Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 11:49:52 (1333)

1998-11-19 11:49:52# 123. lþ. 27.2 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[11:49]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem mig langaði að gera að umtalsefni í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar var það sem hann sagði, að sú breyting sem nú væri verið að gera væri stórt skref í þá átt að gera landið að einu kjördæmi. Þar er ég algerlega ósammála hv. þm. því að ég sé fyrir mér að þessi breyting sé einmitt vörn gegn því að landið verði eitt kjördæmi. Ég sé það fyrir mér að þessi breyting sem við gerum vonandi á stjórnarskránni og lögunum í vetur muni vara í einhverja áratugi.

Það var annað sem hv. þm. sagði og lét að því liggja að með þessu frv. næðist ekki jafnræði á milli flokka. Það er ekki rétt. Það er flokkajafnvægi í frv. Það er ekki horfið frá því sem tekin var ákvörðun um fyrir allmörgum árum. En það er hins vegar svo eins og hv. þm. veit áreiðanlega að í öllum löndum er ekki fullt flokkajafnræði. Ísland sker sig nokkuð úr hvað það varðar að hafa tekið ákvörðun um að hafa það þannig en samstaða var um það í nefndinni að viðhalda því fyrirkomulagi.