér var verið að mismuna þegnum í þjóðfélaginu, hygla fyrst og fremst stórum hlutfjáreigendum. Út á það gekk sú stefna sem ríkisstjórnin lagði upp með og lögfest var og um það var hinn pólitíski ágreiningur í þingsölum á sínum tíma. Við skulum ekki gleyma aðalatriðum málsins í þessu sambandi. Það var verið að ívilna mönnum með útfærslu ríkisstjórnarinnar, sérstökum vildarvinum stjórnarinnar með sérstakri útfærslu á skattalögum. Það er meginefni þessa máls.