Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:28:16 (1356)

1998-11-19 14:28:16# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., RA
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:28]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þær tillögur sem hér liggja fyrir um breytingar á kjördæmaskipun landsins eru í tveimur frv. Annars vegar er um að ræða frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér er til umræðu og til afgreiðslu á þessu þingi. Hins vegar liggur fyrir frv. um kosningalög sem bersýnilega verður ekki til umræðu og afgreiðslu á þessu þingi, heldur mun bíða næsta þings.

Stjórnarskrárfrumvarpið segir í raun ákaflega fátt um fyrirkomulag mála. Það segir í raun það eitt að kjördæmin skuli vera sex, að mörk þeirra skuli ákveðin í lögum og að í hverju kjördæmi skuli vera minnst fimm kjördæmissæti sem úthluta skuli á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu. Öðrum þingsætum, þ.e. 33 þingsætum, sé þá úthlutað til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka í kjördæmum. Flokkur þurfi minnst 5% fylgi til að ná mönnum inn á þing og landskjörstjórn skuli breyta þingsætafjölda í kjördæmum ef kjósendur á kjörskrá, að baki hverju þingsæti, verði helmingi færri í einu kjördæmi en öðru. Loks er sagt að breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta skuli háð samþykki Alþingis með tveimur þriðju hlutum atkvæða.

Þetta er það sem verið er að fjalla um nú en bersýnilega verður sjálft kosningalagafrv. sem fjallar um mörk kjördæmanna, stærð þeirra, ekki til afgreiðslu nú heldur á næsta þingi eftir að stjórnarskrárbreytingin hefur verið samþykkt, ef hún verður samþykkt.

[14:30]

Ég vil segja það skýrt og skorinort að ég tel málatilbúnað þann er hér liggur fyrir mjög vanhugsaðan. Ég get ekki stutt þessi frumvörp eins og þau liggja fyrir. Ég tel fjölmarga valkosti koma til greina í sambandi við kjördæmaskipun. Menn hafa talað um einmenningskjördæmi annars vegar og svo hugmyndina um að landið verði gert að einu kjördæmi. Þetta eru pólarnir hvor á sínum vængnum. Ég tel báðar þær tillögur stórgallaðar. Einmenningskjördæmi munu leiða til þess möguleika að einn flokkur fái meiri hluta með aðeins 35--40% fylgi eins og reynslan sýnir í löndum þar sem einmenningskjördæmi tíðkast. Þá getur það gerst að flokkur sem er langt frá því að hafa meiri hluta meðal kjósenda fái meiri hluta þingmanna.

Hinn möguleikinn, að landið sé eitt kjördæmi, er aftur á móti líka mjög gallaður. Hann leiðir til mikils flokksræðis. Yfirstjórnir flokkanna munu hafa úrslitaáhrif á röðun á lista. Það verður því fyrst og fremst þekkt fólk úr fjölmiðlum sem mun eiga þess kost að komast framarlega á lista. Lítt þekkt fólk mun ekki hafa minnstu möguleika til þess að komast í framboð.

Í dag kemst lítt þekkt fólk á þing ef það hefur hæfileika til og tiltrú fólksins úti í kjördæmunum. Það þarf fyrst og fremst að vera þekkt meðal flokksmanna sinna í viðkomandi kjördæmi en þarf ekki að vera þekkt á landsmælikvarða. Ef landið væri allt eitt kjördæmi þá hefði enginn möguleika til að komast inn á þing nema hann væri þekktur í fjölmiðlum og nyti velvildar flokksforustunnar.

Ég tel að tengsl þingmanna við landsbyggðina yrðu afar yfirborðsleg og slitrótt ef landið yrði allt eitt kjördæmi. Ég hallast því að því að réttast sé að í landinu séu nokkur kjördæmi, sjö til níu talsins og alls ekki of stór. Ég tel að kjördæmi sem nær um allt landsvæðið frá Hvalfjarðarbotni um Borgarfjörð, Snæfellsnes, Breiðafjörð, alla Vestfirði og Norðurland austur í Fljót, sé alger óskapnaður sem ekki muni leiða til neinna heilla. Sama gildir um þá skipan að gera allt landsvæðið frá Siglufirði austur um land og um Austfirði til Hafnar í Hornafirði að einu kjördæmi. Það yrði líka óskapnaður sem verður mjög erfiður viðfangs fyrir þá sem því eiga að sinna.

