Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 16:57:42 (1374)

1998-11-19 16:57:42# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[16:57]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kýs að ræða það frv. sem hér liggur fyrir út frá því sjónarmiði hvort landsbyggðin beri skarðan hlut frá borði ef það verður samþykkt. Inntakið í tillögum þeirrar nefndar sem undirbjó frv. var að jafna atkvæðisrétt landsmanna. Mesta misvægi, eins og hefur komið fram, er 1:3,55 en tillagan gerir ráð fyrir að misvægið verði 1:1,5--1,8. Þetta hefur okkur verið tjáð að hafi verið pólitísk ákvörðun sem nefndin fékk í veganesti í sínum störfum. Mér er ekki kunnugt um hvar þessi ákvörðun hefur verið tekin en hins vegar hefur ekki verið deilt um þetta markmið og nokkuð breið þverpólitísk samstaða virðist um að jafna atkvæðavægið. Hvað okkur framsóknarmenn snertir þá erum við með samþykkt flokksþings að baki okkur sem segir að endurskoða skuli kosningalöggjöfina með það fyrir augum að hún verði einfaldari og vægi atkvæða skuli jafnað.

Tilgangur með starfi nefndarinnar var því að fækka kjörnum þingmönnum af landsbyggðinni og flytja þá til þéttbýlisins. Það eru afleiðingar af þessari jöfnun. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að með því að fækka kjörnum fulltrúum ákveðinna svæða á landsbyggðinni og fjölga þeim á höfuðborgarsvæðinu og nágrenninu þá minnka bein áhrif landsbyggðarinnar sem hún hefur haft í gegnum þessa fulltrúa. Hitt er endalaust álitamál hvers virði þessi tengsl hafa verið og áhrif kjörinna þingmanna landsbyggðarinnar hafa áreiðanlega verið misjöfn. Ég er þó þeirrar skoðunar að þau hafi verið veruleg og þau hafa ekki síst verið í því fólgin að halda málefnum hinna ýmsu byggðarlaga, fjölmennra og fámennra, í umræðunni og þrýsta á um afgreiðslu þeirra. Allir þekkja ádeilur á þingmenn landsbyggðarinnar fyrir þetta og oft hafa þeir verið uppnefndir kjördæmapotarar fyrir þessa iðju sína.

[17:00]

Hins vegar sjást mörg merki þess að eðli þingmannsstarfsins í Reykjavík svo ekki sé talað um á Reykjanesi, sé að breytast. Þess sjást fleiri merki en áður að Reykjavíkurþingmennirnir láti dæmigerð kjördæmamál til sín taka svo sem samgöngumál að hafnamálum undanskildum. Þarna á ég t.d. við fjárframlög til vegamála, uppbyggingu umferðaræða í borginni og uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Ljóst er að á þessu svæði hafa kröfurnar á seinni árum vaxið um að ríkisvaldið standi sig í sameiginlegum verkefnum ríkis og sveitarfélaga. Ég held að þessi tilhneiging muni aukast með tillögu nefndarinnar, ef það gengur eftir að Reykjavík verði skipt í tvö kjördæmi og Reykjanesi verði einnig skipt upp. Kjördæmavitundin mun aukast með fækkun í stóru kjördæmunum um leið og landsbyggðarkjördæmin verða stækkuð og persónuleg samskipti og aðstaða þingmanna þar til að heimsækja öll byggðarlög, stór og smá, verður verri.

Ég hygg að vitund Reykjavíkurþingmannanna um baklandið muni verða meiri og málefni sem liggja nærri fólkinu verði ofar á baugi, rétt eins og úti á landsbyggðinni. Út frá þessari forsendu hygg ég að landsbyggðin muni bera skarðan hlut frá borði verði þessar tillögur samþykktar og ekkert annað að gert. Áhrif þéttbýlisins munu aukast um leið og þau minnka í dreifbýlinu og hin stóru samliggjandi kjördæmi hér á litlu svæði, með sameiginlega hagsmuni á ótal mörgum sviðum, hafa meiri hluta á Alþingi. Landsbyggðin hafði reyndar meiri hluta áður og ég er ekki svo hræddur um að þessum meiri hluta verði beitt, það er ekki ástæða efasemda minna. Ég minnist þess ekki að landsbyggðarþingmenn hafi staðið saman gegn höfuðborgarsvæðinu. Skipting í stjórn og stjórnarandstöðu og skipting þingmanna í flokka er hér höfuðástæðan en einnig eru hagsmunir landsbyggðarkjördæmanna ólíkir á ýmsum sviðum. Styrkur landsbyggðarinnar hefur fyrst og fremst legið í auðveldum og beinum persónulegum tengslum við þingmenn ef kjósendur þar hafa viljað hafa það svo. Það liggur í augum uppi að með færri þingmönnum minnka þessi tengsl. Ég er því þeirrar skoðunar að ef þetta frv. verður samþykkt og engar aðrar aðgerðir --- handfastar aðgerðir --- fylgi, muni þar halla á landsbyggðina.

Hvað er til ráða til að mæta þessu? Samþykkt hefur verið að leggja þetta frv. fram á Alþingi. Um það er nokkuð breið samstaða. Ég er í hópi þeirra sem samþykkt hafa að leggja frv. fram til vinnslu hér á Alþingi af ástæðum sem ég kem að örlítið síðar.

Rætt hefur verið um hliðarráðstafanir til styrktar landsbyggðinni og nefnd verið skipuð til að ræða þessar ráðstafanir. Nefndin hefur haldið fundi, tvo eða þrjá eftir því sem ég veit best. Ég vil leggja mikla áherslu á starf nefndarinnar og ekki vil ég síður leggja áherslu á að farið verði eftir tillögum hennar. Það er ekkert nýtt að hér séu skipaðar nefndir til að fjalla um vandamál landsbyggðarinnar. Um það hafa verið uppi fögur fyrirheit sem hafa verið rædd og lagðar fram þáltill. með þessum fögru fyrirheitum. Nú í vikunni voru maraþonumræður um eina slíka tillögu. Ég vona að með starfi þessarar nefndar verði þau þáttaskil að aldrei þessu vant verði farið eftir tillögum nefndarinnar og þær framkvæmdar. Ég vil trúa því og hef verið bjartsýnn á að það verði gert.

Hér hafa margir nefnt húshitunarkostnað, námskostnað, jöfnun aðstöðu milli borgar og landsbyggðar og ég tek undir hvert orð í því sambandi. Ég er ekkert svo bjartsýnn á að það dugi til að snúa þróuninni við. Ég tel að færa þurfi eitthvað af raunverulegum völdum í stjórnkerfinu út á landsbyggðina. Höfuðborgarsvæðið hér er hlutfallslega stærra en í nokkru nágrannalandi okkar. Menn eiga ekki við sömu vandamál að stríða um vægi atkvæða í nágrannalöndunum vegna þess að byggðin er miklu dreifðari og meira jafnræði með kjördæmunum. Höfuðborgarsvæðið er svona stórt vegna þess að ákvarðanir voru teknar um að hér sæti ríkisstjórn, framkvæmdarvald, Alþingi og hér yrðu miðstöðvar opinberrar stjórnsýslu. Hér er miðstöð viðskipta í landinu og í svona litlu landi gerir þetta það að verkum að borgin vex og nágrannabyggðir af miklum krafti.

Ég hef fyrir aðalstarf hér á Alþingi og hef haft nú um nokkurra ára skeið að fara yfir frv. til fjárlaga Það fer ekki hjá því að sjái á því frv. hve opinbera kerfið vex hér hröðum skrefum og ýmsar stofnanir vaxa hér mjög hratt. Síðast í morgun rakst ég á, þegar við fórum yfir málefni samgrn., eina ágæta og þarfa stofnun sem heitir Póst- og fjarskipta\-stofnun undir samgrn. Ég hafði ekki áttað mig á því að þessi stofnun slagar upp í ráðuneytið að stærð og svo er um margar stofnanir. Það er því enginn smáræðis kraftur og fjölbreytni í atvinnulífi sem fylgir þessum stofnunum.

Ég er í þeirra hópi sem vilja auka hlut landsbyggðarinnar í opinberri þjónustu. Hins vegar er ég í þeirra hópi sem vilja gera það í sæmilegri sátt. Ég vil a.m.k. að aukningin í þjónustu ríkisins úti á landsbyggðinni verði í sæmilegri sátt við þetta svæði hér. Við erum ein þjóð í einu landi og ég vil halda mér í það sem lengst. Ég tel að jafnhliða þeim aðgerðum sem hér eru á döfinni þurfi að flytja aukin verkefni til stjórnsýslunnar á landsbyggðinni. Ég tel að sú þróun hafi orðið að hún geti tekið við henni.

Fyrsta tillaga nefndarinnar sem undirbjó frv. var að jafna kjördæmin að mannfjölda, búa til þrjú stór landsbyggðarkjördæmi og skipta Norðurlandi vestra, Austurlandskjördæmi, Reykjavík og Reykjanesi upp. Þetta vakti mjög hörð viðbrögð á landsbyggðinni, t.d. á Norðurlandi vestra og Austurlandi vegna þess að sveitarfélögin hafa byggt upp stjórnsýslu og samstarf á sveitarstjórnarstiginu á mjög mörgum sviðum sem mörg eru miðuð við kjördæmi. Nú hefur verið horfið frá þessu að hluta með Norðurland vestra og Austurland. Ég tel að það sé til bóta enda var það forsenda þess að ég samþykkti að leggja þetta frv. fram til vinnslu á Alþingi. Ég á sæti í sérnefnd þeirri sem fjalla mun um frv. og hef því tækifæri til að koma sjónarmiðum mínum að í því starfi. Ég tel að mjög þurfi að vanda yfirferðina og reyna enn að gera sér grein fyrir afleiðingum ýmissa ákvæða þess. Ég ætla þó ekki að orðlengja það núna við 1. umr. málsins.

Í lok máls míns vil ég víkja að því tali sem verið hefur um atkvæðavægið og þeim staðhæfingum sem hér hafa heyrst í þessari umræðu, að ójafnt vægi atkvæða sé mannréttindabrot. Ég neita því ekki að þessi umræða fer svolítið í taugarnar á mér og meira en lítið. Mér finnst að þarna sé mannréttindahugtakið þynnt út.

Mannréttindi eru grundvallarréttindi, rétturinn til lífs, rétturinn til að vera ekki pyndaður eða niðurlægður. Það á nota mannréttindahugtakið á þessu afmarkaða sviði en hætta á að það þynnist mjög út ef farið er að nota það yfir mikilvæg, borgaraleg og lýðræðisleg réttindi eins og kosningarétturinn er vissulega. Ég hef ekki heyrt menn halda því fram að það sé mannréttindabrot að hafa öldungadeild í Bandaríkjunum, þar eiga fylki Bandaríkjanna sína fulltrúa, jafnmarga fulltrúa hvert fylki. Það er gert til að tryggja áhrif ákveðinna svæða. Enginn hefur talað um mannréttindabrot í því sambandi. (KHG: Kannski sendiherrann mundi gera það.) Ýmsir hafa lagt orð í belg í þessu sambandi, það er rétt hjá hv. 5. þm. Vestf. Ég vil einnig minna á að við höfum notið þess á mörgum sviðum í alþjóðasamskiptum að hafa margfalt atkvæðavægi miðað við fólksfjölda, svo margfalt að allar slíkar tölur hér innan lands blikna á móti því. Ég held við höfum margfalt atkvæðavægi í Norðurlandaráði svo dæmi sé tekið miðað við fólksfjölda og hjá Sameinuðu þjóðunum. Engum dettur í hug að tala um mannréttindabrot í því sambandi. Ég vildi koma þessu að við umræðuna og vænti þess að varlegar verði talað í þessum efnum. Það er nú satt að segja hálfleiðinlegt að hlusta á slíkar staðhæfingar um þetta efni.

[17:15]

Ég hef tækifæri til að fjalla um þetta mál í þeirri sérnefnd sem fjallar um frv. Það eru auðvitað mörg ákvæði þess sem þarf að skoða betur, eins og t.d. það hvort á að hafa innbyggð ákvæði í frv. sem gera beinlínis ráð fyrir því að enn fækki á landsbyggðinni og að jafna þurfi innan skamms tíma á ný. Og fleiri atriði þurfa skoðunar við í þessu sambandi. En ég mun skoða það mál með opnum huga. Ég reikna með að þetta frv. verði samþykkt í einhverri mynd en tel að það verði að gerast eftir vandlega skoðun. Ég tel að bærileg samstaða sé um að taka þetta skref í jöfnun atkvæða en það er alls ekki sama hvaða hliðarráðastafanir verða gerðar í því sambandi eða hvernig gengið er frá frv. að öðru leyti.