Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 11:54:16 (1336)

1998-11-19 11:54:16# 123. lþ. 27.2 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[11:54]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að menn hafi reynt að nálgast óleysanlegt vandamál, þ.e. að reyna að finna kerfi sem tryggir jöfnuð milli flokka en varðveitir mismunun atkvæða. Þráfaldlega hefur verið reynt að leysa þetta vandamál. Það er illleysanlegt.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það kerfi sem nú er tekið upp með 9--10 jöfnunarsætum tryggir sæmilega vel jöfnuð, en í kerfinu sem við erum að sleppa höndum af núna var jöfnuðurinn tryggður fullkomlega. Hins vegar var kerfið mjög flókið og úthlutun jöfnunarsæta mjög flókin og það er þessi flækja sem þetta samkomulag leysir.

Í öðru lagi að sé ég kominn í vörn fyrir þetta frv., það er langt frá því. Þetta er málamiðlun eins og ég sagði áðan sem ég stend að sem flutningsmaður en auðvitað leyfi ég mér að benda á ýmis atriði í þessu frv. þar sem málamiðlunin er á kostnað þeirra sjónarmiða sem minn flokkur hefur haft og ég hef fullan rétt á því. Hafi einhver, virðulegi forseti, farið í vörn fyrir sínum eigin tillögum þá var það formaður þingflokks Framsfl. eftir að tillögur nefndarinnar sem hún sat í voru lagðar fram því að eftir það var hún nærri því daglega á flótta, m.a. fyrir gagnrýni hennar eigin flokksmanna á hennar eigin tillögur.