Ég tel flestar aðrar tillögur sem nefndar eru í tillögum kjördæmanefndarinnar, eins og þær voru kynntar á Alþingi fyrir nokkrum vikum, séu hyggilegri en sú sem orðið hefur fyrir valinu og kynnt í greinargerð þessa stjórnarskrárfrv. Við á Norðurl. v. erum flest sammála um að ef ætlunin er að steypa saman fleiri en einu kjördæmi þá hefði verið æskilegra að Norðurl. v. og Norðurl. e. væru saman í kjördæmi. Þau tvö kjördæmi hefðu myndað landfræðilega og félagslega heild. Kjördæmi sem er í laginu eins og nú er verið að tala um, að það nái frá Hvalfjarðarbotni vestur um land og norður í Fljót myndar að sjálfsögðu hvorki félagslega né landfræðilega heild og er mun lakari kostur en ef Norðurland allt hefði myndað eitt kjördæmi. Mér er líka kunnugt um að óánægjan með þetta mál er langsamlega mest á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurl. v. Sá maður er vandfundinn á þessu svæði sem ekki er mjög óánægður með þá skipan sem hér er verið að gera tillögu um.

Ég tek hins vegar eftir því að endanlegt samkomulag um það hvernig þessi kjördæmi verði í laginu virðist ekki liggja fyrir samkvæmt kosningalagafrv. sem ekki verður afgreitt nú heldur á næsta þingi. Greinilegt er að hendur flokkanna eru óbundnar með tilliti til þess að hvaða skipan mála menn munu velja. Ég hef spurst fyrir um hvort menn líti svo á að um þetta hafi orðið endanlegt bindandi samkomulag. Mér skilst að svo sé ekki og ég fagna því. Ég tel að sú niðurstaða sem kynnt er hér í nefndarálitinu sé bráðabirgðaniðurstaða sem orðið hafi til í skrifborðsvinnu þar sem reiknivélina hafi verið notuð án þess að taka tillit til raunverulegra aðstæðna í landinu, án þess að taka nokkurt tillit til þess að skapa þyrfti landfræðilegar og félagslegar einingar sem gætu dugað sem eðlileg kjördæmi. Ég vona sannarlega að mál þetta verði tekið til endurskoðunar á síðara stigi, kjördæmin verði fleiri og kjördæmamörkin önnur en gert er ráð fyrir í greinargerð með frv.

Það er mikið talað um að óhjákvæmilegt hafi verið að leiðrétta vægi atkvæða eins og það er kallað. Menn segja gjarnan: Vestfirðingurinn hefur þrefaldan atkvæðisrétt á við þá sem búa í Reykjavík eða á Reykjanesi. Það er ekki alveg rétt eins og það er gjarnan túlkað. Það er nefnilega til tvenns konar vægi. Við gætum kallað annað flokkavægi og hitt landshlutavægi.

Við skulum hugsa okkur að stjórn og stjórnarandstaða takist á og komi nokkurn veginn alveg jafnt út úr kosningunum, það skakki ekki nema einu atkvæði hvor fái þingmeirihluta á Alþingi. Er það þá svo að Vestfirðingurinn hafi þrefaldan atkvæðisrétt á við Reykvíkinginn þegar þau átök eiga sér stað í kosningum? Að sjálfsögðu ekki. Þegar kosningaúrslit eru fengin er miðað við að flokkar hafi nokkurn veginn sama vægi á bak við hvern þingmann og þá skiptir ekki máli hvort atkvæðið kemur frá Vestfjörðum, Reykjavík eða Reykjanesi. Þetta eina atkvæði sem kannski ræður úrslitum vegur nákvæmlega jafnþungt hvort sem það kemur utan af landi eða úr hvaða kjördæmi það kemur. Öll atkvæðin vega jafnþungt þegar spurt er um styrk flokkanna á þinginu og um hvers konar ríkisstjórn skuli mynduð. Þetta kalla ég flokkavægi og þetta er að sjálfsögðu mergur málsins, þ.e. að atkvæðin vigta nákvæmlega öll jafnþungt þegar spurningin er um hvaða flokkar ná hér kosningu og hvers konar ríkisstjórn skuli mynduð.

Aftur á móti lýsir misvægið sér fyrst og fremst í því að frambjóðendur í kjördæmum úti á landi hafa heldur meiri möguleika til að komast að en frambjóðendur í sömu flokkum á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Það gætum við kallað landshlutavægi. Hlutfallslega eru fleiri þingmenn kosnir úr hinum fámennari kjördæmum en úr kjördæmunum á þéttbýlissvæðinu. Landsbyggðin fær þannig aukið vægi gagnvart þéttbýlissvæðunum með vali þeirra þingmanna sem kjörnir eru á vegum flokkanna. En flokkarnir standa jafnt að vígi og atkvæðin gilda jafnt þegar spurt er hversu marga þingmenn hver flokkur fær, hvaða flokkar geti myndað stjórn og hverjir ekki. Þetta verða menn að skilja. Þarna er verið að tala um tvo ólíka hluti og því ekki rétt að segja að Vestfirðingurinn hafi þrefaldan atkvæðisrétt á við Reykvíkinginn.

