Tryggingagjald

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 18:37:42 (1399)

1998-11-19 18:37:42# 123. lþ. 28.9 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[18:37]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig nú hafa svarað síðari spurningunni hér áðan. Þetta er vissulega eitt af því sem er til athugunar. Út af fyrstu spurningu hv. þm. vil ég geta þess að í frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem ég gat um áðan og tekur á sparnaði vegna hlutabréfakaupa, er markið hækkað á nýjan leik, úr 40% upp í 60% af ákveðinni upphæð eins og það var á síðasta ári.

Menn mega ekki gleyma því að það er hægt að spara fyrir námskostnaði, húsnæðiskaupum eða hverju sem er án þess að leggja peninginn inn á sérgreinda reikninga í því nafni. Má ég benda fólki á að besta leiðin, sennilega bestu húsnæðissparnaðarreikningarnir og námskostnaðarreikningarnir sem völ hefur verið á hér á Íslandi árum saman heita spariskírteini ríkissjóðs. Þar hafa menn fullkomið val um í hvað þeir eyða þeim peningum þegar þar að kemur. Á þeim bréfum hefur verið ágætisávöxtun, meira að segja svo mikil að fyrrv. fjmrh. sá ástæðu til þess að innleysa fyrir fram hluta af þeim bréfum vegna þess að það var svo fín ávöxtun á þeim. Það er því ýmislegt sem hægt er að gera ef menn vilja spara. Það er ekki vandamálið. En vandamálið með að búa til sérgreindar leiðir er að þar er í fyrsta lagi ekki um að ræða nýjan sparnað, ekkert endilega. Í öðru lagi geta menn lent í erfiðleikum ef menn þurfa að nota peningana, séu þeir bundnir í ákveðið markmið, við að leysa þá út. Það getur líka verið gott, hv. þm., að eiga kost á almennum, ótilgreindum sparnaðarleiðum. ,,Skil jú?``