Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 15:21:56 (1364)

1998-11-19 15:21:56# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna frv. því sem hér er til umræðu um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og miðar að breyttri kjördæmaskipan.

Sú sem hér stendur sat í nefndinni sem undirbjó frv. og tilheyrandi breytingar á kosningalögum. Ég stend heils hugar að áliti nefndarinnar og þeirri stefnu sem þar birtist og því frv. sem hér er til umræðu.

Vissulega er þessi niðurstaða málamiðlun. Öllum í nefndinni var ljóst að svona breytingar næðust ekki fram nema um þær ríkti sem breiðust samstaða. Fljótlega náðist sátt um meginmarkmið nefndarinnar, einfaldleika, jöfnuð á milli stjórnmálaflokka, óbreyttan fjölda þingmanna og síðast en ekki síst að draga úr misvægi atkvæða. Af markmiðum þeim sem nefndin setti sér er mér það langmikilvægast að draga úr misvægi atkvæða. Um þetta meginmarkmið voru allir nefndarmenn sammála þó í upphafi væri ekki ljóst hve langt ætti ganga. Núverandi misvægi er mest 1:3,55, þ.e. á milli Reykjaness og Vestfjarða en einnig er mikið misvægi milli kjördæma eins og t.d. Vestfjarða og Norðurl. e. Þar er það 1:2,5. Núverandi misvægi er ljóður á kosningakerfi okkar sem að mínu mati brýtur í bága við jafnræðisreglu og jaðrar við mannréttindabrot.

Í starfi nefndarinnar var miðað við að misvægið yrði 1,5--1,8. Um það viðmið náðist málamiðlun en við kvennalistakonur hefðum gjarnan viljað stíga stærra skref.

Þá ber að fagna þeirri sjálfkrafa leiðréttingu samkvæmt frv. sem verður á þingmannafjölda kjördæma ef misvægið fer yfir 1:2. Þetta ákvæði mun koma inn í 31. gr. stjórnarskrárinnar og þarf því ekki lagabreytingu til ef byggðaröskun fer yfir ofannefnd mörk. Á mannamáli þýðir þetta að ef kjósendur að baki hverju þingsæti verða helmingi færri í einu kjördæmi en öðru, þá flyst þingsæti yfir í fjölmennara kjördæmið.

Ef atkvæðisréttur hefði verið jafnaður miðað við núverandi kjördæmaskipan hefðu landsbyggðarkjördæmin haft mjög fáa þingmenn eins og rætt hefur verið í dag og þingmönnum Reykjavíkur og Reykjaness hefði fjölgað mjög mikið. Þannig hefðu misstórir þingmannahópar orðið raunin. Farið var yfir allar mögulegar lausnir allt frá einmenningskjördæmum yfir í að gera landið að einu kjördæmi. Það sem flestir gátu sætt sig við er það sem hér er lagt til, að lögfesta sex kjördæmi sem öll hafi svipaðan þingmannafjölda, þ.e. 10 eða 11.

Í fyrirhuguðum breytingum á lögum um kosningar til Alþingis sem fylgja með í starfi nefndarinnar --- þau lög verða ekki borin upp fyrr en á næsta kjörtímabili vegna þess að það þarf að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna tvisvar en ekki lögin --- er gert ráð fyrir þremur landsbyggðarkjördæmum og þremur þéttbýliskjördæmum og að þingmannafjöldinn sé svipaður.

Einn kostanna við að stækka kjördæmin er að stór kjördæmi eru talin æskilegri en lítil til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Ég vil gera það, herra forseti, að sérstöku umræðuefni þar sem ég sat fyrir hönd Kvennalistans í þessari nefnd. Það markmið var einnig ofarlega á baugi hjá nefndinni sem heild. Kjördæmanefndin hafði það markmið í huga við vinnu sína. Því markmiði er fylgt eftir í XI. kafla skýrslu nefndarinnar um hlut kvenna og fylgiskjali 7, áliti á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, sem unnið var að beiðni nefndarinnar, um jafnan rétt karla og kvenna til að kjósa og vera kjörin til þjóðþinga og héraðsstjórna.

Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna stuttlega í XI. kafla skýrslunnar, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Mikilvægt er að þær breytingar á kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulagi, sem stefnt er að, torveldi ekki þá þróun í átt til aukinnar stjórnmálaþátttöku kvenna sem orðið hefur á undanförnum árum og áratugum, heldur þvert á móti stuðli frekar að því að konur taki sæti á Alþingi.

Fyrsta konan tók sæti á Alþingi 1922, nokkrum árum eftir að konur fengu kosningarrétt og kjörgengi. Lengst af áttu fáar konu sæti á þingi, stundum engin, stundum ein til þrjár. Árið 1983 jókst hlutur kvenna talsvert [þ.e. við það að Kvennalistinn varð til] og nú er svo komið að tæp 30% þingmanna eru konur (nákvæmlega 28,6%; 18 konur).

