Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:48:29 (1357)

1998-11-19 14:48:29# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mannréttindi og hugtök sem þeim tengjast eru í örri þróun. Eitt af því sem menn eru að ræða er einmitt atkvæðavægi í tengslum við mannréttindi. Það hefur komið fram hér og reyndar áður að ég er þeirrar skoðunar að þetta sé hluti af grundvallarmannréttindum. Ég tel að brotin séu á mér mannréttindi vegna þess að ég hef ekki sama atkvæðaþunga og hv. þm. Hvers vegna? Vegna þess að ég bý í öðru kjördæmi. Ég tel sem sagt að búseta nægi ekki til þess að mönnum sé mismunað með þessu móti hvað varðar atkvæðaþyngd.

Hv. þm. Ragnar Arnalds er bersýnilega þeirrar skoðunar að það sé í lagi að hafa svona kerfi til að hjálpa dreifbýlissvæðum. Nú er ég ekki á móti því að þeim sé hjálpað á einhvern hátt eins og kom fram í umræðu um byggðamál í gær eða fyrradag. Ég tel hins vegar að þetta sé röng aðferð og ég spyr hv. þm.: Hefur hún gagnast þessum kjördæmum á einhvern hátt? Hefur það gagnast þessum dreifðu byggðum? Veruleikinn segir okkur annað. Veruleikinn segir okkur að fólksflóttinn til höfuðborgarinnar hefur aldrei verið meiri. Hv. þm. verður þess vegna að færa einhver rök fyrir því að þetta sé eðlilegt.

Ég get í sjálfu sér ekki lagst gegn því að hv. þm. eins og aðrir séu andstæðrar skoðunar við mig í þessum efnum en ég tel mig hins vegar hafa fullan rétt til að biðja menn um að færa skýr rök fyrir því. Það er ekki nógu skýrt, a.m.k. ekki fyrir það heilabú sem hérna býr uppi, fyrir mig þegar menn segja einfaldlega: Það er bara í lagi, af því bara, að dreifbýlli kjördæmi hafi fleiri þingmenn. Það dugar mér ekki. Ef menn vilja hjálpa þeim kjördæmum, sem er sjálfsagt, þá er rétt að gera það á annan hátt.

En á hinn bóginn eins og ég sagði, herra forseti, þá sýnir reynslan ekki að þetta atkvæðavægi hafi beinlínis hjálpað þeim.