1998-11-30 15:05:44# 123. lþ. 29.91 fundur 122#B afgreiðsla heilbrigðis- og trygginganefndar á málum um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að vekja athygli Alþingis á því að í lok síðustu viku var frv. um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði afgreitt úr þingnefnd og er fyrirhugað að það komi fljótlega til umræðu og afgreiðslu í þinginu. Um leið og mælt var fyrir gagnagrunnsfrv. var talað fyrir þáltill. um dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði sem þingflokkur óháðra flutti. Þessari þáltill. var einnig vísað til heilbrn. þingsins. Nú kemur á daginn að meiri hluti heilbrn. fellir það í atkvæðagreiðslu að afgreiða þessi þingmál samtímis og frv. frá jafnaðarmönnum sama efnis og gefa þannig Alþingi kost á því að taka afstöðu til þeirra allra. Frv. ríkisstjórnarinnar á að ræða og greiða atkvæði um á næstu dögum. Hin málin á að frysta í nefnd þannig að þau komi ekki til frekari afgreiðslu í þinginu. Þetta er ámælisvert og þetta eru ólýðræðisleg vinnubrögð. Því verra er málið að gegn frv. ríkisstjórnarinnar er mikil og vaxandi andstaða í vísindasamfélaginu og á meðal samtaka sjúklinga þó kappsamlega sé reynt að slá ryki í augun á fólki með fullyrðingum um að sátt sé að skapast í málinu. Þetta er rangt, þetta eru ósannindi. Það er vaxandi andstaða gegn því að erlendir áhættufjárfestar fái sérleyfi fyrir heilbrigðisupplýsingum íslensku þjóðarinnar til að versla með við trygginga- og lyfjafyrirtæki.

Hins vegar kemur í ljós að mikill stuðningur er við hugmyndir um dreifða gagnagrunna sem lúti umsjá vísindasiðanefnda.

Hæstv. forseti. Það er brotalöm í starfsháttum þingsins ef meiri hlutinn getur á þennan hátt kæft mál og komist hjá því að þingið taki lýðræðislega afstöðu til þeirra. Ég mælist til þess við forseta þingsins að gagnagrunnsfrv. verði ekki rætt í þinginu fyrr en þáltill. um dreifða gagnagrunna og frv. jafnaðarmanna hefur fengist afgreitt frá heilbrn.