Fjármögnun heilbrigðisþjónustu

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 15:37:28 (1422)

1998-11-30 15:37:28# 123. lþ. 29.1 fundur 114#B fjármögnun heilbrigðisþjónustu# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:37]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég flutti ræðu á aðalfundi hjá hjúkrunarforstjórum í síðustu viku þar sem ummæli þau sem hér er vitnað til voru látin falla. Þar var fjallað um ýmsa möguleika í sambandi við framtíðarfjármögnun í heilbrigðisþjónustunni. Mér kemur ekki á óvart að hv. þm. hristi hausinn og leggist gegn alls kyns nýjum hugmyndum sem koma fram á slíkum fundi um þann vanda sem við er að fást í heilbrigðisþjónustunni en þar er fyrst og fremst um að ræða fjármögnunarvanda. Fyrir mitt leyti tel ég sjálfsagt að menn eins og ég og hann borgum eilítið meira fyrir heilbrigðisþjónustuna. Ég tel ekki að við séum neinir sérstakir sjúklingar eða séum ekki færir um að greiða pínulítið meira fyrir þá þjónustu sem um er að ræða.

Það er líka sjálfsagt mál að kanna kosti einkafjármögnunar sem við höfum sparað okkur stórfé á í sambandi við Iðnskólann í Hafnarfirði, hvort það fyrirbæri gæti skilað okkur einhverjum ávinningi í heilbrigðisþjónustunni eins og í skólakerfinu. Menn verða að vera opnir fyrir slíkum möguleikum og ekki má líta þannig á að það þurfi alltaf að vera sami aðilinn sem veitir þjónustuna og sá sem borgar fyrir hana. Að stærstum hluta til mun ríkið eftir sem áður borga fyrir þá þjónustu þó að einkafyrirtæki eða aðilar sem samið er við veiti hana. Það gerum við auðvitað, þekkjum það með prívatpraxís á læknastofum o.s.frv.

Aðalatriði málsins er það, og út á það gekk ræða mín á fundinum, að það verður að brjótast út úr fjármögnunarvandanum í heilbrigðisþjónustunni. Einn möguleiki er sá að tengja saman fasta grunnfjármögnun á spítölum og síðan með einhverjum hætti greiðslur fyrir þau verk sem þar eru unnin. Það má kalla það afkastatengingu en kjarni málsins er þó sá og það erum við væntanlega öll sammála um og það tók ég sérstaklega fram í minni ræðu að allir Íslendingar vilja tryggja landsmönnum öllum góða og örugga heilbrigðisþjónustu þegar fólk þarf á því að halda enda er það ein af grunnforsendunum fyrir velferðarkerfinu. Menn mega ekki vera svo þröngsýnir að þeir geti ekki einu sinni rætt nýja möguleika á þessu sviði.