Tryggingagjald

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 18:26:40 (1391)

1998-11-19 18:26:40# 123. lþ. 28.9 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[18:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gat þess að eðlilegur lífeyrir væri 70--80% af meðallaunum. Ég er á þeirri skoðun að þetta sé allt of hátt. Það er nefnilega þannig að hinn vinnandi maður sér bæði um kynslóðina fyrir aftan sig og fyrir framan sig. Hann sér bæði um uppeldi barna og um að borga í lífeyrissjóð fyrir gamla fólkið, og þess vegna hlýtur hann að þurfa miklu hærri tekjur en sem þessu nemur, hærra heldur en ellilífeyrisþeginn. Það er almennt talið í almannatryggingakerfum og í tryggingafræði að eðlilegt mark sé 50--60%.

Herra forseti. Ég hlýt einnig að mótmæla því eða lýsa efasemdum um það að ríkisvaldið sé að stýra hegðun einstaklinga eins og hér er gert ráð fyrir, þ.e. að rífa fyrst af fólkinu skattana, rífa hluta teknanna af því, og svo ef það að hegðar sér á vissan hátt þá fær það endurgreitt. Ef það sparar í lífeyrissjóð þá fær það endurgreitt, ef það á börn þá fær það barnalífeyri, ef það skuldar nægilega mikið þá fær það vaxtabætur o.s.frv. Ég vil ekki að ríkið skipti sér af hegðun einstaklinga með þessum hætti þannig að ég hef ákveðnar efasemdir um svona aðferð.

Þetta frv. flækir öll mál sérstaklega mikið. Þetta er óskaplega flókið, gerir flókið kerfi enn þá flóknara og ég geri ekki ráð fyrir því að nokkur skilji það nema þeir sem hafa dýra endurskoðendur og geta notað kerfið eins og alltaf hefur verið.

Ég vil einnig boða breytingar á frv. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Ég vil að sjóðfélagarnir eigi lífeyrissjóðina og mun flytja brtt. um það. Og ég vil einnig að sjóðfélagar kjósi stjórnir lífeyrissjóðanna sinna.