Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 11:56:02 (1337)

1998-11-19 11:56:02# 123. lþ. 27.2 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., VS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[11:56]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tel það vera nokkurn atburð að hér skuli vera komið fram frv. um breytingu á stjórnarskránni og breytingar á kosningalögum og núverandi kjördæmaskipan. Ég vil lýsa mikilli ánægju með það að þetta mál skuli vera komið inn í þingið og að um það skuli hafa náðst samstaða í þeirri nefnd sem hæstv. forsrh. skipaði og vann tillögurnar sem hér eru til umræðu. En ég get tekið undir það með hæstv. forsrh. að málið er vandasamt og það er viðkvæmt. Hins vegar er núverandi kerfi mjög gallað og stærstu gallarnir á því eru hvað það er flókið og illskiljanlegt en einnig hitt að ekki er samstaða um það í þjóðfélaginu að misvægi skuli vera svo mikið sem raun ber vitni eftir því hvort fólk býr á Reykjavíkursvæðinu eða á landsbyggðinni.

Það var nokkuð langur aðdragandi að því að málið kom fram. Á síðasta kjörtímabili starfaði einnig nefnd á vegum hæstv. forsrh. að málinu. Hún hafði ekki mikinn tíma til þess að ljúka tillögugerð en kom þó fram með tillögu um að svokallaður flakkari skyldi færður af landsbyggðinni til suðvesturhornsins. Sú breyting náði fram að ganga á því kjörtímabili. En sú nefnd sem skilar nú tillögum skilar mjög metnaðarfullum tillögum, vil ég halda fram, og hún byggir náttúrlega vinnu sína ekki síst á samþykktum stjórnmálaflokkanna um þetta málefni.

Minn flokkur, Framsfl., samþykkti á flokksþingi að gengið skyldi til samstarfs við aðra stjórnmálaflokka um að ná fram breytingum á kosningafyrirkomulaginu og að þar skyldi haft sem aðalatriði og haft að leiðarljósi að jafna vægi atkvæða og auka persónukjör, auk þess að gera kerfið skiljanlegra almenningi og einfaldara.

Sú spurning kom fljótt upp í huga okkar sem störfuðum í þessari nefnd hvað ætti að jafna vægið mikið. Ef það hefði verið jafnað að fullu hefðu þingmenn orðið einungis tveir í ákveðnum kjördæmum á landsbyggðinni en 26 í Reykjavík miðað við núverandi kjördæmaskipan. Um þetta var ekki samstaða og reyndar ekki mikið rætt, heldur var það álit okkar að mætast ætti nokkuð á miðri leið þannig að misvægi yrði ekki meira en 1:1,80.

Ýmsir möguleikar voru náttúrlega fyrir hendi til þess að ná fram jafnara vægi á milli kjördæma og milli íbúa á Íslandi. Einn möguleikinn er sá að gera landið að einu kjördæmi. Einn er sá að fara í einmenningskjördæmi sem hér eru þekkt frá fyrri tíð. Einn möguleikinn er að hafa kjördæmakjörna þingmenn ásamt landslista og sú hugmynd var að sjálfsögðu skoðuð. Einn möguleikinn er að halda núverandi kjördæmafyrirkomulagi en breyta þingmannafjöldanum eftir því sem ástæða er til miðað við það markmið sem við settum okkur um vægi atkvæða. Síðan er það einnig möguleiki að okkar mati, sá fimmti, að stækka kjördæmin og sú varð niðurstaða nefndarinnar, ekki síst vegna þess að að okkar mati náðum við ekki þessum markmiðum okkar miðað við núverandi kjördæmaskipan þar sem við settum okkur einnig það markmið að kjördæmakjörnir þingmenn í hverju kjördæmi mættu ekki vera færri en fimm til sex. Þannig er þetta nú komið til að kjördæmin eru stækkuð jafnmikið og raun ber vitni í tillögunum. Þetta er vissulega mjög róttæk breyting og eðlilegt að hún fái gagnrýni og renni ekkert í gegn í fyrstu umferð.

[12:00]

Sú breyting sem gerð var árið 1959 var miðuð við aðstæður sem þá voru í landinu, bæði hvað varðar samgöngur og fleira. Þess vegna er enginn tilbúinn að fullyrða í dag að það fyrirkomulag sem tekið var upp árið 1959 sé það eina rétta hvað varðar t.d. mörk kjördæma. Það má nefna að þá var hringvegurinn ekki kominn, Austur-Skaftafellssýsla var ekki í vegasambandi við Vestur-Skaftafellssýslu o.s.frv. Mér finnst að svolítið hafi borið á því að menn hafi verið of bundnir við núverandi kjördæmaskipan þegar málið er tekið fyrir nú og kjördæmaskipan breytt.

