Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 12:14:07 (1338)

1998-11-19 12:14:07# 123. lþ. 27.2 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[12:14]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að geta þess að ég átti sæti í nefndinni sem undirbjó þetta frumvarp og skilaði því til forsrh. Ég vil nota tækifærið til að þakka meðnefndarmönnum mínum og sérstaklega formanni nefndarinnar fyrir gott samstarf í nefndinni og þakka sömuleiðis starfsmönnum nefndarinnar fyrir mikilvæga og góða aðstoð.

[12:15]

Það er alveg augljóst mál að ekki hefur verið sátt um það kerfi sem við höfum kosið eftir núna að undanförnu af ýmsum ástæðum. Uppi voru mjög sterkar kröfur um það í þjóðfélaginu að breyta kerfinu. Þær kröfur voru ekki síst hér í þéttbýlinu en þær voru kannski að sumu leyti í landinu öllu vegna ýmissa ágalla sem menn töldu vera á kerfinu. Ástæðan fyrir breytingunni og frumvarpinu eins og það liggur fyrir er með öðrum orðum sú að það þurfti að leita að nýrri sátt um málið á Alþingi og með þjóðinni. Ég held það sé ekki hægt að neita því að það er reynt í þessu frv. eins og það liggur fyrir að taka tillit til allra sjónarmiða af sanngirni. En auðvitað er ljóst að við jafnmikilvægt mál og þetta er það þannig að ýmsir vildu sjá hlutina öðruvísi en þeir nákvæmlega liggja fyrir. Ég held þó að hér sé um að ræða góða málamiðlun sem ég a.m.k. get með góðri samvisku mælt með að verði samþykkt.

Tvær aðalástæður voru fyrir því að menn voru óánægðir með núverandi kerfi. Fyrri ástæðan er sú að menn töldu kerfið ekki réttlátt af því misvægi atkvæða væri of mikið. Önnur ástæðan fyrir óánægjunni var sú að menn töldu kerfið flókið. Ég verð að segja fyrir mig að ég tel að hvorugt þessara sjónarmiða hafi í raun og veru verið mjög alvarlegt og í hvorugu tilvikinu hafi verið sérstök ástæða til þess að hlaupa til og breyta kosningalögunum. Ég taldi kerfið t.d. ekkert allt of flókið. Ég taldi að vel væri hægt að búa við það þess vegna.

Þegar núverandi hæstv. ríkisstjórn var mynduð var hins vegar í stjórnarsáttmálanum ákvæði um það að stjórnarflokkarnir ætluðu að beita sér fyrir breytingum á kosningalögunum. Það fannst mér mjög alvarlegt merki og ég beitti mér fyrir því ásamt fleirum að fulltrúar flokkanna náðu samtali snemma á þessu kjörtímabili um það hvað stjórnarflokkarnir ætluðust fyrir í þessu efni. Niðurstaðan varð sú að stjórnarflokkarnir féllust á að þetta væri ekki stjórnarflokkamál heldur allra flokka mál sem hér ættu fulltrúa og það er mjög mikilvægt atriði. Ég tel að það sé ekki aðeins mikilvægt til þess að tryggja málinu almennan stuðning hér heldur tel ég að það sé líka mikilvægt vegna þess að ef stjórnarflokkarnir hefðu farið sína leið í þessu efni hefði verið ástæða til að óttast að þeir mundu fara þá leið að hafa óbreytta kjördæmaskipan en fækka þingmönnum í hverju kjördæmi úti á landi og fjölga þeim hér í þéttbýlinu. Það hefði þýtt að önnur sjónarmið en þau sem hafa eins og 20--25% fylgi hefðu átt í vök að verjast í öllum minni kjördæmunum. Af þeim ástæðum taldi ég að tillögur stjórnarflokkanna í þessu efni væru hættulegar og að hættulegt væri að láta þær einar ráða. Þess vegna var það niðurstaða Alþb. á þessu kjörtímabili að leggja á það áherslu að ná aðild að málinu til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Hver voru sjónarmið Alþb. í þessu máli og hver eru sjónarmið Alþb. í þessu máli við breytingar á þessu kerfi?

Þau eru þessi: Í fyrsta lagi að það yrði að tryggja jöfnun milli flokka þannig að flokkarnir og sjónarmið þeirra fengju skilyrðislaust úthlutað þingsætum í samræmi við sitt fylgi. Samkvæmt þeim útreikningum sem nú liggja fyrir á kosningunum síðustu virðist það vera svo að það næst jöfnuður milli flokka í þessu kerfi, enda nái flokkarnir annaðhvort kjördæmakjörnum manni eða 5% fylgi yfir landið. Ég tel þess vegna að því er þetta varðar að unnist hafi mjög mikilvægur varnarsigur ef svo má að orði komast í þessu frv. með því að ná þessu samkomulagi í stað þess að þurfa að horfast í augu við það að stjórnarflokkarnir einir hefðu breytt kerfinu í samræmi við hugmyndir sem þeir hafa sumir verið með um að fækka þingmönnum í litlu kjördæmunum úti á landi og þar með að útiloka minni flokka frá öllum minnstu kjördæmunum.

