Tryggingagjald

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 18:30:23 (1396)

1998-11-19 18:30:23# 123. lþ. 28.9 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[18:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að halda langa tölu hér. Ég segi eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, flokkssystir mín, að mér finnst þetta hið ágætasta frv. Með þessu frv. er reynt að efla sparnað í þjóðfélaginu og draga úr þenslunni og hæstv. fjmrh. telur að þetta geti aukið sparnað um 5 milljarða.

Þetta frv. sprettur af vinnu nefndar sem hann setti á laggirnar og átti að leggja fram ýmsar hugmyndir sem áttu að miða að því að draga úr þenslunni. Þessi nefnd varpaði fram ýmsum hugmyndum. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki eigi að gera neitt varðandi aðrar hugmyndir sem fram komu hjá þessari nefnd. Sér í lagi minnist ég þess að þar var m.a. reifaður sá möguleiki að koma upp húsnæðissparnaðarreikningum. Nú hafa tveir eða þrír þingmenn Sjálfstfl. lagt fram frv. um slíkt. Það hefur ekki hlotið náð, að ég hygg, enn fyrir augum þingsins og þá sérstaklega vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki talið það æskilegt. Á sínum tíma voru þessir sparnaðarreikningar talsvert mikilvægir. Þeir voru lagðir af í tíð fyrri ríkisstjórnar, m.a. vegna þess að menn töldu þá misnotaða, aðallega af sjálfstæðum atvinnurekendum.

Hvernig var sú misnotkun, herra forseti? Menn töldu að verið væri að búa til lífeyrissjóði fyrir þessa aðila. En það er nákvæmlega það sama og gera á með þessu frv., að draga peninga úr umferð með því að auka lífeyrissparnað. Húsnæðissparnðarreikningarnir eða hin meinta misnotkun þeirra var nákvæmlega hin sama.

Ég held, herra forseti, að æskilegt væri að leyfa þessa reikninga aftur. Það væri hægt að binda þá einhvers konar skilyrðum sem drægju þá mögulega úr því sem þáv. fjmrh. sem situr nú hérna í salnum, glaðbeittur á svipinn, kallaði misnotkun.

Mig langar líka að varpa þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort hann telji ekki koma til greina að hvetja fólk til þess að koma upp sérstökum námssjóðum fyrir börn sín með einhvers konar skattaívilnunum. Erlendis tíðkast að foreldrar spari árum saman til þess að tryggja velferð barna sinna þegar þau fara á háskólastig. Ég held að það sé einn af þeim valkostum sem fólk ætti að hafa. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hann telji ekki koma til greina að reyna að draga úr þenslunni í þjóðfélaginu með því að gefa fólki kost á þessum sparnaðarleiðum.

Ég er alveg sammála því að markmiðið með umræddu frv. er gott. Ég held að þetta sé æskileg leið en fólk á að geta valið. Ég hef nefnt hérna tvær aðrar leiðir sem hníga að nákvæmlega sama markmiði og því sem hæstv. fjmrh. vill ná fram með sínu frv. Hví í ósköpunum er hann ekki til í að hrinda einhverju slíku úr vör líka? Sér í lagi spyr ég eftir hugmynd sem ég held að hafi komið fram í hans eigin nefnd, þ.e. um húsnæðissparnaðinn.