Ég tel að í þessu samhengi hljóti menn að taka kannski visst tillit til þess hvar á landinu Alþingi er staðsett, hvar á landinu ríkisstjórnin situr og hvar á landinu ráðuneytin eru. Ég tel að það að meiri hluti þingmanna hefur búsetu á höfuðborgarsvæðinu meiri hluta ársins hljóti að skipta nokkru máli. Menn verða að gera sér grein fyrir því að það að þingheimur er í höfuðborginni, ráðuneytin eru hér og ráðherrarnir sitja hér allan ársins hring, skiptir máli þegar litið er á uppbyggingu kjördæma og hversu marga þingmenn þau þurfi að hafa.

Ég get fullyrt það fyrir hönd Skagfirðinga að ef þeir ættu um það að velja að Alþingi sæti í Skagafirði, ríkisstjórnin sæti í Skagafirði og ráðuneytin væru staðsett í Skagafirði, þá mundu þeir láta eftir þingmenn sína, þeir mundu ekki þurfa á neinum þingmanni að halda og sennilega ekki Norðurl. v. Ég er viss um að Norðurl. v. mundi bara skipta á þeim grundvelli. Þá mundi þingheimur þekkja vandamálin í kjördæminu fullkomlega og að þörfin á sérstökum þingmönnum úr því kjördæmi væri miklu miklu minni en ella væri. Ég er ekki að segja að það eigi að svipta Reykvíkinga þingmönnum sínum. Ég er ekki að segja að það eigi að svipta Reyknesinga þingmönnum sínum. En hins vegar hlýtur að vera tekið tillit til þessarar staðreyndar. Þetta er gert víða. Ég bendi á það t.d. að höfuðborg Bandaríkjanna, Washington, hefur ekki þingmenn í fulltrúadeild bandaríska þingsins. Þar er þetta sjónarmið haft í huga. Þannig hefur þetta alltaf verið.

Menn hljóta líka að taka tillit til þess, þegar verið er að tala um að jafna vægi atkvæða, að mikið vantar á að menn njóti sömu réttinda í öllum kjördæmum. Það stendur einfaldlega þannig af sér, eins og kom mjög glöggt fram í byggða\-umræðunni fyrir fáeinum dögum síðan, að raforkuverð á landsbyggðinni er miklu hærra en á höfuðborgarsvæðinu. Hitakostnaður er auðvitað langtum hærri mjög víða. Skólakostnaður er miklu meiri en hér á þessu svæði, matvælaverð langtum hærra, samgöngur miklu lakari. Ef fylgja á þeirri stefnu sem sumir hv. ræðumenn hafa talað um í þessum þingsal, að atkvæðavægi eigi að vera óháð aðstöðu manna, þá ætti auðvitað að byrja á því að jafna þennan mun endanlega sem auðvitað verður mjög erfitt en ætti að vera forgangsmál áður en í þetta yrði ráðist.

Þegar menn tala, eins og t.d. hv. 9. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, rétt áðan, um að það sé mannréttindabrot ef hið svokallaða landshlutavægi atkvæða sé ekki nákvæmlega rétt, er hann þá að halda því fram að Bandaríkjamenn hafi framið svona ofboðslegt mannréttindabrot allan þann tíma sem Bandaríkin hafa staðið? Er hann að segja það að þetta mannréttindabrot sé eitthvert algengasta brot sem framið er í nálægum löndum? Víða er talið óhjákvæmilegt að mjög dreifbýl svæði fái hlutfallslega meira vægi en höfuðborgarsvæðin. Annars yrði að fjölga þingmönnum svo mikið ef hafa ætti einhverja þingmenn til að sinna þessum svæðum sérstaklega. Menn vilja ekki fara út á þá braut að fjölga þingmönnum og því verður hið svokallaða misvægi til.

Eins og ljóst má vera og það verða mín lokaorð hér, þá er ég ekki sáttur við þau frv. sem hér liggja fyrir. Ég ítreka að leitun er að þeim manni á Vesturlandi, Vestfjörðum og sérstaklega á Norðurlandi vestra sem sættir sig við þau frv. sem hér hafa verið lögð fram. Ég hvet eindregið til þess að málið í heild verði tekið til endurskoðunar.