1998-11-30 15:15:42# 123. lþ. 29.91 fundur 122#B afgreiðsla heilbrigðis- og trygginganefndar á málum um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka að það er brotalöm í starfsháttum Alþingis Íslendinga að fótumtroða lýðræðið. Það er alvarleg brotalöm í starfsháttum þingsins. Hæstv. forseti benti á eða staðhæfði að ekki hefði unnist tími til að afgreiða málið í hv. heilbrn. Þetta er rangt, hæstv. forseti. Það var tekin um það yfirveguð afstaða af hálfu meiri hluta heilbrn. að fella það í atkvæðagreiðslu að fjalla um þessi mál samtímis þótt þau séu öll greinar af sama meiði. Hér er um að ræða sama málið og það er eðlilegt að fjallað sé um þau í senn þannig að Alþingi gefist kostur á að taka afstöðu til þeirra í senn.

Hér er um að ræða eitt stærsta mál sem komið hefur fyrir Alþingi Íslendinga á síðari tímum. Það er verið að fela heilbrigðisupplýsingar um íslensku þjóðina í hendur á bandarískum áhættufjárfestum til að versla með þessar upplýsingar við erlenda lyfjarisa og erlend tryggingafyrirtæki. Um þetta fjallar þetta mál.

Og hv. þm. leyfir sér að koma hér fram og segja: ,,Við ætluðum að afgreiða þetta fyrir jól.`` Þetta eru sömu staðhæfingar og við heyrðum í vor. Þá átti líka að afgreiða málið. En er það ekki ætlan Alþingis Íslendinga að afgreiða lög sem Alþingi Íslendinga getur verið sátt við? Er það ekki markmiðið? Og að þau byggi á lýðræðislegum vilja og helst sátt við þjóðina? Með þessu frv. er verið að efna til ófriðar og ósættis í íslensku samfélagi og svo sannarlega við íslenska vísindasamfélagið og í andstöðu við yfirlýstan vilja samtaka sjúklinga.