Annars staðar á Norðurlöndum er hlutfall kvenna meðal þingmanna nokkru hærra, hæst í Svíþjóð eftir nýafstaðnar kosningar þar, 42,7%. Er það hæsta hlutfall í þjóðþingum heims, en næst koma Danmörk með 37,4%, Noregur 36,4%, Holland 36% og Finnland 33,5%. Að meðaltali mun þetta hlutfall vera 12,6% á þjóðþingum heimsins.

Í ályktun Alþingis frá því vorið 1998, um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, segir að fara eigi fram sérstök úttekt á áhrifum mismunandi kosningakerfa á möguleika kvenna og karla til að hljóta kosningu til Alþingis og sveitarstjórna.

Í vor samþykkti Alþingi enn fremur þingsályktunartillögu ,,um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum``. Samkvæmt henni er ríkisstjórninni falið að skipa nefnd sem starfi í a.m.k. fimm ár og standi hún fyrir ýmsum verkefnum sem stuðli að aukinni stjórnmálaþátttöku kvenna.``

[15:30]

Í framhaldi af þessum markmiðum ræddi nefndin við ýmsa fræðimenn og kynnti sér m.a. skýrslu Evrópuþingsins frá 1997, um áhrif kosningakerfa á stjórnmálaþátttöku kvenna. Niðurstaða nefndarinnar er sú að það sem skiptir mestu máli í kosningaskipulagi fyrir framgang kvenna í stjórnmálum er hlutfallskosning eins og hér tíðkast og stór kjördæmi.

Hér á landi var hlutfall kvenna eftir síðustu kosningar því hærra í einstökum kjördæmum sem kjördæmið hefur fleiri þingmenn. Í minnstu kjördæmunum tveimur náði engin kona kjöri í síðustu kosningum. Það ætti því að hafa jákvæð áhrif á möguleika kvenna að stækka landsbyggðarkjördæmin eins og til stendur að gera, en á móti kemur að stærstu kjördæmunum, Reykjavík og Reykjanesi, er skipt upp. Það er því niðurstaða nefndarinnar að sú tillaga sem hér liggur fyrir skapi ekki síðri skilyrði fyrir stjórnmálaþátttöku kvenna en nú eru. Ég held að ljóst sé hún mun ekki endilega gera skilyrðin betri en það er spurning hvort þetta vegur upp hvort á móti öðru, stækkun landsbyggðarkjördæmanna og minnkun hinna.

Í áliti Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, samanber fylgiskjal 7 í skýrslu nefndarinnar, er bent á fleiri leiðir til að jafna hlut kynjanna, svo sem að lögbinda kvótafyrirkomulag sem tryggir konum ákveðinn sætafjölda á þingi eða skylda stjórnmálaflokka til að tryggja jafnrétti kynjanna á framboðslistum. Lagaboð af þessu tagi hafa ekki reynst vel og eru nú aðeins í gildi í einu Evrópusambandsríki, Belgíu. Á Norðurlöndum hefur sú leið ekki verið farin heldur hafa stjórnmálaflokkarnir, t.d. í Noregi gert óformlegt samkomulag um að tryggja konum jafnan sess og körlum á framboðslistum sínum. Í Svíþjóð nota fimm stjórnmálaflokkar þá reglu að raða kynjunum á víxl á framboðslista sína en í Svíþjóð er hlutfall kvenna meðal þingmanna hæst.

Ég er því fullkomlega sammála meiri hluta nefndarinnar að leggja ekki til lögbundna kynjakvóta á framboðslistum stjórnmálaflokkanna. Nefndin telur æskilegra að þessi þróun eigi sér stað án lagaboða og þar skipti mestu að raunverulegur pólitískur vilji sé til staðar í stjórnmálaflokkunum og hjá kjósendum ef um prófkjör er að ræða. Það er því mikilvægt að fylgjast vel með þróun þessara mála í náinni framtíð og vonandi leiðir sú kjördæmabreyting sem stefnt er að til vaxandi hlutar kvenna í stjórnmálum og vonandi kemur almenningur þar að, bæði í prófkjörum og í starfi í almennum stjórnmálaflokkum.

Herra forseti. Mér hefur fundist það umhugsunarvert meðan á vinnunni í nefndinni stóð hvort eðlilegt væri að þingmenn vinni upp tillögur að breyttri kjördæmaskipan. Hugmyndir um stjórnlagaþing hafa öðru hvoru komið til umræðu og ég tel það fyllilega koma til greina að huga í framtíðinni að mismunandi aðferðum til að koma á breytingum af þessu tagi. Er eðlilegt að mótmæli einstakra þingmanna komi í veg fyrir að lýðræðislegar breytingar eigi sér stað á kjördæmaskipaninni? Mér finnst það ekki en er jafnframt sannfærð um að breyting sem gerð er svona, í sæmilegri sátt við alla pólitíska flokka, sé eina færa leiðin ef samþykkja á málið á Alþingi.

Í umræddri breytingu á stjórnarskránni er ekki kveðið á um kjördæmamörkin að öðru leyti en því að segja að mörkin verði ákveðin með lögum, þ.e. kosningalög sem ekki eru til afgreiðslu nú en verða á næsta kjörtímabili. Þó kemur fram að heimilt sé að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni. Í því sambandi vil ég geta þess að þetta orðalag getur opnað á það að Reykjavík geti t.d. stækkað til austurs eða vesturs inn í suðvesturkjördæmið og ég tel þetta því eðlilegan sveigjanleika.

