Lögheimili

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 18:12:35 (1386)

1998-11-19 18:12:35# 123. lþ. 28.7 fundur 185. mál: #A lögheimili# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[18:12]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég var ekki mjög hrifin þegar ráðherrann kom síðast með frv. þar sem verið var að gera breytingar vegna hækkunar á lögræðisaldri. Það var vegna þess að þar var breyting á lögunum um vernd barna og ungmenna og ég taldi mikilvægt að það frv. væri að koma í víðtækari búningi með þeim breytingum sem hefur verið beðið eftir í þeim málaflokki. Þess vegna vil ég sérstaklega nota tækifærið núna þegar ráðherrann er að gera breytingar á lögum þar sem ekki er þörf á öðru eftir því sem ég best veit hvað varðar umönnun barna og ungmenna en að hækka þessi aldursmörk, til að lýsa yfir ánægju minni með það og tel að það hafi verið Alþingi til mikils sóma að gera þær breytingar sem gerðar voru á lögræðisaldrinum og tel að þar hafi Alþingi sameinast um góða lagasetningu. Ég hvet til þess að eins fljótt og unnt er verði gerðar þær breytingar sem þarf að gera á öllum lögum til þess að þau taki til þessa aldurshóps svo mikilvæg sem þau eru.