Evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 18:06:40 (1383)

1998-11-19 18:06:40# 123. lþ. 28.6 fundur 184. mál: #A miðlun upplýsinga og samráð við starfsmenn á Evrópska efnahagssvæðinu# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[18:06]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og ég sagði í framsögu minni eru tvö fyrirtæki með starfsemi á Íslandi sem hafa þegar gert þennan samning. Ég hygg að þau séu ekki mörg sem hefðu möguleika á að gera svona samning en mér dettur í hug að Íslensk erfðagreining gæti væntanlega áður en langt um líður, ef það væri ekki nú þegar hægt, uppfyllt þau skilyrði sem til þess þarf. Mér er ekki kunnugt um hvað þetta lyfjafyrirtæki úti í heimi sem það er í samstarfi við hefur marga starfsmenn en Íslensk erfðagreining hefur líklega ef nú ekki þegar 150 starfsmenn, þá uppfylla þeir væntanlega lágmarkið áður en langt um líður. Ef hitt fyrirtækið hefði 1.000 að þá eru skilyrði til þess arna.

Ég skal ekki spá hver framvindan verður en það eru verulegar líkur á því að 150 manna útibú rísi frá erlendum fyrirtækjum hér á landi eða fyrirtæki í tengslum við erlend fyrirtæki þannig að eðlilegt er að hafa þennan farveg opinn.

Hvað varðar minni fyrirtæki erum við einungis að uppfylla þá lagaskyldu í þessu frv. sem lögð er á þessi stóru fyrirtæki. Ég hef ekki látið skoða það eða ekki haft frumkvæði um að skoða það að færa það út til minni fyrirtækja. Á hinn bóginn erum við að sjálfsögðu að fylgjast með þeim vinnuréttartilskipunum sem gerðar eru hjá Evrópusambandinu og hjá ILO og það er vinna í gangi með það í ráðuneytinu.