Annað aðaláhersluatriði Alþb. var persónuval, að leggja aukna áherslu á persónuval. Skemmst er frá því að segja að um það náðist ekki samkomulag í nefndinni en það náðist samkomulag um að breyta útstrikunarreglunum og áhrifum þeirra verulega. Það er gert með því að lagt er til að tekið verði upp svipað fyrirkomulag og gilti til 1959, þ.e. svokölluð ,,Borda-regla``. Hún gengur út á það að í þessari tillögu okkar er miðað við aðal- og varamenn sem kosnir eru af hverjum lista. Setjum sem svo að flokkur fái 4 þús. atkvæði og tvo menn kjörna. Þá er unnið með töluna fjóra, þ.e. tveir aðalmenn og tveir varamenn. Fyrsti maður á listanum fær 4 þús. atkvæði á óbreyttum lista. Annar maður fær skv. þessari reglu 3 þús. atkvæði. Þriðji maður fær 2 þús. atkvæði og fjórði maður þúsund atkvæði. Segjum að fyrsti maður sé strikaður út á 800 seðlum en aðrir væru með óbreytta stöðu. Annar maður hefði þá færst upp á 800 seðlum á móti þessum útstrikunum á fyrsta manni. Með þessu móti hefði fyrsti maður tapað 1. sætinu en annar maður unnið það. Þetta þýðir að það nægir að breyta 20% seðla til að breyta röð manna á atkvæðaseðli, en nú þarf 50%. Annars vegar er hér því um að ræða gríðarlega mikla breytingu í þá átt að kjósendur geta haft miklu meiri áhrif en þeir nú geta haft með breytingum á seðlum.

Í þriðja lagi var lögð á það áhersla af okkar hálfu að reynt yrði að ná samstöðu um einfaldari úthlutunarreglur og það liggur fyrir. Niðurstaðan varð svo sú sem hér liggur fyrir og ég ætla fyrst að segja að ég tel að þessi niðurstaða sé slík að það sé við hana búandi um langan tíma. Ég tel ekki að þessi niðurstaða sé þannig að einn eða neinn þurfi að leggjast í víking á móti þessari niðurstöðu strax eftir að hún hefði verið samþykkt, fyrst og fremst vegna þess að í stjórnarskrártillögunni sjálfri er gert ráð fyrir því að festa og viðurkenna misvægi. Misvægið yrði viðurkennt í stjórnarskránni eins og hér er gerð tillaga um og þar er miðað við hlutfallið 1:2. Og það er gríðarlega mikilvægt að menn reyni, eins og hæstv. forsrh. benti á í framsöguræðu sinni, að gera málið þannig úr garði að það verði eins varanlegt og frekast er kostur þó að við gerum okkur að sjálfsögðu ekki þær hugmyndir, hvorki í undirbúningsnefndinni né geri ég ráð fyrir flutningsmenn málsins að hér sé um að ræða hinn endanlega, eilífa sannleik eða neitt því um líkt. En það er alveg ljóst að þetta kerfi eins og það lítur út hér á að geta verið varanlegra og um það meiri sátt á næstu árum en var og er um það kerfi sem við erum enn þá með. Niðurstaðan verður svo sú að gerð er tillaga um það í þessu frv. að kjördæmin verði sex talsins og þingmannafjöldinn verði sá sami eða mjög svipaður í öllum kjördæmunum. Það er mjög mikilvægt atriði. Það gjörbreytir stöðu kjördæmahópanna á þinginu. Þeir verða allir svipað stórir og þingmenn t.d. Reykjavíkur, fyrir hvorn hlutann sem er, munu líta á sig sem þingmenn sinna kjördæma í miklu ríkari mæli en við höfum gert í núverandi kerfi, vegna þess sérstaklega að þessir þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna tveggja munu eiga auðveldara með að ná sambandi við sína kjósendur en unnt er í núverandi kerfi.

