Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 15:42:52 (1365)

1998-11-19 15:42:52# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég mun ekki hafa langt mál um það merkilega frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér er til umræðu, fyrst og síðast vegna þess að ég sat í þeirri nefnd sem hv. þingmönnum hefur orðið tíðrædd um og lagði drög að því frv. sem við erum að ræða í dag. Ég hef með öðrum orðum átt þess kost að koma sjónarmiðum mínum að beint og óbeint í því nefndarstarfi og einnig í því kynningarstarfi sem í kjölfarið fór eftir að nefndin skilaði af sér skýrslu sinni og mun ég í því ljósi stikla á stóru. Ég vil þó láta þess getið að ástæða er til að lýsa sérstakri ánægju með þann góða anda sem var að finna í þessari nefnd allra stjórnmálaflokka sem hér eiga sæti á Alþingi, en fljótlega var ljóst í því nefndarstarfi að almennur og víðtækur vilji var til þess að reyna að ná landi en að nefndarstarfið færi ekki í þann forna farveg sem menn þekkja allt of vel, að tíminn hlypi á braut og menn skiluðu litlum eða engum tillögum. Það hefur því miður verið niðurstaðan og örlög margra þeirra nefnda sem í þetta verk hafa farið á umliðnum áratugum. Margar þeirra hafa starfað árum saman og haft nægan tíma en ekkert mjakast. Ég hygg að nefndir af þeim toga hafi verið í gangi meira og minna síðustu tæpu þrjá áratugi. Ég vil nota tækifærið og þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir ánægjulegt samstarf í þessum efnum.

[15:45]

Í þessu ljósi vil ég halda því fram, virðulegi forseti, að ákveðin pólitísk tímamót séu á ferðinni með þessari tillögu því ef fram fer sem horfir, að meginþorri þingmanna muni gangast inn á þessa niðurstöðu, þó þeir kunni ekki allir að vera jafnánægðir með alla þætti tillögunnar, þá eru það vissulega stór tímamót í íslenskum stjórnmálum.

Sagan kennir okkur að umræður um kjördæmamál eru kannski þær heitfengnustu alla í íslenskum stjórnmálum og nægir að rifja upp stóru kjördæmabreytinguna 1959 í því sambandi. Ef okkur tekst að leiða þetta mál til lykta nú á þessu vetrarþingi í tiltölulega breiðri og góðri sátt þá held ég að ekki sé ofsagt að um tímamót í íslenskum stjórnmálum sé að ræða og undanskil ég þá ekki efni þessarar tillögu því hún er um margt mjög róttæk og talsverð breyting frá því kerfi sem við höfum búið við nú um langt árabil. Að sönnu er hún ekki jafnróttæk og breytingin var árið 1959 þegar menn í raun gjörbreyttu fyrirkomulagi mála. Engu að síður eru þær breytingar sem hér eru gerðar tillögur um það stórar í sniðum að full sæmd er að því að nota orðin róttækar tillögur í þeim efnum og því frekar er ástæða til að fagna því í þessari annars íhaldssömu stofnun, Alþingi, að um þetta geti náðst jafngóð og víðtæk samstaða og allt virðist benda til.

Ég hygg að ástæðan fyrir því að nefndin, formenn stjórnmálaflokkanna og síðan meginþorri þingflokka á hinu háa Alþingi hafi náð allgóðri sátt um þessa leið hafi verið fyrst og síðast sú að langflestir þingmenn átta sig á því og skynja að við gamla kerfið verður ekki búið mikið lengur. Það kraumar undir niðri og um það er ekki sátt. Ég ætla mér ekki í því samhengi að leggjast í djúpar umræður um það hvort kjördæmamál hverju sinni séu mannréttindamál og skipan þeirra mála, eða hvort þar sé um að ræða hagræn atriði varðandi byggð í landinu. Ég ætla mér ekki að taka á því deilumáli. Um það hafa menn karpað og með gildum rökum báðir aðilar nú áratugum saman. Mitt mat er að sú umræða, jafnmikilvæg og eðlileg og hún er, hafi í raun stundum stöðvað það að menn kæmust áfram með það að lagfæra sannarlega verstu agnúana á núverandi kerfi. Hér eru menn því með öðrum orðum ekki að taka afstöðu til þess grundvallaratriðis. Menn geta haft sín sjónarmið uppi um það áfram. Hér eru menn hins vegar að taka risaskref í þá veru að draga mjög verulega úr misvægi atkvæða sem hefur verið þyrnir í augum, ég vil segja, langflestra kjósenda um langt árabil. Svo mikið er misvægið að menn hafa ekki komist hjá því að reka augun í þær stórkostlegu misfellur sem það hefur skapað. Enn fremur hafa menn áttað sig á því að núverandi kosningakerfi með öllum þeim kostum og göllum sem það innifelur er flókið og illskiljanlegt, ég vil segja, þingmönnum mörgum hverjum og kannski flestum, og þjóðinni að langstærstum hluta. Menn hafa hent að því gaman að þeir væru kannski tveir eða þrír hérlendis sem gætu með fullri sæmd talið sig geta hent reiður á útreikningum og öllum þeim krúsindúllum sem núverandi kerfi býður upp á. Sumir hafa haldið því fram að það sé plús við það kerfi því það skapi óvæntar uppákomur á kosninganótt. En þótt eitthvað kunni að draga úr skemmtanagildinu fyrir sjónvarpsáhorfendur með þessari breytingu sem hér er gerð þá hygg ég að að sama skapi nái réttlætið og sú eðlilega umgjörð sem hér er búin fram skynsamlegri og eðlilegri niðurstöðum miðað við það lýðræðisumhverfi sem við höfum búið okkur og viljum starfa í.

