Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 15:17:11 (1362)

1998-11-19 15:17:11# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Flm. (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur legið fyrir frá því þetta starf hófst að ekki yrði auðvelt að finna lausn sem allir yrðu sáttir við þannig að menn hafa reynt að finna lausn sem þeir gætu verið sæmilega sáttir við.

Ég held að óhætt sé að fullyrða að það liggur ekki í loftinu önnur lausn sem meiri sátt gæti náðst um en sú tillaga hér er til umræðu, með öllum þeim annmörkum sem hún kann þó að hafa. Þó hægt sé að nefna önnur dæmi eins og menn hafa nefnt um að skera þingmenn neðan af núverandi dreifbýliskjördæmi og færa á þéttbýlissvæðið, þá eru aðrir sem hafa þá skoðun að sú lausn sé ekki farsæl, og þá geng ég út frá því að nánast allir þingmenn, eins og sá sem áðan talaði, sé í meginatriðum fylgjandi því að stíga ákveðin skref í átt til jöfnunar atkvæðisrétti.

Menn tala stundum um að atkvæðisrétturinn eigi að vega á móti öðrum þáttum eins og fjarlægð frá höfuðborg og þess háttar. Það á við um tiltekinn þátt starfseminnar hér sem snýr að til að mynda fjárúthlutun. Aðrir þættir eins og almenn löggjöf, skaðabótalöggjöf, refsilöggjöf og fleira í þeim dúr á ekkert skylt við fermetrastærð lands.

Varðandi skiptinguna í höfuðborginni get ég tekið undir það að maður sér annmarka í þeim efnum. Í tillögunni er sett lágmark gagnvart smæstu flokkum. Á landsvísu er það gert með 5% lágmarkinu gagnvart jöfnunarsætum og síðan er það gert með því að gæta þess að kjördæmin verði ekki með afar marga þingmenn eins og gerast mundi á höfuðborgarsvæðinu eftir þessa tilfærslu. Þá væri verið að rýmka fyrir smæstu flokkum hvað kjördæmakjör snertir og þetta er hluti af skýringunni.