Samstaða var um að viðhalda flokkajafnræði. Og þó svo að í þessum tillögum sé ekki hægt að fullyrða að það náist 100%, þá er aðalatriðið að það er nokkurn veginn tryggt. En það er í sjálfu sér ekki sjálfsagt mál að svo sé, því að margar þjóðir hafa ekki þetta flokkajafnræði og má nefna t.d. Noreg í því sambandi.

Ég vil halda því fram að kjördæmamörk séu ekki eins mikilvæg og margir vilja vera láta. Auðvitað fer fram mikið samstarf á milli kjördæma og yfir kjördæmamörk. Mér finnst að fólki hætti til að líta á kjördæmamörk sem allt of stóran þátt í þessu máli. Við verðum að horfa á þetta út frá samgöngum eins og þær eru nú en ekki eins og þær voru árið 1959. Engu að síður varð það nú svo að sú tillaga sem nefndin setti fram sem megintillögu endurspeglast ekki í þeim tillögum sem hæstv. forsrh. leggur nú fram. Þá kem ég að því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði um áðan, að ég hefði verið á daglegum flótta, eins og hann orðaði það, frá þeim tillögum sem nefndin gerði. Það var nú aldeilis ekki þannig.

Hins vegar gerði ég mér fljótt grein fyrir því að til þess að ná pólitískri samstöðu um þetta mál, sem ég tel mjög mikilvægt, þá mundi sú tillaga sem nefndin gerði að sinni megintillögu og byggðist á því að tvö landsbyggðarkjördæmi væru klofin, bæði Norðurland vestra og Austurland, ekki ná fram að ganga. Við slíkar aðstæður skoðar maður þá auðvitað hvað það er sem náðst getur samstaða um og þess vegna er þessi tillaga komin fram frá hæstv. forsrh.

Auðvitað hætta menn ekki að vera Austfirðingar eða Vestfirðingar, þó svo að búið sé að breyta kjördæmaskipaninni. Ég er enn þeirrar skoðunar að Austur-Skaftafellssýsla hefði átt meira erindi með Suðurlandi en Norðausturkjördæminu, en það verður nú að hafa sinn gang.

Getur það ekki haft einhverja kosti að hafa kjördæmin stærri en þau eru í dag? Skyldi það bara hafa galla? Mín skoðun er sú að stærri þingmannahópar í viðkomandi kjördæmi og jafnframt stærri þingmannahópar fyrir hvern flokk, eins og kæmi til með að verða a.m.k. hvað varðar minn flokk, Framsfl., sem er sterkur flokkur á landsbyggðinni, hafi mikla kosti. Þá geti viðkomandi þingmannahópur unnið sem hópur að þeim málefnum sem eru mikilvægust fyrir viðkomandi kjördæmi og einnig sé ég fyrir mér að þingmenn muni skipta sér eitthvað niður á svæði, þannig að það verði ekki eins erfitt yfirferðar og ekki eins erfitt að koma til móts við þarfir kjósenda og byggðarlaga, og margir vilja vera láta.

Ég sé það líka fyrir mér sem kost að mér finnst miklu líklegra að fleiri konur komi til starfa á Alþingi miðað við það fyrirkomulag sem hér er lagt til að verði. Það mun enginn flokkur voga sér --- ég tek sem dæmi minn flokk sem á möguleika á fjórum þingmönnum --- að bjóða fram lista í í þessum kjördæmum með fjórum körlum efst, það tel ég nánast útilokað. Að þessu leyti til tel ég það jákvætt að stækka kjördæmin.

Síðan er reiknað með því að þingmenn fái ákveðna aðstoð í kjördæmunum sem er réttlætismál og hefði átt að vera komið til fyrir löngu, því það er ekki sambærilegt að gegna starfi t.d. í Reykjavík miðað við að vera þingmaður í stóru landsbyggðarkjördæmi. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir störfum þingmanna Reykjavíkur og Reykjaness jafnvel, en þetta held ég að allir sjái fyrir sér að er staðreynd. Þess vegna finnst mér það mikið atriði og mikið réttlætismál að þingmenn fái aðstoð til að sinna sínum störfum í kjördæmum, eins og gert er ráð fyrir.

Gallarnir eru þeir, sem eru augljósir að flestra mati, að sambandið milli kjósenda og þingmanna muni ekki verða eins náið og það er í dag. Ég nefndi það áðan að að mínu mati gætu þingmenn skipt sér niður á svæði og þar af leiðandi þurfi þessi breyting ekki að vera eins mikil og hún lítur út fyrir í fyrstu. Mín skoðun er því sú að þetta þurfi ekki að breytast, en þar geta aðrir haft aðra skoðun.

Í sambandi við flokksstarf almennt þá geri ég mér grein fyrir því að það er erfiðara í stórum kjördæmum en minni. Það verður auðvitað að koma í ljós hvernig takast mun til, en það lít ég á sem galla. En ég tel þó að mikill munur sé á því að vera með kjördæmafyrirkomulag, þó svo að það geri flokksstarfið erfitt, heldur en ef landið yrði gert að einu kjördæmi. Það tel ég að yrði algjörlega til að tröllríða því flokksstarfi sem þó er við lýði, a.m.k. hjá stærri stjórnmálaflokkunum. Þarna finnst mér við fara ákveðna millileið, sem auðvitað verður að koma í ljós hvernig tekst til um, en er þó viðunandi.

