Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 15:19:32 (1363)

1998-11-19 15:19:32# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[15:19]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er erfitt um vik ef menn binda sig í þessu módeli sem nefndin gerði og hæstv. forsrh. hefur skrifað upp á með framlagningu þessa frv. sem 1. þm. Reykv. eins og hann var kynntur til málsins í morgun. Ég er að gagnrýna það. Ég hef eins og margir aðrir lýst mig reiðubúinn til að skoða tilfærslu eða breytingu á þingmannafjölda milli svæða á landinu vegna búsetuflutninga. Það er ekkert prinsippmál í mínum huga þó ég telji ekki að jafnmikið hafi borið á þeirri gagnrýnisbylgju gegn núverandi stöðu sem af er látið. Ég hef hins vegar ekkert á móti því að gerðar séu leiðréttingar. Ég hef jafnvel tekið fram að að gefnum forsendum geti ég hugsað mér að skoða landið allt sem eitt kjördæmi, hefðu menn viljað taka undir millistig í stjórnsýslunni.

Menn eiga að horfa á landið eins og það liggur, taka tillit til landfræðilegra staðreynda og ekki reyna að búa til risakjördæmi sem vonlaust er fyrir þingmenn að þjóna. Ég vil kaupa það því verði að hafa misjafnan fjölda þingmanna í kjördæmunum á landsbyggðinni, t.d. á Norðurlandi og Austurlandi. Auðvitað er þar mjög mikil mismunun á fjölda þingmanna, en ég mundi kaupa það því verði til þess að hafa þetta starfhæfar einingar.

Ég kom því ekki að í máli mínu, virðulegur forseti, en hæstv. forsrh. gefur tilefni til þess. Ég vil ekki blanda saman byggðamálum og jöfnuði í aðstöðu manna við þessi mál. Ég vil skoða þau aðgreind, enda finnst mér afar óheppilegt að rugla þar saman reytum. Við erum með byggðaaðgerðir á sama tíma. Svo eru jafnframt enn einar aðgerðir sem eiga að kaupa frið fyrir þær tillögur í kjördæmamálinu sem um er að ræða. Þetta er ekki heppilegt. Menn eiga ekki að rugla þessu saman. Ég hefði viljað sjá þetta unnið á annan hátt þó ég mundi vilja koma til móts við þau meginsjónarmið sem valda því að við erum að ræða þetta mál.