Það kerfi sem hér er lagt upp með tekur mið af nokkrum meginþáttum. Einn veigamesti þátturinn er í mínum huga sá að þingmannahópar þessara sex kjördæma verða jafnstórir, jafnfjölmennir og jafnsterkir eftir þessa kerfisbreytingu og fyrir hana. Við sjáum í töflu sem tekin var saman hvernig landið gæti litið út til að mynda ef menn jöfnuðu misvægi atkvæða að fullu í núverandi kosningakerfi. Það þýddi það einfaldlega að kjördæmi á borð við Vestfirði eða Austfirði væru kjördæmi tveggja til þriggja þingmanna á sama tíma og hin stóra Reykjavík væri kjördæmi með 25 þingmenn. Hvers konar mynd væri á þessu þingi? Hún væri engin. Mín trú er sú að þegar fram líða stundir muni menn átta sig á því að þessir jafnstóru og sterku þingmannahópar sem hér koma til þings að afloknum öðrum kosningum hér í frá muni með tíð og tíma styrkja landsbyggðina og efla að ráðum og dáð. Ég er sannfærður um það.

Menn hafa auðvitað velt upp ýmsum öðrum valkostum til að draga úr þessu misvægi og sagt sem svo: Hví ekki að fara þá einföldu leið að fjölga þingmönnum í R-kjördæmunum svokölluðu, taka einn úr hverju landsbyggðarkjördæmi og færa á suðvesturhornið og halda jöfnunarkerfinu tiltölulega óbreyttu? Niðurstaðan yrði einfaldlega sú að við byggjum til, miðað við núverandi flokkakerfi, annars vegar dreifbýlisflokka og hins vegar þéttbýlisflokka, að við byggjum til dreifbýlisþingmenn og hins vegar þéttbýlisþingmenn. Og það sem meira væri og sem er að mínu mati einn stærsti galli núverandi kerfis, að kjósendur víða úti um land, við skulum segja í hinum smærri kjördæmum á Vestfjörðum eða Austfjörðum, kjósendur flokka sem ekki næðu kjördæmakosningu væru í raun að kjósa uppbótarmenn sama flokks í henni Reykjavík eða á Reykjanesi. Kjósendur á Egilsstöðum eða Neskaupsstað væru í raun og sanni --- við skulum segja flokks sem þar næði ekki kjördæmakjöri en ætti skammt í það --- væru að kjósa frambjóðanda í þriðja sæti sama flokks á Reykjanesi. Var það nokkurn tímann hugsunin? Var sá maður einhvern tímann í framboði austur á landi? Nei, auðvitað ekki. Þessi galli er tekinn af. Nú eru þessi stóru kjördæmi sjálfum sér nóg og þau atkvæði sem falla til þar falla á þá flokka sem þar eru. Og þeir þingmenn koma þaðan. Þetta er mjög mikilvægt atriði, virðulegi forseti.