Það þýðir ekkert að fara í launkofa með það að þessar tillögur ganga út á að fjölga þingmönnum á suðvesturhorninu en fækka þeim á landsbyggðinni. Út á það gengur málið og það þýðir ekkert að bera neinn kinnroða yfir því. Við jöfnum ekki vægi atkvæða á annan hátt en með þessu móti. (Gripið fram í: Það má fjölga þingmönnum.) Það er kallað hér utan úr sal að fjölga megi þingmönnum og það er náttúrlega alveg hárrétt. Þessi tala, 63 þingmenn, er ekki heilög tala. Og það er alveg hægt að hugsa sér að það yrði gert, en hins vegar var það ekki mikið rætt í nefndinni og ekki heldur hitt, sem er nú stefna held ég ákveðins stjórnmálaflokks, Sjálfstfl., að fækka þingmönnum. Við ræddum það heldur ekki mikið. (Gripið fram í: Við getum fækkað þingmönnum hans.)

Þær hliðarráðstafanir sem talað er um í tillögu nefndarinnar og þar sem því er beint til hæstv. forsrh. að skipuð verði önnur nefnd sem hafi það verkefni að móta tillögur um aðgerðir til að bregðast við íbúaþróuninni og fólksflutningunum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins eru að mínu mati góðar tillögur og hæstv. forsrh. hefur þegar skipað þessa nefnd. Nú er ég ekki þeirrar skoðunar að þessar tillögur veiki landsbyggðina. Ég held hins vegar að full ástæða sé til þess, í tengslum við þessa aðgerð, að jafna aðstöðu fólks eftir því hvar það býr á landinu. Að því leyti til er ég stuðningsmaður þess að gripið verði til aðgerða í tengslum við þessa breytingu.

Persónukjör var nokkuð rætt í nefndinni og það er eitt af því sem er í sjálfu sér dálítill ágreiningur um á milli flokka og milli einstaklinga, hversu langt eigi að ganga í þeim efnum. Og það kerfi sem við höfum í dag, að yfir 50% þurfi til að breyta lista eða strika út einstakling af lista til þess að það hafi áhrif, þýðir að þær útstrikanir eru ekki til neins. Þær hafa ekki áhrif, a.m.k. ekki til breytinga á listum. Reyndar geta þær haft ákveðin áhrif, það er hægt að senda ákveðin skilaboð með slíkum útstrikunum til frambjóðenda. Margar þjóðir ganga mjög langt í persónukjöri og má nefna Finnland í því sambandi þar sem kjósandinn þarf ekki annað að gera á kjördag en að skrifa eina tölu á listann, sem er þá númer á einhverjum frambjóðanda á einhverjum lista. Og þannig fær frambjóðandinn atkvæði og einnig flokkurinn sem hann býður sig fram fyrir. Ég held að við Íslendingar mundum nú ekki treysta okkur til að ganga svona langt, en auðvitað má velta því fyrir sér hvort þarna hefði átt að stíga stærra skref.

Ég er ánægð með þann þröskuld sem settur er í frv. og er 5% við úthlutun á jöfnunarsætum. Ég held að það hafi verið rétt. Og eins það að tekið skyldi upp d'Hondt-kerfi við útreikning á þingmönnum, útreikning á hverjir fá sæti sem þingmenn.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíma mínum er senn lokið en ég vil að síðustu segja að mér finnst sú tillaga sem hér er lögð fram vera mjög heilleg og góð. Það er rétt að hún er ákveðin málamiðlun en þó þannig málamiðlun að allir geta sæmilega við unað. Kjördæmamörkin munu eflaust verða áfram eitthvað í umræðunni. En eins og komið hefur fram, þá er það svo að verði þessi breyting samþykkt þarf ekki stjórnarskrárbreytingu til að breyta kjördæmamörkum. Ég held að það sé mjög af hinu góða því auðvitað geta aðstæður breyst. Þó svo að ákveðin byggðarlög og ákveðnar sýslur séu ekki tilbúnar til þess núna að kljúfa kjördæmi sitt eða skipta því upp, þá getur vel verið að innan fárra ára átti menn sig á því að rétt væri að hafa þetta öðruvísi og þá þarf það ekki að vera flókið mál fyrir okkur á hv. Alþingi að breyta kjördæmamörkum.

Ég býst við að ekki sé hægt að halda því fram að eitthvað eitt sé rétt í þessum efnum, en hins vegar, eins og ég hef látið koma fram áður, er ég mjög sátt við þessa tillögu eins og hún birtist og vonast til að málið verði samþykkt á þessu þingi.