Við úr Reykjavík sem vorum í undirbúningsnefndinni sem hefur nú lagt niður störf hittum nokkra borgarfulltrúa í Reykjavík fyrir tveimur dögum þar sem þessi mál voru ágætlega útskýrð og mér fannst að ríkur skilningur væri á þeirri viðleitni sem fram kemur í frv. að því er varðar skiptingu Reykjavíkur. Ég geri ekkert með það þó að mörk þurfi kannski að færast aðeins til milli kosninga eins og hér var verið að tala um. Þau yrðu ekki færð á milli húsa eins og hér var verið að gefa í skyn. Það er ekkert þannig, heldur er í meginatriðum miðað við að kjördæmin, Reykjavíkurkjördæmin, yrðu álíka stór að fjölda. Ekki nákvæmlega jafnstór, ekki upp á millimetra, það er ekki hægt. Ég heyri líka að menn eru aðeins að tala um að kjördæmin í Reykjavík yrðu ólík. Í vesturkjördæminu yrðu aðrir hagsmunir en í austurkjördæminu og ég segi bara að það gerir ekkert til. Það er bara þannig, líka í landinu og eðlilegt að menn búi þannig í þessu kjördæmi eins og í öðrum. Ég held að þetta mundi styrkja þennan hóp Reykjavíkurþingmanna andspænis öðrum hópum án þess að það þurfi að þýða neitt annað en það að þeir tækju eðlilegri þátt hér í þingstörfunum sem kjördæmisþingmenn en við höfum getað gert til þessa þótt við hefðum viljað það.

Rökin með breytingunni eru sem sagt í fyrsta lagi þau að hér er um að ræða jafnari og líkari einingar á Alþingi. Það er mjög mikilvægt atriði.

Í öðru lagi eru rökin þau að með því að hafa þingmannahópana svipað eða jafnstóra í kjördæmunum þá næst betur jöfnuður milli flokka og þá þarf færri uppbótarsæti. Það skiptir máli vegna þess að því fleiri sem uppbótarsætin eru, því flóknara er kerfið. Þess vegna er það mjög mikilvægt atriði sem ég vil vekja athygli þingheims á að í tillögunni er gert ráð fyrir að fækka uppbótarmönnum frá því sem nú er. Nú eru þeir fjórtán en yrðu samkvæmt þessari tillögu mun færri.

Í þriðja lagi er það mikilvægt fyrir lýðræðið í landinu að mínu mati að með þessum tillögum, ef þær verða samþykktar, þurfa flokkar svipað hátt hlutfall alls staðar á landinu til að ná þingmanni. Það skiptir mjög miklu máli. Við sjáum það t.d. á þróun Alþfl. og Kvennalistans líka á undanförnum árum að flokkarnir hafa verið að mjög miklu leyti bundnir við þéttbýlið. Það er vegna þess að þar hefur verið auðveldara og sérstaklega í Reykjavík að ná kjörnum þingmönnum. Það hefur auðvitað haft áhrif á eðli þessara flokka og ég tel að því er varðar minn flokk, Alþbl., að það hafi verið til bóta að okkur hefur yfirleitt auðnast að vera með svipaðan styrk í landinu öllu. Það skapar meira jafnvægi í stefnumótun og vinnubrögðum af hálfu flokks og ég tel að ýtt sé undir það með því að vera með þessi kjördæmi svona.

En á tillögunni eru að sjálfsögðu gallar og gallarnir eru aðallega tveir að mínu mati. Í fyrsta lagi sá galli að í tillögunum er gert ráð fyrir mjög mikilli stækkun kjördæma. Það er óumdeilanlegt að erfitt verður að komast yfir vestur- og norðvesturkjördæmið svo ég nefni dæmi og það verður erfitt að komast yfir austur- og norðausturkjördæmið. Til þess að takast á við það gerði undirbúningsnefndin sérstakar tillögur um að farið yrði í það að undirbúa sérstakar aðgerðir í byggðamálum, jafnréttismálum byggðanna sem snerta vegakerfi landsins, fjarskiptamál, húshitunarkostnað á köldum svæðum, námskostnað vegna framhaldsnáms o.s.frv. Þetta er tillaga sem við alþýðubandalagsmenn lögðum fram og leggjum mjög mikla áherslu á og sérstök nefnd er starfandi sem skipuð var af forsrh. og hún á að gera tillögur núna í næsta mánuði á grundvelli þessara sjónarmiða sem getið er um í skýrslu nefndarinnar og fram komu einnig í framsöguræðu hæstv. forsrh. fyrr í dag.

Í annan stað er komið til móts við þessi sjónarmið með því ákvæði sem fram kemur um hliðarráðstafanir í skýrslu nefndarinnar, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Verði tillögur nefndarinnar að lögum er ljóst að aðstaða þingmanna til að sinna kjósendum í hinum landfræðilega stærri kjördæmum verður önnur en áður. Með hliðsjón af því hvetur nefndin til að aðstoð við þingmenn úr þessum kjördæmum verði aukin, t.d. þannig að þingmenn fái styrk til að njóta liðsinnis starfsmanns eða til annars konar aðstoðar.``

Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og ég held meira að segja, herra forseti, að til greina komi að þetta atriði verði sett í framkvæmd strax eftir næstu kosningar þótt hin nýja skipan taki þá ekki gildi, fyrst og fremst vegna þess að þá fara menn bæði meðvitað og ómeðvitað að undirbúa hina nýju skipan og munu þurfa aðstoð við það, sérstaklega í dreifbýlinu eins og þar er málum háttað.

