Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 12:49:35 (1340)

1998-11-19 12:49:35# 123. lþ. 27.2 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[12:49]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér gerbreytingu á tæplega 40 ára kjördæmaskipan á Íslandi. Kjördæmin sem við búum við í dag hafa verið óbreytt frá árinu 1959. Frv. byggir á tillögum svokallaðrar kjördæmanefndar sem skipuð var í september 1997 með fulltrúum allra þingflokka. Nefndin skilaði af sér ítarlegri skýrslu og tillögum í síðasta mánuði. Mér finnst niðurstaðan sem þessi nefnd komst að vera slæm, sérstaklega hvað varðar stærð fyrirhugaðra kjördæma.

Ég er þeirrar skoðunar að kjördæmin sem hér er lagt til að koma á séu allt of stór. Ég tel það of stór kjördæmi ef skipta á landsbyggðinni í þrjú kjördæmi og það muni koma niður á henni. Ég held að í fyrsta lagi muni þetta lenda mjög illa á ýmsu því sem starfrækt er á kjördæmavísu, þ.e. samstarfi sveitarfélaganna í einstökum kjördæmum. Það er mjög víðfeðmt og gott í mörgum kjördæmum. Í hverju kjördæmi er samstarf milli sveitarfélaga, í atvinnuþróunarstarfi, um skólamál, samstarf um málefni fatlaðra, um sorpmál o.fl. Ég óttast að þetta verði mun erfiðara og þyngra í vöfum þegar kjördæmin verða orðin jafnflennistór og hér er lagt til.

Ég tel og að þetta muni bitna mjög á sambandi þingmanna við kjördæmi sín. Ég tel mjög nauðsynlegt fyrir þingmenn á landsbyggðinni að vera í góðu sambandi við kjördæmi sitt, þekkja hjartsláttinn í kjördæminu ef svo má að orði komast. Þeir þurfa að þekkja til sveitarfélaga, sveitarstjórnarmanna, þekkja atvinnulífið, vita stöðu fyrirtækja og vera kunnugt um hag fólksins í kjördæminu. Þetta held ég að verði miklu erfiðara eftir þá breytingu sem hér er lögð til. Ég held að þingmenn á landsbyggðinni sinni þessu almennt nokkuð vel. Þeir ferðast mikið um kjördæmi sín og reyna að fylgjast með hvernig vindar blása þar. Þetta verður miklu erfiðara eftir þessa breytingu en áður. Af mínu kjördæmi, Vesturlandi, tek ég sem dæmi að þar eru sjö þéttbýlisstaðir og margar og víðfeðmar sveitir. Við þingmenn Vesturlands reynum að koma á þessa staði sem oftast og fylgjast með því sem þar er að gerast. Þegar þessi breyting á kjördæmunum hefur tekið gildi verða þéttbýlisstaðir í því kjördæmi sem tekur við 24. Þar verða að auki gríðarlega stórar og miklar sveitir. Vegalengdir í þessu kjördæmi verða miklar og ég held að það verði nánast ómögulegt fyrir þingmenn þess að viðhalda sambandi því sem ég nefndi áðan að væri nauðsynlegt, eftir þessa breytingu.

Kjördæmanefndin hefur af snilld sinni komist að þeirri niðurstöðu að þetta megi leysa með því að láta þingmenn hafa aðstoðarmenn í staðinn. Í skýrslu kjördæmanefndar segir, með leyfi forseta:

,,Verði tillögur nefndarinnar að lögum er ljóst að aðstaða þingmanna til að sinna kjósendum í hinum landfræðilega stærri kjördæmum verður önnur en áður. Með hliðsjón af því hvetur nefndin til að aðstoð við þingmenn úr þessum kjördæmum verði aukin, t.d. þannig að þingmenn fái styrk til að njóta liðsinnis starfsmanns eða til annars konar aðstoðar.``

