Þingmannamál um dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:23:11 (1412)

1998-11-30 15:23:11# 123. lþ. 29.94 fundur 125#B þingmannamál um dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði# (um fundarstjórn), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en bætt eilitlu við í kjölfar orða hæstv. forseta áðan í þá veruna að reyndir þingmenn ættu að þekkja það og venjast því að mál færu til nefndar og kæmu ekki þaðan aftur. Með öðrum orðum að hv. þingmenn eiga hér að ganga að því sem vísu að mál stjórnarandstöðu fari inn í nefnd og komi ekki þaðan aftur, en ef um er að ræða stjfrv. þá eigi hv. reyndir þingmenn að venjast því að þau komi þaðan hratt aftur. Þetta er ekki viska sem ég get undirgengist, það er nú bara þannig. Þess vegna vil ég láta það koma skýrt fram að ef hv. heilbrn. afgreiðir ekki það mál sem ég er 1. flm. að fyrir afgreiðslu frv. heilbrrh. (Gripið fram í: Er þetta lýðræði?) þá mun ég gaumgæfa allar þær leiðir sem ég á þingsköpum samkvæmt. (Gripið fram í: Eru þetta ...?) Hótanir? Ég er að lýsa yfir leiðum mínum til þess að koma viðhorfum mínum hér á framfæri, sem var tilgangur málsins. Ég á ýmsa kosti í því. Ég get til að mynda gert brtt. við hverja einustu grein frv. því að frv. mitt var einmitt byggt upp með svipuðum hætti til þess að auðveldara yrði en ella að fara yfir það samhliða frv. hæstv. heilbrrh. En það var ekki pólitískur vilji til þess.

Ég ætla ekki að leggja það í vana minn, virðulegi forseti, að líta þannig á að það sé sjálfsagður og eðlilegur hlutur og fylgi hér reynslunni að mál stjórnarandstöðu fái að daga uppi í nefndinni en mál stjórnarinnar komi þaðan jafnharðan út. Það ætla ég ekki að leggja í vana minn og fæ væntanlega aldrei þá reynslu hér af þingstörfum að það verði sjálfsagður hlutur.