Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 16:05:17 (1369)

1998-11-19 16:05:17# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[16:05]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti, örstutt. Ég held að það segi alla sögu hér, virðulegi forseti, að ég er ákaflega glaður með þetta frv. og ég held að það hafi ekki leynt sér í framsöguræðu minni og ég leiddi að því nokkur rök. Ég þarf því ekki að hugga mig við eitt eða neitt. Það er augljóst mál hvor okkar er glaðari, ég eða hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, því að hann hefur auðvitað allt á hornum sér í þessu máli eins og raunar í mörgum öðrum.

Hér er alvörumál á ferðinni og meginatriðið er það, virðulegi forseti, að ég er sannfærður um að að örfáum árum liðnum verði slík verkaskipting komin á milli þingmanna innan flokka að þessi stærð kjördæma valdi ekki nokkrum erfiðleikum. Þar eiga nákvæmlega sömu lögmál við og ég gat um áðan varðandi landið eitt kjördæmi. Auðvitað munu flokkarnir sjá til þess og gæta að því að representasjón verði nokkuð dreifð og góð um landið, representasjón af konum og körlum, fólki að vestan, austan, norðan og af suðvesturhorninu. (HG: Hvað ætlar bræðingurinn að fá marga í Norðausturkjördæminu?) Samfylkingin, ef hv. þm. á við hana, ætlar að fá nokkra þingmenn þar, hann getur verið algjörlega viss um það. Þá erum við ekki að tala í einum eða tveimur, heldur þremur eða fjórum, hafi hann af því verulegar áhyggjur. En, maður, líttu þér nær, segi ég nú við hv. þm., þegar talið berst að þessum atriðum. En það er algjört aukaatriði máls og við spyrjum auðvitað að leikslokum um það. Hér er gott mál á ferð, við skulum hafa það hugfast.