Ég vil nefna eitt til sögunnar sem mér finnst menn fara dálítið léttilega yfir í þessari umræðu og finnst mér raunar að um sé að ræða hugtakabrengl. Ég held samt að flestir séu sammála um þetta atriði. Menn hafa talað um að jafnræði milli flokka sé tryggt, að tryggt sé að flokkarnir fái það sem þeim ber og sumir hafa talað um það í almennum greinum um þessi mál að í þessari tillögu, hinni gömlu, séu flokkarnir ætíð að gæta að sjálfum sér. En hér er auðvitað allt annað á ferðinni. Hér er það á ferðinni að kjósendur fái þá þingmenn frá þeim flokkum sem þeir eru að kjósa. Það er því um mikilvægt réttlætismál að ræða fyrir þá kjósendur sem nýta sinn lýðræðislega rétt að atkvæði þeirra greidd A-lista fari á A-lista og nýtist A-lista og að A-listi fái atkvæðið fullt og óskorað en nýtist ekki að hálfu eða hluta til B-lista. Hér er því auðvitað líka tekið risaskref í þá átt að halda því áfram að réttur kjósenda sé fullkomlega tryggður.

Virðulegi forseti. Ég leyni því ekkert og gekk til þessa leiks í þessari nefnd fyrir rétt rúmu ári þegar hún hóf störf, að ég fór með mínar ýtrustu hugmyndir í þessa veru og þær eru öllum ljósar. Ég hef verið þeirrar skoðunar að landið ætti að vera eitt kjördæmi og hef talið að með því móti mætti slá margar flugur í einu höggi, jafna misvægið að fullu og tryggja það að þingmenn þjóðarinnar væru þingmenn þjóðarinnar allrar. Það mundi þýða að við uppstillingu flokkanna mundi verða gætt góðrar breiddar hvað varðar aðkomu þingmanna og frambjóðenda frá dreifðari byggðum, aðkomu kvenna, aðkomu ungs fólks og þannig fengist kannski breiðari og fjölbreyttari flóra þingmanna en við eigum að venjast. Gallinn er sá sem á hefur verið bent að með því móti er vald flokkanna e.t.v. gert of mikið.

Menn hafa bent á það sem við þekkjum raunar úr Reykjavík þar sem stærsti flokkurinn, Sjálfstfl., er með átta eða níu þingmenn að ekki er nokkur möguleiki fyrir kjósendur að breyta einu eða neinu þar. Flokkurinn hefur tekið sína ákvörðun og þeir koma hér í hóp og setjast inn á Alþingi miðað við þann þingstyrk sem sá flokkur hefur haft í gegnum tíðina. En við höfum á móti sagt að þessu mætti mæta með því að stórauka valfrelsi kjósenda innan kjörklefans, færa prófkjörin svokölluðu sem svo hafa verið nefnd, inn í kjörklefann sjálfan. Ég fann hins vegar fljótlega fyrir því að innan nefndarinnar mundi ekki nást samhljómur um þetta og fremur vildi ég taka næstbesta kostinn en alls engan.

Ég hef sagt það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og vil árétta það hér, virðulegi forseti, að versta niðurstaðan í þeim tilraunum sem gerðar hafa verið í þeim tilgangi að betrumbæta og lagfæra kjördæmaskipun í landinu hefur verið sú að gera ekki neitt, að gera nákvæmlega ekki neitt. En nú horfir til þess sem betur fer að menn ætli ekki að lenda í þeim fúla pytti á nýjan leik að gera ekki neitt, að láta danka og halda hinni eilífu umræðu áfram. Hér eru risaskref tekin að mínu áliti. Auðvitað er margt óljóst með það hvernig þessi mál munu þróast í framtíðinni, hvort nákvæmlega þetta fyrirkomulag muni festa sig í sessi um aldur og ævi eða hvort út frá þessu fyrirkomulagi muni þróast annað og betra kerfi, lítils háttar eða stærri lagfæringar á því í sátt og samlyndi milli þings og þjóðar. Um það get ég ekkert fullyrt þótt menn hafi reynt að tryggja það í þessum tillögum að þingið þurfi ekki vegna einfaldra leiðréttinga, t.d. vegna búsetuþróunar, vegna þess að misvægi aukist á nýjan leik, að koma að því máli með jafnþunglamalegum hætti og óhjákvæmilegt er þegar gerðar eru breytingar á kjördæmaskipan og kosningalögum. Það er með öðrum orðum ákveðið innbyggt stýrikerfi í þessum tillögum sem gerir það að verkum að hægt er að ímynda sér að þetta kerfi lifi lengur en eitt eða tvö kjörtímabil. En framtíðin mun skera úr um það. Hinu verður ekki breytt, virðulegi forseti, að hér hafa stjórnmálaflokkarnir, að minni hyggju, hafið sig upp yfir dægurþras, hafið sig upp yfir þrönga flokkshagsmuni en látið hin stærri og víðfeðmari sjónarmið ráða för og áttað sig á kalli tímans, áttað sig á kalli þjóðarinnar um löngu tímabærar breytingar í þessa veru. Ég fagna heils hugar, virðulegi forseti.