Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 16:02:52 (1368)

1998-11-19 16:02:52# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[16:02]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég hefði talið að nefndin og formaður hennar, sem er nú kominn í þingsal, hv. þm. Friðrik Sophusson, hefðu átt að taka til bragðs í þessum efnum, var að festa í sessi millistig í stjórnsýslu landsins, byggt á hæfilega stórum landfræðilegum einingum, og ef það hefði náðst fram hefði ég verið tilbúinn til þess að ganga til móts við sjónarmið jafnaðarmanna, þingflokks jafnaðarmanna eða Alþfl. um það að menn kysu eitt og óskipt Alþingi Íslendinga. Ef það væri tryggt að það yrðu til millieiningar í landinu sem fengju ákveðna sjálfsstjórn og fengju verkefni frá ríkinu. Það er lausn sem hefði jafnframt orðið til að treysta stöðuna í byggðamálum í landinu vegna þess að hún hefði verið grunnur til þess að færa verkefni frá ríkisvaldinu, frá stofnunum og ráðuneytum í Reykjavík út í eðlilegar einingar úti um landið. Talað er um að gera það í núverandi byggðatillögu en það vantar grunninn til þess að taka við þessum einingum.

Það er náttúrlega eins langt frá veruleikanum og nokkuð getur verið þegar hv. þm. talar um að með þessari fáránlegu útfærslu nefndarinnar með þessum risakjördæmum sé verið að stíga skref í áttina að gera landið að einu kjördæmi. Menn geta náttúrlega leitast við að hugga sjálfa sig með ýmsum hætti og það er greinilega verið að gera það hér.

Hins vegar, virðulegur forseti, er mér mjög ljúft að minnast sameiginlegra ferða með hv. þm. um Austurlandskjördæmi, líklega í kosningunum 1983, þá var ég búinn að vera þar á velli nokkrum sinnum og það var mjög ánægjulegt að ferðast með hv. þm. og leiða hann til betri vegar í sambandi við landafræðina í því kjördæmi. Ég hugsa að þetta geti endurtekið sig í þessum risakjördæmum, að frambjóðendur frá Höfn í Hornafirði geti orðið svolítið áttavilltir þegar kemur vestur í Eyjafjörð, að átta sig á því hvar þeir eru staddir, svipað og hv. þm. þegar hann var í framboði á Austurlandi.