Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:23:14 (1354)

1998-11-19 14:23:14# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Stundum örlar á því hjá hv. þm. Sjálfstfl. að þeir vildu gjarnan sjá einmenningskjördæmi. Einmenningskjördæmi hafa marga kosti. Ég minnist þess að hv. fyrrverandi þm., Pálmi Jónsson, flutti hér einu sinn eitursnjalla ræðu um einmenningskjördæmi, sem næstum því dugði til að sannfæra gagnrýnendur þess fyrirkomulags, t.d. mig, um ágæti þess. Ef menn eru hins vegar með einmenningskjördæmi þá leiðir það til nákvæmlega þeirrar stöðu sem við sáum í Bretlandi 1983, þegar hv. þm. var þar við nám, að nýr flokkur þess manns sem hv. þm. nefndi hér til sögu, Jenkins lávarðar, fékk liðlega 24% atkvæða en sárafáa þingmenn. Það fyrirkomulag leiðir auðvitað til gríðarlegs óréttlætis.

Varðandi viðhorf mitt til mannréttinda og atkvæða er er ég þeirrar skoðunar að þetta sé hluti af grundvallarmannréttindum. Þess vegna tel ég þetta nauðsynlegt skref í þá átt að jafna atkvæðavægi algerlega. Ég geri mér grein fyrir að hv. þm. er mér algerlega ósammála. Ég náði ekki alveg þeim rökum sem hv. þm. færði fyrir þeirri skoðun. Það er ekki nóg að koma hingað og segja, ja með því að láta fámennari kjördæmi fá sterkara atkvæðavægi þá aukum við fjölbreytni hér. Ég held að það séu alls ekki nægilega sterk rök til að geta fylgt þessu viðhorfi eftir.

Mér finnst að þegar hv. þm. kemur og eyðir stórum hluta af sinni ræðu til að halda fram þeirri skoðun að það sé í lagi að búseta ráði atkvæðavægi þá verði hann að færa sterkari rök fyrir þeirri skoðun sinni. Ég er algerlega ósammála því sem stundum heyrist --- ég er ekki að segja að hv. þm. sé þeirrar skoðunar en hann kann að vera það --- að sökum þess að landsbyggðin eigi erfitt uppdráttar eigi að bæta henni það upp með því að láta hana fá fleiri þingmenn. Ég held það væri miklu viturlegra, ef við horfum út frá þeim sjónarhóli, að gera landið að einu kjördæmi. Það mundi vera gott fyrir hinar dreifðu byggðir. Að lokum, herra forseti, er eitt sem vantaði í hina ágætu ræðu hv. þm. og það er þetta: Fylgir hv. þm. þessu frv. eða ekki?