Nú er þetta að vísu ekki nákvæmlega útfært en ég skil þetta þannig að hver landsbyggðarþingmaður eigi að fá aðstoðarmann. Sé það meiningin þá sýnist mér að það muni verða kostnaður fyrir ríkið upp á a.m.k. 100 millj. kr. á ári. Ég hélt raunar að ríkissjóður þyrfti á öðru að halda. Sumir segja að þetta sjónarmið mitt varðandi samband við kjördæmin sé gamaldags og þingmenn eigi að sinna löggjafarstörfum og ekki vera að því sem sumir kalla kjördæmapot. Ég held því fram að slíkt samband við kjördæmin sé mjög stór þáttur af starfi þingmannsins, þ.e. aðstoð við lífið og tilveruna þar. Ég held að aðstoðarmenn komi ekki í staðinn fyrir þetta samband þingmanna við kjördæmi sín.

Ég er á því að þessi mikla stækkun kjördæmanna sé alveg afleit og finnst höfðatala þingmanna í hverju kjördæmi minna mál. Þess vegna hef ég oft rætt það við nefndarmenn í kjördæmanefndinni og veit að fleiri hafa gert það einnig að halda kjördæmunum óbreyttum en fækka frekar um einn þingmann í hverju landsbyggðarkjördæmi. Það mundi leiða nokkurn veginn til sömu niðurstöðu.

Ef við lítum á stöðuna hvað varðar Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi, Norðurlandskjördæmi vestra, Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæmi mundu þau fá 21 þingmann samkvæmt því. Í frv. er gert ráð fyrir að kjördæmi sem koma í staðinn, þ.e. Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi fái 20 þingmenn. Mismunurinn er einn þingmaður. Ætlum við að mæta því með 20 aðstoðarmönnum? Ég bara spyr.

Ég hef orðið var við mikla andstöðu við þessar hugmyndir á landsbyggðinni, a.m.k. í mínu kjördæmi. Ég hef verið talsvert á ferðinni þar að undanförnu og vart hitt nokkurn þann sem líst vel á þetta. Kannski byggist það eitthvað á svartsýni en þó held ég að menn séu þar mjög raunsæir. Við höfum heyrt ályktanir víða að að undanförnu þar sem landsbyggðarmenn álykta gegn þessu og líst illa á þessar breytingar. Hér er ályktun frá héraðsnefnd Snæfellinga frá aðalfundi þeirra um síðustu helgi þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur héraðsnefndar Snæfellinga mótmælir fram komnum tillögum að breyttri kjördæmaskipun sem settar hafa verið fram af nefnd um endurskoðun kjördæmaskipunar og tilhögun kosninga til Alþingis. Aðalfundurinn telur að landsbyggðarkjördæmin verði of stórar einingar landfræðilega.

Aðalfundur héraðsnefndar Snæfellinga telur að mannréttindi felist í fleiri þáttum en jöfnun atkvæðisréttar. Aðalfundurinn lýsir undrun á þeirri einhæfu áherslu sem nú er lögð á jöfnun atkvæðisréttar og telur að ekki megi líta fram hjá öðrum aðstöðumun sem landsmenn búa við.

Aðalfundur telur að tillögur um jöfnun atkvæðisréttar og breytingu á kjördæmaskipun verði að skoða í ljósi annarra ráðstafana til að styðja og styrkja búsetu á landsbyggðinni. Aðalfundurinn skorar því á stjórnvöld að jafna aðra þætti samhliða jöfnun atkvæðisréttar, svo sem aðgengi til náms, kostnað við framhaldsskóla- og háskólanám, samgöngur, húshitunarkostnað, aðgengi að opinberri og almennri þjónustu, flutningskostnað o.fl. Aðalfundur héraðsnefndar Snæfellinga telur jöfnun á aðstöðumun landsmanna í þessum efnum skilyrði fyrir jöfnun atkvæðisréttar.``