[12:30]

Ég vil hins vegar segja það að ég tel að ef rétt er á þessum málum haldið, bæði að því er varðar kjördæmabreytingarnar sjálfar og að því er varðar ráðstafanir í byggða- og félagsmálum og starfsaðstöðu þingmanna eigi þessar tillögur að geta orðið til sóknar fyrir landsbyggðina þegar allt kemur til alls. Þess vegna eigi ekki að vera þörf á að óttast að verið sé að veikja stöðu hennar frá því sem nú er. Ég vil a.m.k. sjá að staða landsbyggðarinnar veikist ekki frá því sem nú er þrátt fyrir þann tilflutning þingmanna sem gert er ráð fyrir í þessum tillögum.

Herra forseti. Því miður er aðeins 20 mínútna ræðutími þannig að í sjálfu sér er erfitt að koma því á framfæri sem maður vildi en ég vil þó drepa á nokkur atriði í viðbót á þeim þremur mínútum sem ég á eftir.

Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því að breytt er um reiknireglur og það er tekin upp d'Hondt-regla. Það er hægt að taka upp d'Hondt-reglu af því að þingmönnum er fjölgað svo mikið í hverju kjördæmi. Það er mjög mikilvægt einföldunaratriði.

Í öðru lagi bendi ég á að jöfnunarkerfið er miklu einfaldara vegna þess að gert er ráð fyrir því að jöfnunarþingmönnunum verði úthlutað á prósentu en ekki eins og nú er gert eftir allflóknu kerfi að ekki sé meira sagt.

Í þriðja lagi ætla ég að benda á að með þessum breytingum gerum við ráð fyrir því að móðurskipsreglan við úthlutun uppbótarsæta falli út og ekki þurfi lengur kjörinn mann í einhverju kjördæmi til að fá uppbótarmann heldur sé nóg að flokkur hafi tiltekið hlutfall, 5%, yfir landið ef hann ætlar að fá uppbótarmann þannig að aðgangurinn að uppbótarsæti er ekki lengur bundinn við kjörinn mann í einu kjördæmi eins og þetta er núna. Þetta þýðir það að hinn náttúrulegi þröskuldur til að fá kjörinn þingmann hækkar í Reykjavík, og hver er hann? Í Reykjavík og öllum öðrum kjördæmum landsins verður hann með þessum tillögum 7,7%. Það er hinn náttúrulegi reiknaði þröskuldur. Hann getur auðvitað orðið lægri eftir því hve margir bjóða sig fram eins og gengur en hann á ekki að vera hærri þannig að það er þröskuldurinn sem við er miðað. Ef við værum hins vegar með jafnmarga þingmenn og við erum með núna væri þröskuldurinn allmiklu lægri þannig að það er greinilegt að það er verið að gera erfiðara fyrir minni flokka eða minnstu flokka að ná inn þingmanni í þéttbýlinu en það hefur verið en mörkin liggja við 7,7% í Reykjavík.

Ég ætla í fjórða lagi að vekja athygli á því að í skýrslu nefndarinnar er bent á nýja leið við talningu atkvæða. Ekki er gert ráð fyrir því að telja endilega úr öllu kjördæminu hverju sinni heldur að talið yrði í hólfum þannig að það sæist t.d. hvert fylgi flokkanna er, segjum í Ísafjarðarsýslum og Ísafirði, svo ég nefni dæmi. Það þarf því ekki eftir þessum tillögum að steypa saman öllum atkvæðum, réttum seðlum úr hverju kjördæmi, bæði væri það viðamikið en eins mundi með þessu móti sjást styrkur og veikleiki flokka á hverju talningarsvæði fyrir sig. Þetta er að mínu mati mjög mikilvægt atriði, lýðræðislegt atriði, og stuðlar að því að gera kerfið gagnsærra.

Ég hef hér, herra forseti, tæpt á aðalatriðum málsins og vil að lokum endurtaka það sem ég sagði í upphafi. Ég tel að hér sé gætt eins mikillar sanngirni og kostur er þó mér sé ljóst að það reynir á málið í ýmsum tilvikum. Ég vil líka segja að hér er tillaga um lausn á þessu kjördæmamáli sem ætti að geta náðst um varanlegri sátt en verið hefur um núverandi kjördæmi og að því leytinu til styð ég af heilum hug þá tillögu leiðtoga stjórnmálaflokkanna sem er til umræðu.