Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:18:27 (1351)

1998-11-19 14:18:27# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einari Kr. Guðfinnssyni varð tíðrætt um fyrirsjáanlega fækkun þingmanna vegna fækkunar íbúa í strjálbýliskjördæmunum.

Ég tel að við hv. þm. megum ekki og eigum ekki að reikna með því að fólki haldi áfram að fækka úti á landi. Við eigum að gera ráð fyrir því að okkur takist að snúa þessari þróun við þannig að fólkið geti búið þar sem það vill. Það hefur sýnt sig að hlutfallslega fleiri Reykvíkingar vilja búa úti á landi en það að fólk úti á landi vilji búa í Reykjavík. Það er greinilegt að landsmenn vilja snúa þessari þróun við, það er og vilji velflestra ef ekki allra þingmanna sem hér hafa talað um byggðamál. Ég held við megum ekki gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram.