Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 17:48:16 (1378)

1998-11-19 17:48:16# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[17:48]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Grundvallaratriðið er það að hér liggur fyrir frv. sem hefur einn tilgang, þann að fjölga þingmönnum á höfuðborgarsvæðinu og fækka þeim á landsbyggðinni. Það er bara aðalatriði málsins. Og til að friða menn á landsbyggðinni af því að verið er að fækka þingmönnum er þeim boðinn aðstoðarmaður. Þannig að þegar Framsfl. í Norðausturkjördæminu er hættur að hafa einhvern Austfirðing í þingsæti þá geti Eyfirðingarnir sem því ráða ákveðið að ráða sér skrifstofumann á Egilsstöðum til að vera aðstoðarmaður þingmanns. Það er þá betra að hafa kerfið þannig að Austfirðingar geti sjálfir kosið sér þingmann, þingmann sem þeir vilja fá, án þess að þurfa að spyrja Eyfirðingana að því hvað þeir vilja.

Í frv. segir í raun hvað varðar Vesturland, Vestfirði og Norðurland vestra að þetta svæði sem í dag hefur 15 þingmenn hefur enga tryggingu fyrir því að hafa meira en fimm samkvæmt þessari nýju skipan mála. Það á að fækka þeim strax um fimm, fljótlega um einn í viðbót og síðan á einhverju árabili gæti þeim fækkað um aðra fjóra. Þetta er það sem menn eru að gera. Hverjir eru bættari með þessu? Hvaða vandamál höfum við leyst með þessu?

Hæstv. forsrh. nefndi hér byggðamálin sem eðlilegt er, svo mjög sem þau hafa verið í umræðunni, og ég spyr ráðherra: Hvað hefur lagast í byggðamálunum við þetta? Hvernig er landsbyggðin betur stödd eftir þá breytingu en fyrir?