Þó að hér sé ekki verið að samþykkja kjördæmamörkin eða það að skipta Reykjavík upp í tvö kjördæmi, þ.e. í þessu stjórnarskipunarlagafrv., þá vil ég vekja athygli á þeirri ábendingu sem fram hefur komið að hugsanlega væri æskilegra að skipta Reykjavík upp í norður-suður Reykjavík en ekki vestur-austur, þar sem Reykjavík mun að öllum líkindum aðeins stækka í austur. Það mundi hafa þá afleiðingu að kjördæmamörkin væru sífellt að færast til um miðhlutasvæðið á milli austurs og vesturs. Þessi ábending kom fram á fundi borgarfulltrúa í Reykjavík með nefndarmönnum og ég tel þetta fyllilega verðuga ábendingu fyrir frekari vinnslu málsins. En varðandi það að skipta Reykjavík upp í tvennt þá vil ég ítreka að meginrökin eru þau að þingmannahóparnir allir verði álíka stórir. Ég held að fyrir Reykvíkinga sé ekkert verra að hafa tvo hópa sem jafnvel geta farið í samkeppni hver við annan um að þjóna borgarbúum jafnt sem landinu í heild. Ég sé því í sjálfu sér ekkert athugavert við þá skiptingu annað en það að ég held að þetta verið hugsanlega erfiðara og muni ekki verða til þess að gera hlut kvenna meiri.

Herra forseti. Í einu dagblaðanna í dag er m.a. það til umfjöllunar að ef þetta nýja fyrirkomulag sem hér er til umræðu hefði verið í gildi í síðustu kosningum hefði Kvennalistinn að öllum líkindum ekki fengið þingmann kjörinn þar sem hann fékk 4,9% atkvæða en ekki 5%. Ég ætla að nefna þetta dæmi þó að mjög lítið hafi verið rætt um einstaka flokka í þessari nefnd, enda flokkakerfið kannski í örri breytingu eins og er, og ég held að það hafi verið mjög farsælt að nefndinni tókst að vinna þessi mál án þess að skoða einstaka flokka mjög mikið. Það er rétt eftir haft eða rétt túlkað í þessari blaðagrein að erfiðara verður fyrir litla flokka að koma kjördæmakjörnum mönnum að, eins og fram hefur komið í umræðunni í dag. Ég held að mörkin núna séu um 7,7% en Kvennalistinn fékk 4,9% í síðustu kosningum. Núna þarf kjördæmakjörinn mann til þess að fá uppbótarmann. Á móti kemur sú breyting sem hér er lögð til að ekki er skilyrði fyrir því að fá uppbótarmann að hafa kjördæmakjörinn mann þannig að núna er þröskuldurinn 5%, þ.e. ef Kvennalistinn hefði í síðustu kosningum fengið 5% en ekki 4,9%, þá hefði hann fengið þrjá þingmenn eins og hann fékk þá. En þessi þröskuldur, sem miðað er við til þess að stjórnmálaafl fái uppbótarþingmann, er málamiðlun sem náðist í nefndinni en það bil sem þar var rætt var alveg frá 2% og upp í 6%. Sjálf tel ég að þessi þröskuldur sem samþykkt var að hafa sé í hærra lagi enda er þröskuldurinn mun lægri á Norðurlöndum, t.d. 2% í Danmörku og 4% í Svíþjóð. En 5% var málamiðlun sem ég sætti mig við eins og aðrir nefndarmenn.

Þá vil ég nefna, herra forseti, að einföldun á kerfinu t.d. varðandi úthlutun á uppbótarþingsætum og að nota eingöngu d´Hondt-regluna sem er fyrirhugað í kosningalagabreytingunum mun í raun hygla stærri flokkum á kostnað hinna minni þannig að hugsanlega næst ekki fyllilegur jöfnuður á milli flokka. Þetta hefur verið rætt í nefndinni en niðurstaðan var að fara þessa leið, enda urðu flestir að gefa eitthvað eftir af sjónarmiðum sínum til að ná niðurstöðu.

Að lokum vil ég fagna þeim hliðarráðstöfunum sem fyrirhugaðar eru, sérstaklega þeim er varða vegagerð í stærri kjördæmunum og aðstoð við þingmenn þeirra. Ég tel að sérstaklega þurfi að huga að tengslum Suðurnesja við Suðurland og Siglufjörð við Norðurl. e. í þessu sambandi.

Að lokum vil ég, herra forseti, aðeins geta þess --- ég er rétt að ljúka máli mínu --- að ég tel að í þessari nefnd (Forseti hringir.) hafi náðst góð sátt og þar hafi formaður nefndarinnar, hv. þm. Friðrik Sophusson, átt stóran hlut að máli en ég vil nota tækifærið í lokin og þakka nefndarmönnum mjög gott samstarf.