Desemberuppbót ellilífeyrisþega

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:27:45 (1415)

1998-11-30 15:27:45# 123. lþ. 29.1 fundur 113#B desemberuppbót ellilífeyrisþega# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:27]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsrh. Fyrirspurn mín lýtur að desemberuppbót launþega og ellilífeyrisþega. Ég spyr:

Hver er skoðun hæstv. forsrh. á því að skattlögð sé upp í topp desemberuppbót elli- og örorkulífeyrisþega sem hæst geta fengið 14 þús. kr. í desemberuppbót meðan launþegar fá í eingreiðslu nú í desember 26 þús. kr., sem er sama fjárhæð hjá öllum óháð tekjum ef um er að ræða sama vinnutíma á árinu?

Elli- og örorkulífeyrisþegar sem fá hæstu desemberuppbót fá aðeins tæpar 14.300 kr. Þeir sem hafa enga heimilisuppbót, sem er mjög stór hópur, fá eingöngu rúmar 8.300 kr. í desemberuppbót sem síðan skerðist með skertri tekjutryggingu. Af hverri krónu af þessari litlu desemberuppbót lífeyrisþega eru síðan tekin 39% í skatt þannig að í skatt eru teknar aftur um 3.300 kr. af um 8.300.

Telur hæstv. forsrh. ekki ástæðu til að gera hér breytingu á þannig að í fyrsta lagi fái ellilífeyrisþegar ekki lægri desemberuppbót en gerist á vinnumarkaðnum? Og í öðru lagi hvort ekki sé full ástæða, ekki síst nú í góðærinu, að skoða það að fella niður skattlagningu af þessari litlu desemberuppbót lífeyrisþega?