Höfundar kjördæmatillögunnar segja gjarnan að menn eigi ekki að setja samasemmerki á milli atkvæðisréttar og búsetuskilyrða. Út af fyrir sig má segja það en fólkið í þessum dreifðu byggðum lítur svo á, eins og kemur fram í þessari ályktun og fleirum sem borist hafa undanfarið, að réttindi landsmanna snúist ekki bara um kosningarrétt. Á þessum fundi héraðsnefndar Snæfellinga kom fram að fólk í hinum dreifðu byggðum á Snæfellsnesi býr margt við það t.d. að þurfa að senda börn sín til framhaldsnáms 16 ára gömul með ærnum tilkostnaði sem þéttbýlisbúar þurfa ekki. Það býr við gríðarlega háan húshitunarkostnað, einhvern þann hæsta á landinu, þó keypt sé af fyrirtækjum í eigu ríkisins, Rafmagnsveitu ríkisins, með tilstilli Landsvirkjunar.

Það býr við mjög háan flutningskostnað sem leiðir til þess að verðlag þar er hærra en á höfuðborgarsvæðinu og dýrara að flytja afurðir frá svæðinu en víða annars staðar. Það byggist m.a. á þungaskatti ríkisins sem að stórum hluta er landsbyggðarskattur. Það er því ekki óeðlilegt að menn setji fram þessi rök þó að auðvitað megi segja sem svo, eins og formaður kjördæmanefndir segir gjarnan, að menn eigi ekki að setja samasemmerki milli atkvæðisréttar og búsetuskilyrða.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að mæta þessum sjónarmiðum eða eins og segir í skýrslunni:

,,... samhliða þeim breytingum, sem verða á skipan kjördæma og úthlutun þingsæta, verði rætt um ýmis önnur atriði sem varða hagsmuni þeirra kjördæma og landshluta þar sem þingsætum fækkar.

Breytingar þær, sem lagt er til að gerðar verði á skipun kjördæma og úthlutun þingsæta, gefa tilefni til að fjallað verði um hvort ástæða sé að grípa til aðgerða til að styðja og styrkja búsetu á landsbyggðinni. Í því efni má nefna samgöngu- og vegamál, til að mynda örari endurbætur á vegtengingum einstakra byggða við aðalvegakerfi landsins, fjarskiptamál, húshitunarkostnað á hinum svonefndu köldu svæðum, námskostnað vegna framhaldsnáms o.fl.``

[13:00]

Nú hefur hæstv. forsrh. skipað nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka til að gera tillögur í þessa veru og út af fyrir sig er það ágætismál. Að vísu er þarna verið að taka á sömu þáttunum og komu fram í þáltill. forsrh. um stefnu í byggðamálum næstu fjögur árin, sem var rædd mjög ítarlega hér á Alþingi í fyrradag, en ég legg áherslu á að niðurstöðum þessarar nefndar, sem ég er ekki í nokkrum vafa um að mun komast að skynsamlegum niðurstöðum og vinna markvisst því í henni eru ágætir fulltrúar, verði fylgt eftir og það verði gert eitthvað með þær.

Það er auðvitað ýmislegt ágætt í þessum tillögum líka, t.d. líst mér vel á þær breytingar sem meiningin er að gera varðandi val frambjóðenda á kjördegi, útstrikanir og fleira, en auðvitað gæti þetta allt saman gerst þótt kjördæmaskipunin væri óbreytt. En svona heilt á litið líst mér illa á þessar tillögur, sérstaklega hvað varðar hina miklu stækkun kjördæmanna. Mér finnst niðurstaða kjördæmanefndar bera þess glöggt vitni að fimm af sex nefndarmönnum eru þingmenn höfuðborgarsvæðisins með fullri virðingu fyrir þeim ágætu þingmönnum, sem ég ber mikla virðingu fyrir. En svona eftir á að hyggja finnst mér að eðlilegra hefði verið að í kjördæmanefndinni væri meira jafnvægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.

Herra forseti. Ég óttast það mjög að þessi kjördæmabreyting muni veikja landsbyggðina. Vonandi verður það ekki svo því landsbyggðin þarf á allt öðru að halda.